Lífsval ehf auglýsir búrekstrarjarðir til sölu í Morgunblaðinu (02.03.2013).
Búrekstrarjarðir er öldungis óþarft nýyrði. Nægt hefði að auglýsa jarðasölu, að jarðir væru til sölu. Stundum er talað um bújarðir, en ekki hefur Molaskrifari áður heyrt talað um búrekstrarjarðir.
Fremur kjánaleg frétt birtist á mbl.is (02.03.2013) um mann sem beið bana þegar jörðin opnaðist undir rúmi hans. Hjúp hola eða gjóta myndaðist og hann beið bana. Í frétt á mbl.is var í fyrstu sagt að maðurinn hefði lent í miklum hrakförum! Einhver hefur blessunarlega verið á vakt og fylgst með fréttabarninu sem þarna var að verki og lagfært fréttina þannig að hún varð birtingarhæf. Ekki alls varnað, sem betur fer. Gott.
Hversvegna flytur Ríkisútvarpið ummæli á ensku í fréttatímum án þess að þýða þau? Þetta var gert í fréttapistli í Speglinum á föstudag (01.03.2013) frá Bandaríkjunum um niðurskurð útgjalda þegar flutt voru ummæli djákna öldungadeildarinnar óþýdd. Ríkisútvarpið getur ekki gengið út frá því að allir sem hlusta á fréttir skilji ensku. Ríkisútvarpið hefur skyldur gagnvart móðurmálinu.
.. og það tókst eftir miklan barning, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (02.03.2013). Það tókst eftir mikinn barning hefði hann heldur átt að segja.
Barningur kk, barátta, basl, átök.
Nýlega var rifinn múr í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps. Átt var við að múr hefði verið rofinn. Á mánudagsmorgni (04.03.2013) varð hrun í morgunþætti Rásar tvö, en þá hrundu inn tilkynningar um að skólahald félli niður víða á Norðurlandi vegna illviðris.
Líklega er einhver versta ákvörðun útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins í rúmlega áttatíu ára sögu þeirrar virðulegu stofnunar sú að banna starfsmönnum að nota hið rétta heiti stofnunarinnar, Ríkisútvarpið, og kalla hana þess í stað rúv öllum stundum. Er þetta minnimáttarkennd gagnvart því að stofnunin sé kennd við eiganda sinn, íslenska ríkið, íslensku þjóðina?
Vinur og lesandi Molanna sendi þetta (02.03.2013): ,,Þessi auglýsing í bæjarblaði vakti mikla athygli og var á einhverjum tímapunkti notuð sem kennsluefni í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Og þetta er dagsatt, birtist ca. 1985. Mér finnst þetta alltaf ágæt saga – og það var Selfossbær sem þá auglýsti. Boðaðar voru aðgerðir, sem þóttu helst til harkalegar miðað við tilefni. ”
,,Af gefnu tilefni skal tekið fram og tilkynnt eigendum hunda sem ganga lausir, að þeir geta átt á hættu að verða handsamaðir hvar sem til þeirra næst og þeir aflífaðir án frekari viðvörunar.“
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar