«

»

Molar um málfar og miðla 1151

,,Vonbrigði hvernig málinu er fyrir komið”, segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þetta á að vera tilvitnun í Salvöru Nordal, fyrrverandi formann Stjórnlagaráðs. Í fréttinni kemur hinsvegar fram að Salvör hafi sagt :,, … segir mikil vonbrigði hvernig komið sé fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu á Alþingi.” Það er annað mál.

Þeir sem gera athugasemdir við ambögur og slettur í fjölmiðlum fengu snuprur hjá rithöfundinum Guðmundi Andra Thorssyni í Fréttablaðinu á mánudag (04.03.2013). Sérstaklega var amast við því að gerðar væru athugasemdir við málfar umsjónarmanna sem Ríkisútvarpið hefur afhent alla virka morgna á Rás tvö. Þar heyrast ambögur og slettur, en það heitir: … ,,þau eiga svo auðvelt með að tjá sig , hafa skemmtilegt tungutak með sterku svipmóti”. Öllu má nafn gefa. Mest er þetta óttalegt bull. Ambögur og slettur geta aldrei verið til fyrirmyndar.

Blóðgjöf spilaði þar mjög stóra rullu, var sagt í fréttum Ríkisjónvarps (04.03.2013). Það er auðvitað svolítil tilbreyting að heyra dönskuslettu, ekki sífelldar enskuslettur. En seint getur þetta líklega talist vandað mál. Málfarsráðunautur hefði þurft að lesa þessa frétt yfir, áður en hún var lesin fyrir okkur. Les kannski enginn yfir? Eru allir svo vel skrifandi og talandi að yfirlestur sé óþarfur?

Landaði hlutverki, sagði dagskrárkynnir Ríkissjónvarps (03.03.2013) um leikkonu sem valinn var til að leika tiltekið hlutverk. Þetta tískuorðalag finnst Molaskrifara vera hálfgert bull. Málfarsráðunautur ætti að lesa þessa kynningartexta yfir og svo ætti að hlífa okkur við síbyljunni með annarlegu áherslunum, – hér (hikk) á rúv.
Bjagaðar áherslur eiga ekki heima í dagskrárkynningum í sjónvarpi.

Af dv.is (04.03.2013): … segir hann og segist vilja að til hefði orðið vettvangur þar sem hægt væri að samrýma þessar aðferðir, en það hafi ekki tekist. Það stenst illa að tala um að samrýma aðferðir. Hér hefði átt að tala um að samræma aðferðir.

,,Frétt” um mannabreytingar hjá 365 miðlum sem flutt var í seinni fréttum Ríkissjónvarps (04.03.2013) var gott dæmi um sjálfhverfu fjölmiðla. Þetta var ekki frétt. Þjóðin hefur afskaplega takmarkaðan áhuga á því hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson skákar mönnum til í veldi sínu.

Af mbl.is (05.03.2013): ,,Dularfullt fyrirbæri á himninum vakti athygli íbúa á höfuðborgarsvæðinu í dag. Að sögn Kristínar Hermannsdóttur veðurfræðings er þetta flugslóði eftir þotu sem tók í þetta skipti á sig óvenjulega mynd”. Gott orð flugslóði http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/05/dularfullt_fyrirbaeri_a_himni/
.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fréttamat í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins sýnir oftar en ekki að þar hafa menn þröngan sjóndeildarhring og asklok fyrir himin.

  2. Kristján skrifar:

    Grein Guðmundar Andra er athyglisverð eins og gera má ráð fyrir. Deili hins vegar ekki aðdáun hans á morgunútvarpi Rásar 2. Góðir til kl.níu en svo tekur vitleysan við.

    Önnur mannabreyting sem RÚV sýndi mikinn áhuga var brottrekstur aðstoðarþjálfara KR
    í körfubolta. Þetta var meðhöndlað eins og stórfrétt, enda margir KR-ingar sem vinna…hér
    á RÚV.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>