Hafa þessir föstu bílar verið að olla miklum vandræðum? Þannig spurði fréttamaður Ríkisútvarps í hádegisfréttum á miðvikudag (06.03.2013) í annars prýðilegu yfirliti yfir ófærð og óveður á Suðvesturlandi. Sé málfarsráðunautur enn starfandi við Ríkisútvarpið ætti hann að halda sérstakt námskeið um notkun og beygingu sagnarinnar að valda. Það er engin sögn til í íslensku sem heitir að olla. Þetta hefur svo sem verið nefnt hér áður.
Orð ber að umgangast af virðingu og , – varúð. Jónas Kristjánsson kallar þá kvislinga sem ekki eru tilbúnir til að samþykkja stjórnarskrárfrumvarp í flaustri í lokahrinu þingsins (05.03.2013). Kvislingar voru þeir kallaðir í Noregi sem voru samstarfsmenn og stuðningsmenn nasistaleppsins Vidkuns Quislings. Margir voru þeir landráðamenn, en nytsamir sakleysingjar sjálfsagt innan um, – föðurlandssvikarar, sem voru valdir að dauða fjölmargra landa sinna og báru ábyrgð á að margir voru sendir í fangabúðir í Þýsklandi þaðan sem þeir áttu ekki afturkvæmt. Orðið kvislingur hefur síðan náð fótfestu í flestum tungumálum heims. Allir skilja við hvað er átt. Fyrirlitlega menn sem svíkja land sitt og þjóð. Að kalla þá kvislinga sem betur vilja vanda til verka við nýja stjórnarskrá lýðveldisins , – ná breiðari samstöðu, -nær auðvitað engri átt. Hörðustu andstæðingar ESB aðildar hafa kallað andstæðinga sína föðurlandssvikara, og nasistatilvísanir hafa verið þeim nærtækar. Það nær heldur engri átt. Löng reynsla er fyrir því að í lokasennunni fyrir þinglok, ekki síst þegar stutt er í kosningar, er hætt við að mistök verði í lagasetningu vegna þess að ekki er tími til að gaumgæfa mál og vinna með eðlilegum hætti. Það má ekki gerast með nýja stjórnarskrá. Þegar Jónas Kristjánsson skrifar eins og hann gerir (06.03.2013): Kvislingurinn Árni Páll Árnason felldi skrána eins og raunar hefur lengi verið ljóst. Skrif af þessu tagi ætt að vera fyrir neðan virðingu reynds blaðamanns og ritstjóra eins og Jónasar Kristjánssonar. Þetta verðskuldar enginn íslenskur stjórnmálamaður. Þetta er Jónasi Kristjánssyni til skammar.
Hér er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (06.03.2013): Ferðamönnum aðstoðaðir í Landmannalaugum. http://www.ruv.is/frett/ferdamonnum-adstodadir-i-landmannalaugum Fréttabörn ganga víðar laus en á mbl.is. Líklega þarf Ríkisútvarpið að ráða fleiri málfarsráðunauta. Einhver tók í taumana og lagfærði þetta eftir nokkra stund.
Af visir.is (05.03.2013): Norska ferjan Kong Harald strandaði í Trollfjorden nálægt Lófóten í skömmu eftir miðnættið í nótt. Kong Harald er strandferðaskip, ekki ferja. Skipið er hluti af samgöngukerfinu sem Norðmenn kalla hurtigruten, en það er floti farþegaskipa sem siglir með endilangri standlengju Noregs, Bergen – Kirkenes – Bergen og kemur til 34 hafna. Vinsæl ferðamannaleið. Í fyrra eða árið þar áður gerði norska ríkissjónvarpið einn lengsta sjónvarpsþátt sögunnar þar sem öll sjóferðin var mynduð í samfellu. Flestum að óvörum varð þetta eitt vinsælasta efni sem norska sjónvarpið hefur sýnt.
Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2013) var talað um óánægju í hópi Sjálfstæðra Evrópumanna. Átti sennilega að vera: .. í hópi Sjálfstæðra Evrópusinna, sem er dálítið annar handleggur.
Í fréttum Ríkissjónvarps (05.03.2013) talaði fréttamaður réttilega um að eiga hvergi höfði sínu að að halla. Í inngangi fréttarinnar var hins vegar sagt, – eiga hvergi höfði sínu að halla, sem er ekki rétt. Sjá 93. þátt Jóns G. Friðjónssonar um Íslenskt mál frá 30. desember 2006: http://málfræði.is/grein.php?id=583
Af mbl.is (05.03.2013): Þar missti ökumaður flutningabíls með tengivagn í eftirdragi stjórn á ökutækinu í vondri færð með því afleiðingum að vegurinn lokaðist. Hvernig sleppa svona villur inn á netið. Ekkert gæðaeftirlit?
Molaskrifara er hlýtt til SÍBS af mörgum ástæðum og hefur átt miða í happdrætti þeirra ágætu samtaka í áratugi. Hann getur ekki að því gert að honum þykja ,,vinaauglýsingar” SÍBS í sjónvarpi vera væmnar og fremur illa leiknar. Því miður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
17 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/03/2013 at 13:17 (UTC 0)
Þetta skiptir mig heldur ekki máli, en ég hef svo sannarlega komist að raun að ég var alls ekki sá eini sem heyrði þetta svona.
Axel skrifar:
09/03/2013 at 13:14 (UTC 0)
Þetta mál skiptir mig engu máli og ég hef enga mögulega hagsmuni að gæta. En ég hef góða heyrn og það er greinilegt að fréttamaðurinn segir ,,valda“. Ég hef látið alla mína heimilismenn hlusta á þetta og allir eru sammála um að fréttamaðurinn segir ,,valda“. Það er mér hulin ráðgáta hvernig má heyra ,,olla“. Ég svosem veit að fólk sér heiminn með sínum augum. Það á greinilega við um fleiri skynfæri.
Bestu kveðjur.
Hjörtur Einarsson skrifar:
08/03/2013 at 15:10 (UTC 0)
Sögnin ‘olla’ er hins vegar til í sænsku.
Eiður skrifar:
08/03/2013 at 13:08 (UTC 0)
Það fór ekkert á milli mála. Undarlegt hvað þessi ábending hefur farið illa í marga.
Ingibjörg skrifar:
08/03/2013 at 09:12 (UTC 0)
Ég verð að taka undir með Eiði hér, fréttamaðurinn segir olla en ekki valda.
Axel skrifar:
07/03/2013 at 22:05 (UTC 0)
Skafa úr eyrunum Eiður. Fréttamaðurinn er ekki einu sinni nálægt því að segja ,,olla“. Þetta er samt einhver besta umræða internetsins síðan mælingar hófust. Meira af þessu.
Eiður skrifar:
07/03/2013 at 20:05 (UTC 0)
Ég er búinn að marg hlusta á þetta. Greinilega komin herferð í gang.
Þorvaldur S skrifar:
07/03/2013 at 18:53 (UTC 0)
Og ef ég má leggja orð í belg. Fréttamaðurinn sagði „valda“. Um það er engum blöðum að fletta.
Lára skrifar:
07/03/2013 at 17:40 (UTC 0)
Hver myndi segja ,,olla vandræðum“? Það meikar engan sens enda alveg skýrt að fréttamaðurinn segir: ,,Hafa þessir bílar verið hérna að valda miklum vandræðum“ svo ég setji nú hikorðið með. Kannski það trufli einhverja 😉
Eiður skrifar:
07/03/2013 at 17:35 (UTC 0)
Tilgangslaus umræða. Er búinn að hlusta fjórum sinnum á þetta.
Hallgrímur skrifar:
07/03/2013 at 17:21 (UTC 0)
Verð ég ekki að reyna líka ? Heyrist greinilega að ég segi valda – sver og sárt við legg að það var það sem ég sagði 🙂
Eiður skrifar:
07/03/2013 at 17:06 (UTC 0)
Rangt.
Heiðar skrifar:
07/03/2013 at 16:28 (UTC 0)
Fréttamaðurinn sagði valda. Það má heyra hér, eftir 5 mínútur og 40 sek
http://www.ruv.is/sarpurinn/hadegisfrettir/06032013/almannavarnir
Eiður skrifar:
07/03/2013 at 16:04 (UTC 0)
Þá hefur þú þú öðruvísi heyrn en aðrir. Það heyrðu þetta fleiri sem voru að hlusta á fréttirnar í hádeginu í gær.
Jón skrifar:
07/03/2013 at 15:56 (UTC 0)
Ég hlustaði aftur og aftur heyrði ég fréttamanninn segja „valda“.
Eiður skrifar:
07/03/2013 at 15:11 (UTC 0)
Ég heyrði þetta greinilega í fréttunum og og er síðan búuinn að tvíhlusta á það á netinu: … olla vandræðum. Fer ekkert milli mála.
Jón skrifar:
07/03/2013 at 13:37 (UTC 0)
Ég hlustaði á fréttirnar og heyrði fréttamanninn spyrja:
„Hafa þessir föstu bílar verið að valda miklum vandræðum? „