«

»

Molar um málfar og miðla 1153

Í óveðursfréttum frá Bandaríkjunum á mbl.is (05.03.2013) var New York allt í einu orðin höfuðborg Bandaríkjanna ! New York er vissulega mikil borg, en er ekki höfuðborg, ekki einu sinni í New York ríki. Sú heitir Albany. Þessi villa var reyndar leiðrétt. Lofsvert er, að greinilega er aukið eftirlit með skrifum fréttabarna, sem leyft er að skrifa á fréttavefinn mbl.is.
Ágætt skyggni í Borgarnesi, segir í fyrirsögn á mbl.is (06.03.2013). Fréttin hefst hins vegar svona: ,,Um 20-30 metra skyggni er í Borgarnesi, nokkur skafrenningur og fjúk, en ekki blindbylur eins og nú er víða á höfuðborgarsvæðinu.” Eitthvað hefur þarna skolast til.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (06.03.2013)var sagt frá snjókomu og ófærð á suðvesturlandi, meðal annars á Hellisheiði og í Þrengslum. Þulur las viðvörun til fólks um að reyna að fara ekki þar um. Líklega hefur sá sem skrifaði fréttina ætlað að beina því til fólks að reyna ekki að fara þar um.

Í inngangi fréttar í Ríkissjónvarpi (05.03.2013) var sagt: Hann hefur afhjúpað sig leðurblökumaðurinn … Í fréttinni var hinsvegar sagt: Hann hefur gefið sig í ljós, leðurblökumaðurinn, – sem er mun betra orðalag.

Æ oftar má sjá í auglýsingum orðaröð sem íslensku er ekki eiginleg. Nýlegt dæmi er auglýsing á mbl.is (06.03.2013) frá erlendu fyrirtæki, Versicherungskammer Bayern. Þar segir: Hvað er mikilvægt fyrir þín starfslok? Skárra hefði verið að segja til dæmis: Hvað er mikilvægt fyrir starfslok þín? . Betra og einfaldara: Hvað er mikilvægt við starfslok ?

Vegna ummæla formanns Samfylkingarinnar í sjónvarpi (04.03.2013) spyr lesandi: ,,Heitir það virkilega ,,að tala málið til dauðs“ eða villtist Árni Páll bara á stöfum þegar hann leit á lyklaborðið þar sem s er við hliðina á a?” Molaskrifari getur ekki svarað þessu, en kannski hefði mátt tala um að tala málið dautt, eða tala málið í kaf.

Úr myndatexta á visir.is (06.03.2013): Bæjaryfirvöldum fórst fyrir að auglýsa breytt skipulag á réttan máta. Bæjaryfirvöldum fórst ekki fyrir. Það fórst fyrir hjá bæjaryfirvöldum að auglýsa breytt skipulag á réttan hátt. Breytt skipulag var ekki auglýst með réttum hætti.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi (06.03.2013) talaði þingmaður um jarðgangnagerð milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Endalaust rugla menn með þetta. Jarðgangagerð er rétt. Gangnamenn eru þeir sem leita fjár á heiðum og afréttum. Á hæla þingmannsins kom ráðherra sem sagði að við yrðum að vera tánum ! Ofnotað orðalag sem hver étur upp eftir öðrum um að hafa varann á, vera á varðbergi, fara með gát.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Kolfinna. Rétt ábending.

  2. Kolfinna Þorfinnsdóttir skrifar:

    Heill og sæll, Eiður. Í fyrirvara þínum neðst á síðunni stendur …hvort birta megi …. Þarna tel ég víst að eigi að standa: Hvort birta má… Óákveðna fornafnið HVORT tekur með sér framsöguhátt (ákveðinn) nema setningin innihaldi spurningu eða vafa. Dæmi: Ekki er vitað hvort vöruverð HEFUR hækkað. Ég veit ekki hvort hann ER heima. Viltu athuga HVORT þau koma á morgun. Besta kveðja, Kolfinna, Neskaupstað.

  3. Eiður skrifar:

    Að sjálfsögðu, Guðmundur, gangnamenn, – klaufavilla. Þakka þér ábendinguna.

  4. Guðmundur Ólafsson skrifar:

    „gangnamenn“ átti þetta örugglega að vera hjá þér, þ.e. þeir sem fara í göngur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>