«

»

Molar um málfar og miðla 1154

Íslenskar getraunir auglýstu á Bylgjunni (06.03.2013) að málþing væri frestað. Heyrði ekki betur en þetta væri svo endurtekið í Ríkisútvarpinu. Rétt hefði verið að segja að málþingi hefði verið frestað.

K.E. sendi eftirfarandi (06.03.2013): ,,Myndatexti hjá mbl.is:
,,Tveimur björgunarbílum lenti saman í sortanum á Suðurlandsvegi nú síðdegis“
Ekki kann það góðri lukku að stýra ef bílarnir eru farnir að fljúgast á!”
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/06/bjorgunarsveitir_i_erfidum_adstaedum Rétt er það. Þá er nú heldur betur farið að versna í því.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (08.03.2013) var sagt að skýrsla UNICEF væri unnin á fyrirliggjandi gögnum. Eðlilegra hef verið að segja skýrslan væri byggð á fyrirliggjandi gögnum. Í þessum morgunþætti á föstudegi var að venju borin á borð slúður- og slettusúpan vestan af Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Þar var allt eftir hætti og enn er jafn óskiljanlegt hversvegna Ríkisútvarpið hellir þessu yfir hlustendur í hverri einustu viku. Þar var líka sagt að það heyrðist ekki, þegar menn hristu höfuðið í útvarpi. Það er álitamál.

Lesandi sendi eftirfarandi (06.03.2013): ,,Prentvillupúkinn getur brugðið á leik og orðið býsna fyndinn.
Í grein á Smugunni í dag:,, Speglar lögreglan samfélag sitt?“ er meðal annars þetta að sjá:
,,Lögreglustarfið hefur í gegnum tíðina haft karlæga ímynd sem byggir á hugmyndinni um að hinn fullkomni einstaklingur til lögreglustarfa sé sterkbyggður hvítur karlmaður.“
Vantar eitt l = karllægur, ( karlægur = sem liggur í kör, ellihrumur).
Samkvæmt greininni liggur því ímynd lögreglustarfsins ellihrum í kör. Orðið ,,karllægur“ er tiltölulega nýlega farið að nota, a.m.k. er það ekki að finna hjá Merði Árnasyni, ritstjóra orðabókarinnar sem gefin var út árið 2002.
Hér er e.t.v. um prentvillu að ræða eða að yngri kynslóðin þekki ekki merkingu orðsins ´karlægur´!” Molaskrifari þakkar þetta frá lesanda.

Af mbl.is (08.03.2013): Í óeirðum milli Uighurs-manna og Han í héraðsborg Xinjiang, Urumqi árið 2009 kostaði um tvö hundruð manns lífið. Seint verður sagt að þetta sé vel skrifað. Hér hefði til dæmis mátt skrifa: Óeirðirnar milli Uighura og Kínverja í Urumqi í höfuðborg Xinjiang árið 2009 kostuðu tvö hundruð manns lífið. Í fyrirsögn fréttarinnar er talað um ættflokkadeilur. Það er ekki rétt að kalla þjóðir ættflokka. Svo er efamál hvort kalla á Uighura þjóðabrot eins og gert er í fréttinni. Þeir eru ein margra þjóða í hinu víðlenda ríki, Kína,
sem búa við kúgun og margháttuð mannréttindabrot af hálfu herraþjóðarinnar , Han-Kínverja. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/03/08/aettflokkadeilur_kosta_fjora_lifid/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Kristján.

  2. Kristján skrifar:

    Fréttablaðið segir á bls.4 að þjóðfundurinn hafi verið 1815. Á bls.11 er svo mynd af Tjaldi sem heitir Spói. Vanda sig.

    Bráðfyndið með bílana sem flugust á og karlægu löggurnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>