«

»

Molar um málfar og miðla 1148

Lesandi skrifar (28.02.2013): ,,Mér finnst orðið staðgöngumóðir vera bærilegt en staðgöngumæðrun finnst mér nánast vera skrípi.
Hvernig væru orðin: vildarmóðir, vildarmeðganga …?” Þessu er hér með komið á framfæri.

 

Ríkissjónvarpið sýndi í vikunni ágæta heimildamynd um feril og endalok ,,slátrarans frá Lyon” nasistaforingjans Klaus Barbie. Í allri hógværði mætti benda þeim í Efstaleiti á tveggja mynda flokk sem heitir Nauðgun Evrópu (The Rape of Europe) og DR 2 hefur verið að sýna. Þessar myndir um grimmd glæpamennsku og listaverkaþjófnaði þýsku nasistanna eiga erindi við okkur.

 

R.B. sendi Molum eftirfarandi: ,,Ég veitti því athygli í útvarpi í kvöld (28.02.2013) að ágætur útvarpsmaður sagði John dobbeljú Bush. Þessi leiðinlegi bókstafur er víst venjulega nefndur tvöfalt vaff á íslensku. Mætti ekki nefna hann tvívaff?” Góð hugmynd, segir Molaskrifari. En var ekki útvarpsmaðurinn að tala um forsetann fyrrverandi George W. Bush?

 

Enskuslettur eiga ekki heima í Ríkisútvarpinu. Í morgun (01.03.2013) töluðu umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö um dress kód , – reglur um klæðaburð og djók, brandara. Þegar fólk slettir ensku, – eða dönsku, er það oft vegna þess að það hefur ekki nægilega gott vald á móðurmálinu, – íslensku. Leikdómari Fréttatímans sletti ensku (01.03.2013.) og segist hafa orðið hálf ,,starstrucked”. Leikdómarinn er ekki vel að sér í ensku. Ætti því að sleppa slettunum. Hefði átt að hafa slettuna,,starstruck”. Seinni hluti orðsins er úr ensku sögninni strike, sem hefur óreglulega beygingu. Strike – struck – struck/stricken.

 

Þessi frétt á visir.is (01.03.2013) er með ólíkindum illa skrifuð. http://www.visir.is/harry-prins-heimsaekir-afriku/article/2013130228960

Hversvegna er þarna talað um innfædda? Harry prins heldur sér uppteknum um þessar mundir !!! Harry prins hefur nóg að gera , er önnum kafinn. Sennilega les enginn yfir það sem fréttabörnin skrifa á þessum miðli. Líklega of dýrt að hafa yfirlesara í vinnu.

 

Af mbl.is (01.03.2013): Áttatíu prósent þeirra verðmæta sem stolið er úr íslenskum verslunum er af fólki af erlendum uppruna. Þetta er mat bransans …Hvorki verður sagt að þarna búi að baki sæmilega skýr hgsun né heldur er þetta vandaður texti.

 

Hinir ofurvinsælu Hraðfréttadrengir Ríkissjónvarpsins gera það ekki endasleppt. Fyrsta íslenska tréð hefur rifið 25 metra múrinn var sagt þar í gærkveldi (01.03.2013). Hvernig rífa tré múr? Hægt er að rífa tré upp með rótum, en tré rífa ekki múra. Gaman væri að sjá það. Líklega var átt  við að rjúfa múr.  Íslenskt  tré hefur í fyrsta skipti mælst hærra  en 25 metrar.  Í þessum þætti  er það ekkert skilyrði að vera þokkalega máli farinn. Umsjónarmenn ættu að biðja málfarsráðunaut, sé hann enn við störf,  að lesa handritin að því sem þeir ætla að bulla yfir okkur. Svo fékk Mosfellsbakarí ókeypis auglýsingu upp á nokkur hundruð þúsund krónur. Hvernig velja Hraðfréttadrengirnir  verðug fyrirtæki til að auglýsa í þessum þáttum sínum? Kunningsskapur, klíka eða tilviljanir?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>