«

»

Molar um málfar LVI

Á Vefdv mátti lesa (17.04.) eftirfarandi: „Vegna þess að meirihluti stjórnmálaflokkanna vildu ekki þiggja 10 mínútna gjaldfrjálsan útsendingartíma hjá Ríkissjónvarpinu hefur RÚV ákveðið að hætta við að útdeila öðrum minni framboðum þann tíma.“ Við þessa einu setningu er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi ætti að skrifa „..meirihluti stjórnmálaflokkanna vildi ekki…“. Í öðru lagi eru orðin „útdeila öðrum minni framboðum þann tíma“ ekki gott mál. Betur hefði þarna verið sagt til dæmis: „…úthluta öðrum minni framboðum þeim tíma“. Ekki útdeila þann tíma.

Ritsjórar Vefdv virðast ekki gera neinar kunnáttukröfur til þeirra sem skrifa fréttir á vefinn. Eftirfarandi (18.04) staðfestir það: „Íbúar Álandseyja safna nú fyrir Ester Evu Glad, tvítugri, íslenskri stelpu, sem liggur lömuð á gjörgæsludeild.“ Sama villan var í fyrirsögn:„ Safnað fyrir íslenskri stelpu“. Þarna augljóslega um djúpstæða vankunnáttu og einbeittan brotavilja að ræða. Sá sem svona skrifar ætti ekki að fást við skriftir. Skrifari þekkir ekki muninn á að safna fyrir einhvern, handa einhverjum og að safna fyrir einhverju.

Vikið var að málvillu  í auglýsingu  frá frambjóðanda Frjálslynda flokksins í  sjónvarpi  RÚV, í Molum gærdagsins. Málvillurnar í auglýsingunni eru reyndar tvær í  sömu setningunni. Efnislega er  sagt: – Góðir landsmenn,  með stuðning ykkar kemst ég  inn á  Alþing.  Auðvitað ætti að segja,  Góðir landsmenn, með  stuðningi ykkar kemst ég inn á  Alþingi. Sá  flokkur  sem  sendir þetta frá sér er ekki vandur að  virðingu sinni. Það  verður  reyndar heldur ekki sagt um  Ríkisútvarpið.

18 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll Bergsteinn, ég tvíeflist !

  2. bergsteinn sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Allt satt og rétt Eiður, Mergur málsins er dásamleg bók. Aftur á móti skil ég ekki hvers vegna þú túlkar þessi heilbrigðu skoðanaskipti okkar sem tilraun af minni hálfu til að hrella þig. Líður þér þannig? Skaut ég þér skelk í bringu? Ef svo er þykir mér það vitaskuld afar leitt, það var ekki ætlunin að særa þig enda hef ég ítrekað lýst yfir aðdáun minni á pistlum þínum. Það er gott að þú lætur engan bilbug á þér finna (enda engin ástæða til)  og ef þessar ábendingar mínar, sem settar voru fram í mestu vinsemd, verða til þess að þú tvíeflist á amböguvaktinni þá var sannarlega til einhvers unnið. Áfram Eiður!

     Með kveðju

    Bergsteinn

  3. Eiður skrifar:

      Sæll Bergsteinn,

    Það væri líklega betra   ef  þeir sem  skrifa  fréttir, hvort sem er í Fréttablaðið  eða  aðra  miðla,  notuðu orðabækur meira. Ágætt er líka að fletta upp í Merg  málsins  eftir  dr. Jón G.  Friðjónsson.

    Ég mun halda áfram að  skrifa mína  Mola og læt  útúrsnúninga þína  lönd og leið. Þér  verður ekki kápan úr því klæðinu að hrella  mig  frá því að  benda  málvillur í  fjölmiðlum.

    Svo máttu líka vita að í orðabók er „sjit“ merkt með tveimur ?? , en það þýðir „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta.

  4. Bergsteinn Sigurðssson skrifar:

    Sæll Eiður

    Ertu nú farinn að skáka í skjóli orðabóka. Fróður maður benti nýlega á að oft leynast gamlar meinlokur í orðabókum, þau spaklegu orð má nánar tiltekið finna hér: http://esgesg.blog.is/blog/esgesg/entry/841670/

    Ætlar síðuhöldur kannski að fara að skrifa sjit, bara vegna þess að hans gamli flokksbróðir, Mörður Árnason, leggur blessun sína yfir það?

    Með kveðju

    Bergsteinn

  5. Eiður skrifar:

    Ágæti Bergsteinn,

    Ef þú átt íslensku  orðabókina ágætu,sem Edda gaf út  árið  2002 þá  finnur  þú pirring á  bls.  1131  orðið  pirringur , gremja  eða  urgur  er hvorki merkt  sem óæskilegt né  óformlegt  mál.

  6. bergsteinn sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Nú ertu farinn að klifa ofan í kaupið, talar ýmist um djúpstæða vankunnáttu, djúpstæðan pirring og þar fram eftir götunum. Við eigum ekki bara að tala vandað mál, heldur líka fjölbreytt. Til að stuðla að því hefði ef til vill farið betur á að tala um rótgróin pirring eða eitthvað í þá áttina. 

    Að vísu er algjör óþarfi að tala um „pirring“ (sem ég er hissa á að hljóti náð fyrir þínum augum) því ég er mjög glaður og sæll í sinni. Mér þykja pistlarnir þínir skemmtilegir og vona að þú skrifir sem oftast og lengst. Ég skil reyndar ekki hvað þú ert að blanda Þráni Bertelssyni í málið, hann hefur ekki skrifað um málfar í athugasemdakerfið, hann svaraði skrifum sem snerust um hann. Ég fór hins vegar að þínu fordæmi (því þú ert mín fyrirmynd) og benti á augljósa hugsanavillu sem mátti finna í texta á þessari síðu. Það var gert í mestu vinsemd, til að koma í veg fyrir að síðuhöldur hlypi á sig aftur. Ef það gerist hlyti það að skýrast af einbeittum brotavilja frekar en djúpstæðri vankunnáttu.

    Með kveðju

    Bergsteinn

  7. Heimir Tómasson skrifar:

    Reynir, væri þá ekki ráð að koma prófarkalesurunum til meðvitundar og láta þá fara að vinna?

    http://www.mbl.is er með alveg hreint skelfilegar ambögur oft en er þó mun skárra en vefdv. Þar virðist oft vera um einbeittan brotavilja að ræða, eins og Eiður orðar svo skemmtilega. Og reyndar prentaða DV líka. Svoleiðis er það bara því miður.

  8. Reynir Traustason skrifar:

    Vegna ummæla hér að framan skal því haldið til haga að DV býr að einstaklega góðum prófarkalesurum. Enda er blaðið villulítið. Á vefhum er ekki stöðugur prófarkalestur. Í miklum hraða vill texti skolast til en við leiðréttum allt sem við sjáum. Dylgjur, eins og hjá Benedikt hér að framan, eru aðför að heiðri þess ágæta fólks sem starfar við að leiðrétta prentmiðilinn.  

    Ítreka þakklæti til Eiðs vegna ábendinga hans. Og auðvitað er ég að stríða honum með ábendingu um hans eigin villu.

  9. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Ég tek að venju undir allt sem þú segir. Á DV er trúlega enginn prófarkalesari og því fer sem fer á þeim bænum.

  10. Eygló skrifar:

    Reynir þó 🙂   !      Augsýnileg „prentvilla“ er ekki sambærileg við ljótt eða rangt málfar og ritvillur.  Þá það, þetta var örugglega stríðni. Smá broddur þó  🙂

  11. Reynir Traustason skrifar:

    Sæll Eiður og þakka þér fyrir ábendingarnar sem við tökum ævinlega mark á og leiðréttum þegar efni standa til. Auðvitað eru þær líka hvatning til þess að gera betur. Þú mættir gjarnan leiðrétta í þinni eigin færslu eftirfarandi: Ritsjórar Vefdv. 

    Með bestu kveðju

    Reynir Traustason 

  12. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Þetta er  greinilega  djúpstæður pirringur,Bergsteinn. Ég mun halda áfram að benda  á  ambögur í fjölmiðlum. Þú og Þráinn Bertelsson  eruð nánast þeir  einu  sem hafa  verið að hnýta  svolítið í skrif  mín. Líði  þér  sem  best. Vona að þessi pirringur   sé  tímabundinn og  líði hjá.

  13. bergsteinn sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Þþarna er ég hræddur um að pólitíkusinn Eiður hafi borið málunnandann Eið ofurliði, því í svari þínu ferði undan flæmingi og gerir því skóna að athugasemd mín helgist af „pirringi“ í þinn garð. Það er rangt. Mér er ljúft og skylt að halda því til haga að ég hef þónokkuð gaman af pistlum þínum.

    EN ef svar þitt við vinsamlegri ábendingu minni um augljósa hugsanavillu í skrifum þínum er á þá leið að: a) það „megi“ leggja þetta skýra dæmi sem ég tók út á þann veg sem ég geri; og b) það sem einum finnst hjákátlegt finnist öðrum í lagi, er ljóst að forsendurnar fyrir þessum málfarsmolum þínum eru horfnar. Þeir sem tala um að útdeila tíma og safna fyrir stelpum svara þá bara umvöndunum þínum á sama veg, að það sem þér þyki ljótt þyki þeim gott og gilt.  Hvers vegna ættir þú að vera til þess bær að vanda gott mál fyrir öðrum um leið um leið og þú þykist hafinn yfir slíkar ábendingar? 

    Með kveðju

    Bergsteinn

  14. Eiður skrifar:

       Sæll Bergsteinn,

    Auðvitað má  leggja þetta  út á þann veg sem þú gerir. En   það sem  einum  finnst  hjákátlegt  finnst öðrum í lagi. Ég veit að  þessir pistlar mínir pirra  suma  blaðamenn mikið.

  15. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Komdu sæll Eiður

     Ég hjó eftir að þú skrifar: „Þarna er augljóslega um djúpstæða vankunnáttu og einbeittan brotavilja að ræða.“ Ef mistökin helgast af vankunnáttu útilokar það þá ekki hinn einbeitta brotavilja? Einbeittur brotavilji hlýtur að fela í sér að gerandinn veit að hann er að brjóta lögin eða reglurnar, ekki satt? Að sama skapi veldur djúpstæð vankunnátta því að viðkomandi áttar sig ekki á því að hann er að brjóta reglurnar, þar af leiðandi er trauðla hægt að tala um brotavilja, hvað þá einbeittan brotavilja. Þetta er frekar hjákátleg þversögn í pistli um vandað mál.

    Með kveðju

    Bergsteinn

  16. Eygló skrifar:

    Lengi vel hafði maður trú á að RUV hefði úthald í íslenskunni, en það er allt uppurið. Enska þýdd yfir á íslensku.  Eignarfallið og viðtengingarháttur virðist alls staðar meira eða minna farinn fjandans.

    Svo þessi málnotkun stjórnmálamanna:  Æ fleiri tvítaka orð, – svona með nokkuð jöfnu bili.

    Svo gerir fólk ekki. Það ákveður ekki. Það ætlar sér ekki.     NEI, góðan daginn:  „Þegar við hófum þessa vegferð“  „Þegar lagt er í þetta ferðalag

    Ég er ekki sérfræðingur en vil halda málinu við og læra sem mest.

  17. Jón Óskarsson skrifar:

    Ekki bara þágufallssýki heldur algerri vankunnáttu í notkun málsins.

    Gæti verið að fréttamaðurinn hafi komist gegnum nám í stjórnmálafræðum í Háskóla Íslands en hann er hættur að gera kröfu um að nemendur þar séu ritfærir.

    Blaða- og fréttamenn ættu að gangast undir próf í bókmenntum þar sem meðal annars yrði kannað hversu mikið þeir eru lesnir í bókmenntaarfi þjóðarinnar. 

    Það er skömm að því hve litlar kröfur eru gerðar til þeirra sem tala og skrifa í fjölmiðla og sárast er að verða vitni að því hvað kæruleysið er algert í Efstaleitinu.

  18. Haraldur Bjarnason skrifar:

    Sá sem skrifaði þessa frétt um söfnunina á Álandseyjum er greinilega þjáður af hinum slæma sjúkdómi þágufallssýki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>