Í svonefndum Hraðfréttum, sem Ríkissjónvarpið flutti þjóðinni á laugardagskvöld, sagði ,,fréttamaður” okkur frá söngkonu sem sigraði söngkeppni í Síle eins og allir vita. Ef Ríkissjónvarpið telur þetta nauðsynlegan dagskrárlið ætti að sjá til þess að textinn sem lesinn er sé ambögulaus. Það sigrar enginn keppni.
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er minnst víða í dag, var sagt á Stöð tvö (08.03.2013). Betra hefði verið: Alþjóðlegs baráttudags kvenna er minnst víða í dag.
Fréttamaður sem flutti okkur frétt um hagvöxt í fréttatíma Ríkissjónvarps (08.03.2013) var ekki kynntur til sögunnar með nafni svo sem venja er. Ný stefna eða bara kæruleysi?
Af mbl.is (08.03.2013): „Við erum í fjárhagslegri endurskipulagningu og höfum sagt upp einu stöðugildi,“ segir Emil Thoroddsen, framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands. Molaskrifari hélt að starfsmönnum væri sagt upp störfum. Ekki stöðugildum.
Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2013) var boðuð svokölluð ,,handboltaveisla”. Hvenær skyldi þessi ríkisstofnun í þjóðareigu sjá ástæðu til að bjóða okkur til menningarveislu?
Lesandi vakti athygli á þessari frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (09.03.2013)
,, http://www.ruv.is/frett/smitandi-barkarbolgu-liklega-utrymt
og spyr hvort kýr hafi börk eða barka?” Ekki er nema von að spurt sé. Í fréttinni er þrisvar sinnum talað um barkarbólgu , þannig að ekki fer milli mála að verið er að tala um börk en ekki barka! Í fréttinni er líka sagt: Matvælastofnun telur líkur á að smitandi barkarbólgu, sem fannst í 34 kúm á Egilstöðum síðasta haust, hafi verið rutt úr vegi. Barkarbólgunni hefur sem sé verið rutt úr vegi, – útrýmt segir réttilega í fyrirsögn.
Molaskrifari er sjálfsagt ákaflega sérvitur, en honum finnst það afrek á sinn hátt hjá Ríkissjónvarpi að búa til spurningaþátt sem jafn lítið áhugaverður og þátturinn Gettu betur sem að undanförnu hefur verið sýndur á laugardagskvöldum.
Lesandi skrifar (09.03.2012): ,,Fréttablaðið segir á bls.4 að þjóðfundurinn hafi verið 1815. Á bls.11 er svo mynd af tjaldi sem heitir spói. Vanda sig.” Já, það verður aldrei um of brýnt fyrir þeim sem skrifa fréttir að vanda sig. Þjóðfundurinn var 1851. Tjaldurinn og spóinn eru nú ekki sérstaklega líkir fuglar. Molaskrifari sá tjalda við Arnarnesvog á rölti sínu í gær. Þeir voru að snæðingi í fjöruborðinu. Þar voru líka hettumávar. Hef ekki séð þá fyrr í vetur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/03/2013 at 08:34 (UTC 0)
Það er hægt að sigra í keppni, ekki sigra keppni.
Sigurður I. skrifar:
11/03/2013 at 23:10 (UTC 0)
Sæll Eiður
Hvað meinar þú með ekki sé hægt að sigra keppni ?
eins og þú segir hér:
Í svonefndum Hraðfréttum, sem Ríkissjónvarpið flutti þjóðinni á laugardagskvöld, sagði ,,fréttamaður” okkur frá söngkonu sem sigraði söngkeppni í Síle eins og allir vita. Ef Ríkissjónvarpið telur þetta nauðsynlegan dagskrárlið ætti að sjá til þess að textinn sem lesinn er sé ambögulaus. Það sigrar enginn keppni.
Þegar ég leitt í orðabók þá sendur undir Sigur (Bók :Íslensk Orðabók frá 1978 undir ritsjórn Árna böðvarssonar.
Þar sendur Sigur; vinningur í keppni, bárattu og bera s, úr býtum, vinna (já, hafa) s., hrósa sigri og sigra.
Hér er líka skilgreining á að Sigra; bera hærri hlutt, að vinna sigur.
Svo ég spyrði þig aftur afhverju má þá ekki nota sagnorðið að sigra þegar maður hefur náð fysta sæti í keppni.
Þar sem jú skilgreiningu að sigra sendur að sigra sé að vinna sigur og merking fyrir sigur getur verið líka vinningur í keppni.
Hér er grein frá 1936 að nota var sama orðtak sigraði var notað fyrir hafa unnið kepppni:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=103945&pageId=1231475&lang=is&q=sigra%F0i
Japani sigraði:
sfökk 16 melra.
Fyrirsögn: í úrslitakeppninni í gær, sigraði Japaninn Tayimi
Þetta er ekkert nýtt að nota t.d. hann sigraði keppni í gær.
Annað sem þú hefur látið út frá sér noktun Ríkisútvarpið að nota RÚV í stað þes að nota nafn sitt.
Þá spyr ég þig notar þú eiga við þá byrja að nota The British Broadcasting Corporation í stað þess segja BBC þannig hvað þá vandamálið að nota ´RÚV,
Í danmörku er ríkissjónvarp danmerkur kallað DR1 í stað Danmarks Radio 1.
Kv. Sigurður I.
nemi og áhugamaður íslenska tungu