Tungutakspistill Gísla Sigurðssonar prófessors í íslensku við Háskóla Íslands í Morgunblaðinu á laugardag (09.03.2013) er gott dæmi um málstefnu þeirra sem kallaðir hafa verið reiðareksmenn. Það eru þeir sem er nokk sama hvernig móðurmálið þróast svo lengi sem það skilst. Þannig skipti ekki máli hvort talað um Landeyjarhöfn (eins og stundum sést) eða Landeyjahöfn. Molaskrifari er annarrar skoðunar.
Ríkissjónvarpið okkar, freistast maður stundum til að halda , lítur fyrst og fremst á sig sem barnfóstru á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Þá sé best að sýna barnaefni. Foreldrar geti þá sett börnin sín framan við sjónvarpið og sofið áfram. Þetta hvarflar stundum að mér. Norrænu sjónvarpsstöðvarnar fylgja annarri dagskrárstefnu varðandi þetta eins og svo margt annað.
Af mbl.is (10.03.2013): ,,Bjarni og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, voru gestir hjá Sigurði M. Egilssyni í þætti hans Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Meðal annars var tæpt á gengi flokkanna í skoðanakönnunum undanfarið, en báðir flokkar hafa dalað.” Við þetta er tvennt að athuga: Umsjónarmaður Sprengisands á Bylgjunni er Sigurjón M. Egilsson. Ekki Sigurður. Það var ekki tæpt á gengi flokkanna. Rætt var um gengi flokkanna í skoðanakönnunum. Að tæpa á einhverju er að gefa óljóst í skyn, eða minnast mjög lauslega á.
Lesandi benti á eftirfarandi (10.03.2013): ,,Mér finnst örla á að menn snúi við orðanotkuninni að kynna eitthvað eða einhvern fyrir einhverjum eins og í þessari fyrirsögn á Press http://unni: Dani kynntur fyrir íslensku þorrablóti: Bragðar á hákarli og brennivíni http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/dani-kynntur-fyrir-islensku-thorrabloti-bragdar-a-hakarli-og-brennivini
Ég hefði haldið að þarna hefði íslenska þorrablótið verið kynnt þessum umrædda útlendingi. Mér finnst þessi öfuga notkun koma of oft fyrir í mæltu og skrifuðu máli þegar fjallað er um að kynna einhvern atburð, hlut eða slíkt fyrir einhverju fólki. Ég hugsa að þorrablótinu standi nokkurn veginn á sama hvort einhver er kynntur fyrir því!! Síðast í umræddi frétt Pressunnar er hins vegar réttilega sagt:
Nú er röðin komin að því að kynna íslenska þorrablótið fyrir umheiminum: og vísað á tiltekið myndband. Þetta hefði átt að orða svona í fyrirsögninni líka.”
Í fréttum Stöðvar tvö (10.03.2013) var sagt frá Íslendingi sem handtekinn var í Antalya í Tyrklandi. Fréttaþulur sagði að ræðismaður íslands í Tyrklandi væri staddur í Ankara. Þetta orðalag er út í hött. Þrír ræðismenn Íslands eru í Tyrklandi. Þeir eru í Ankara, Istanbúl og Izmír. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Íslenskur ræðismaður er ekki í Antalya sem er vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Tyrklandi um þessar mundir.
Alltaf hafa íþróttirnar forgang hjá Ríkissjónvarpinu. Ekkert Kastljós á föstudagskvöld. Silfur Egils skorið niður við trog á sunnudag (10.03.2013). Allt fyrir hinn heilaga handbolta. Íþróttadeildin ræður óskiljanlega miklu um dagskrá Ríkissjónvarpsins.
Molaskrifari þakkar þarfa og réttmætta ábendingu.Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/03/2013 at 13:15 (UTC 0)
Ég var að vísa til pistilsGísla í heild.
Þorvaldur S skrifar:
12/03/2013 at 13:07 (UTC 0)
En hvernig tengist þá þetta dæmi sk. „reiðarekstefnu“?
Eiður skrifar:
12/03/2013 at 13:06 (UTC 0)
Sagt var að ræðismaður Íslands væri staddur í Ankara. Hann var í Ankara , höfuðborg Tyrklands, þar sem hann býr og starfar. Hann var ekki í Antalya, sem er býsna langt frá Ankara.
Eiður skrifar:
12/03/2013 at 13:03 (UTC 0)
Það er auðvitað ekkert í sjálfu sér rangt við orðið Landeyjarhöfn. Höfnin er kennd við Landeyjar og heitir Landeyjahöfn. Það er rétt nafn.Þessvegna á ekki að kalla hana Landeyjarhöfn.
Þorvaldur S skrifar:
12/03/2013 at 10:10 (UTC 0)
Hvað er „rangt“ við að segja Landeyjarhöfn? Ef höfnin væri kennd við Landey væri hún þá ekki réttnefnd Landeyjarhöfn? Nú er hún að sönnu kennd við Landeyjar og því réttnefnd Landeyjahöfn, en í hinu afbrigðinu felst hvorki málþróun né hnignun; þetta er bara spurning um landafræðikunnáttu en ekki máltilfinningu. Það væri heldur ekki spurning um annarlega málþróun væri sýslan kölluð Rangárvallarsýsla heldur hvort völlurinn er einn eða vellirnir margir; sem sagt landafræði.
Valur skrifar:
12/03/2013 at 09:23 (UTC 0)
„Fréttaþulur sagði að ræðismaður íslands í Tyrklandi“
Þetta segiru að sé út í hött. Getur ræðismaðurinn ekki verið staddur Antalya þótt hann hafi skrifstofu annar staðar ? Enda er talað um að hann sé staddur þar en ekki staðsettur.