«

»

Molar um málfar og miðla 1157

Í fréttum Ríkissjónvarps (10.03.2013) var talað um mann í Pakistan sem talinn hefði verið í ölvunarástandi. Var ekki maðurinn bara talinn ölvaður, drukkinn eða jafnvel fullur?

Það er búið að sýna níu þætti úr þáttaröðinni Neyðarvaktinni í Ríkissjónvarpinu. Samt heldur niðursoðna konuröddin (Hér- hikk- á rúv) áfram að kynna þetta sem nýja þáttaröð (10.03.2013). Hvað þarf að sýna marga þætti svo þáttaröðin hætti að vera ný ? Er þetta unnið hugsunarlaust?

Í áhugaverðum þætti í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld var fjallað um Egils sögu Skallagrímssonar frá sjónarhorni samtíðarinnar. Kunnur leikari vitnaði þar til þess er Skallagrímur átaldi Egil son sinn fyrir að standa ekki skil á því fé sem Aðalsteinn hefði sent honum. Sagt var að Egill hefði sagt við föður sinn: Er þér fés vant (!). Í minni Eglu stendur: ,,Er þér nú féfátt mjök, faðir. Ek vissa þat eigi” Þetta bætti þáttinn ekki.

Í morgunþætti Rásar tvö (11.03.2013) var talað um tónlistarmann, – að ekki væri erfitt að róda (eða róta) hann upp. Þetta var ekki skýrt frekar. Molaskrifari stór efast um að allir hlustendur hafi skilið um hvað verið var að tala.

Í sama morgunþætti var talað um Stafnes á Reykjanesi. Það var borið fram /stavvnes/. Molaskrifari hefur aldrei heyrt þann framburð og er þó svolítið tengdur Suðurnesjum. Hefur ævinlega heyrt talað um Stafnes, – ekki /stavvnes/.

Af dv.is (11.03.2013): Þegar DV hafði samband við sænska utanríkisráðuneytið lágu upplýsingarnar um mál mannsins ekki á reiðum höndum, en frekari upplýsinga er að vænta síðar í dag. Hér hefur eitthvað skolast til. Sagt er að upplýsingar hafi ekki legið á reiðum höndum. Upplýsingar var ekki hægt að fá um mál mannsins, sænska utanríkisráðuneytið hafði upplýsingar um mál mannsins ekki á reiðum höndum.

Það var ágætlega orðað í íþróttafréttum Stöðvar tvö (11.03.2013) að atvinnumaður í knattspyrnu sem á eignir er nema 33 milljörðum króna hafi komið ár sinni vel fyrir borð, – utan knattspyrnunnar.

Í fréttum Ríkissjónvarps (11.03.2013) var sagt frá hugmyndum um nýtt gæluverkefni stjórnenda Reykjavíkurborgar, – göngubrú yfir Fossvog sem kosta mun eitt þúsund milljónir króna. Aftur og aftur var talað um brúarlagningu. Molaskrifari hallast að því að tala hefði átt um brúargerð eða brúarsmíði. Í tíufréttum sama fjölmiðils var svo sagt að hugsanlega mundi flugvöllur rísa á Hólmsheiði !

Notkun orðasambandsins innan skamms virðist eitthvað á reiki. Molaskrifari er því vanur að þetta sé einkum notað um eitthvað sem ekki hefur enn átt sér stað. Maðurinn verður látinn laus innan skamms. Á mbl.is var skrifað um mann sem hnepptur hafði verið í varðhald.(11.03.2013): Hann hafi verið látinn laus innan skamms. Hér hefði að mati Molaskrifara verið eðlilegra að segja til dæmis: Hann hafi fljótlega verið látinn laus. Hvað segja lesendur?
Molaskrifari þakkar þarfa og réttmætta ábendingu. Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Vonum bara að flugvöllurinn á Hólmsheiði ofrísi ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>