«

»

Molar um málfar og miðla 1158

K sendi eftirfarandi (12.03.2013) ,,Þetta er alveg dásamlegt frá Mogga. Síðar í fréttinni kemur fram að maðurinn slapp með skrámur og er alls ekki fótalaus.
,,Breskur karlmaður á fimmtugsaldri lenti í því nýverið þegar hann var að við fjallaklifur í Snowdonia-héraði í Wales að missa fæturna þegar snjóköggull féll á hann…..“
http://www.mbl.is/folk/verold/2013/03/11/rann_i_fjallaklifri_og_tok_thad_upp/
Það er svolítill, meira en svolítill, munur á því að missa fótanna, detta , hrasa eða missa fæturna!

Í fréttum af páfakjöri að morgni þriðjudags (12.03.2013) var í Ríkisútvarpinu talað um fjórar kosningar. Fernar kosningar, hefði það átt að vera.

Hringð í 112 vegna slys, stendur á skilti Faxaflóahafna við Verbúðabryggjuna skammt frá Kaffivagninum í Reykjavík. Faxaflóahafnir hljóta að leiðrétta þetta.

Einar spyr (12.03.2013): ,,Getur þú skýrt út fyrir mér orðið „geðprýðishöfn“ sem skipulagsnefnd Kópavogs notar hér:
,,…verður ekki, viðlegukantur hverfur, hafsækin starfsemi hverfur, höfnin breytist í ,,geðprýðishöfn,” inn kemur blönduð byggð …“
Sjá nánar.
http://vefur.kopavogur.is/meetings_view.asp?id=1145132270&cat_id=1 “
Molaskrifari stendur á gati. Þessu getur hann ekki svara. Orðið,,geðprýðishöfn” hefur hann aldrei heyrt. Kunna lesendur að skýra þetta?

Lesandi vitnar í mbl.is (12.03.2013) og segir: ,,Lágt leggst krónan, ef gengi hennar er orðið 126.760,56 kr. á bandaríkjadal, eins og ætla má af þessari grein!“ „Ef allar skuldbindingar bandaríska ríkisins (einnig halli velferðarkerfisins) eru lagðar saman er ríkisskuld USA uppi í óskiljanlegum 71 þúsund milljörðum dollara (9.000.000.000.000.000.000,00 ísl. kr). Skuldaaukningin er 10 milljónir dollara (1,3 milljarðar ísl. kr.) á mínútu,“ segir Gústaf Adolf Skúlason í grein í Morgunblaðinu í dag. …”

Af mbl.is (12.03.2013): Uppúr hádegi í dag varð bilun í gufuveitu Orkuveitu Reykjavíkur í Hveragerði. Bilunin nær til flest allra íbúa í Hveragerði. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að bilunin næði til flest allra húsa í Hveragerði? Í sömu frétt eru íbúar hvattir til að hafa glugga lokaða til að halda hita á húsum sínum. Væri ekki eðlilegra að tala um að halda hita í húsum sínum?
Í fréttum Stöðvar tvö (12.03.2013) var sagt í skjátexta að það kostaði formúgu að fermast. Molaskrifari hefur ekki heyrt það orð áður, en stundum er sagt að eitthvað sem þykir óheyrilega dýrt kosti formúu.
Molaskrifari þakkar þarfa og réttmætta ábendingu. Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

12 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir. Hlýjar kveðjur, – ESG

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Má ég skjóta hér inn orði? Í febrúarmánuði 1957 var ég í litlum hópi fólks að lesa saman handrit. Þá kom upp deila og mér var falið að hringja í dr. Björn Sigfússon háskólabókavörð, því að ég hafði lært af honum íslenzku í gegn um útvarp. Lærdómsmaðurinn svaraði: Það er ekki hægt að amast við s-i inni í orðum eins og til dæmis leikfimi(s)kennari og garnaveiki(s)rolla. Mér fannst þetta svo bráðfyndið, að ég hef aldrei getað gleymt því.
    Kær kveðja VS.

  3. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    …ég endurtek þakkir mínar… (vantaði r).

  4. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Komið þið sælir! A – a — …spá í alla erlendu hljóðfæraleikarana. Maður spáir í eitthvað (þolfall). Megas söng: „Spáðu í mig…“ Kær kveðja, Þorgils Hlynur.

  5. Eiður skrifar:

    Jú, það finnst mér, Þorsteinn.

  6. Þorsteinn Úlfar Björnsson skrifar:

    Það var t.d. enginn að spá í öllum erlendu hljóðfæraleikurunum á plötunni hennar Lay Low Farewell Good Night’s Sleep fyrir nokkrum árum.

    Þetta er af síðu Dr. Gunna.

    Ætti þetta ekki að vera: Það var t.d. enginn að spá í alla erlendu hljóðfæraleikarana á plötunni hennar Lay Low Farewell Good Night’s Sleep fyrir nokkrum árum.

  7. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Þorgils. Ég birti þetta með þínu leyfi í Molum í kring um helgina.

  8. Eiður skrifar:

    Allt er þetta rétt, – Þorgils.

  9. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll aftur og þakka þér fyrir svarið. Það var og. Á sænsku heitir þetta förmogenhet. Þarna kemur þetta g. 🙂 Ætli þetta sé sama orðið og Vermögenheit á þýsku? Nú virðist sænska vera líkari þýskunni á ýmsa lund en grannmálunum tveimur og ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að sænskan sé líkari íslenskunni en norskan. Þó er það ekki óumdeilt. Ekki fann ég þetta orð í íslensku orðabókinni minni (Orðabók Menningarsjóðs), hvorki með g-i né án þess.Telst hvort tveggja þá jafngilt — með rökum dönsku og norsku annars vegar og þýsku og sænsku hins vegar? Kær kveðja, Þorgils Hlynur.

  10. Eiður skrifar:

    Formue er til, Þorgils, bæði í dönsku og norsku. Svíar tala hinsvegar (held ég ) um formögenhet.

  11. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    PS. Er formúa ekki dönskusletta? Þakka þér fyrir leiðréttinguna. Ég hélt lengi vel að þarna væri g en svo er víst ekki. 🙂 Kær kveðja, Þorgils Hlynur.

  12. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Komdu sæll Eiður og ég endurtek þakkir mína fyrir prýðilega pistla.

    Eigi veit ég heldur svo gjörla hvað átt er við með geðprýðishöfn (svo!) en ég hefði frekar mælt með orðinu geðprýðihöfn, þar sem prýði er að sjálfsögðu kvenkynsorð, Í því samhengi langar mig til þess að velta því fyrir mér, eða beinlínis inna eftir því, hvers vegna fólk segir að hitt og þetta sé prýðilegt og prýðilega unnið. en svo er hins vegar talað um prýðismann eða prýðispilt! Þarna er þessu aðskota-s-i skotið inn þar sem mér finnst að það eigi alls ekki heima. Ýmislegt ætti af sömu sökum að vera athyglivert og gagnrýnivert. Þingmaðurinn Unnur Brá Konráðsdóttir fær stóran plús í kladdann fyrir að segja að hitt og þetta sé athyglivert. Athygli og gagnrýni eru kvenkynsorð eins og við eigum flest að vita. Slík orð, sem enda á i og eru kvenkyns, taka ekki s í eignarfalli og eru eins í öllum föllum eintölu án greinis. Þetta svokallaða tengi-ess sem orðið hefur að hugsunarsnauðri eða hreinlega hugsunarlausri málvenju er ekki rétt, að mínu viti. Hver kannast ekki við Samkeppni(s)eftirlitið? En ef til vill er þetta smáatriði að mati íslenskufræðinga. En ég hlýt að hafa mín rök.
    Annað langar mig til að nefna sem er einnig kolröng málvenja, að mínu viti og hefur smyglað sér lymskulega í málvitund fjölmiðlafólks og þingmanna. Þetta er að „ganga erinda annarra“ (svo)! Hefur fólk aldrei heyrt minnst á erindreka (erind-reka), sem reka erindi annarra, vinna í þágu annarra eða fyrir aðra? Merkir orðasambandið að ganga erinda sinna ekki það sama og að ganga örna sinna, það er að segja, setjast á klósettsetuna og tefla við páfann?! (Afsakaðu þetta, en ég vildi orða þetta eins kurteislega og mér var unnt, en þó skýrt og greinilega). Ég sá þetta í ásjónufærslu (sem nefnist Facebook á ensku) hjá Brynjari Níelssyni, leiðrétti hjá honum í einkaskilaboðum (við erum reyndar ekki „vinir“ þarna, ég sá þetta bara í færslu á hlekk sjálfstæðismanna) og uppskar þakklæti, þetta væri rétt hjá mér. Hvernig væri að vekja máls á þessu í pistli og árétta þetta. Hins vegar er talað um að ganga á milli manna, (samanber nafnorðið meðalgangara (þf)). Er það ekki rétt? Með kærri kveðju og innilegu þakklæti, Þorgils Hlynur Þorbergsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>