«

»

Molar um málfar og miðla 1159

Í Spegli Ríkisútvarpsins (12.03.2013) var sagt: … gefur til kynna að meginþorri olíu- og gasauðlinda heimsins sé ekki lengur að finna … Hér hefði átt að segja: ,… að meginþorra þessara auðlinda sé ekki lengur að finna ….

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps hefur tvisvar sinnum í þessari viku verið fjallað skynsamlega um innistæðulaus loforð stjórnmálaflokka um að hægt sé með einu pennastriki að lækka lán og afnema verðtryggingu. Enginn þurfi að borga. Það kosti ekki neitt. Það hefur komið greinilega og skýrt fram að fullyrðingar um ókeypis lækkun lána og afnám verðtryggingar eru bara ómerkilegt skrum. Fjölmiðlar eiga að vernda borgana með því að afhjúpa skrum og ósannindi óvandaðra stjórnmálamanna. Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins hnykkti á þessu í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun (15.03.2013) er hann talaði um kosningaloforð Framsóknarflokksins sem innistæðulaus gylliboð.

Til stendur að vinna bragarbót á húsnæðinu næsta sumar , var sagt í seinni fréttum Ríkissjónvarps (12.03.2013). Átt var við húsnæði geðdeildar Landspítalans. Molaskrifara finnst þetta ekki vel orðað. Hér hefði t.d. mátt segja: Húsnæðið verður endurbætt næsta sumar. Eða: Til stendur að gera bragarbót í (eða á) húsnæðismálum deildarinnar næsta sumar..

Ferrari klessir á vegg, sagði í fyrirsögn á mbl.is (12.03.2013). Fréttabarn á vaktinni. http://www.mbl.is/bill/frettir/2013/03/12/ferrari_klessir_a_vegg/

Í morgunfréttum Ríkisvarps (13.03.2013) var sagt að línubátur hefði strandað í Rauðárvík í Reykjavík. Í mínu minni (og á mínum kortum) heitin víkin Rauðarárvík. Rauðarárstígur í Reykjavík dregur nafn af víkinni. dv.is endurtók villuna um Rauðárvík og kórónaði vitleysuna með mynd þar sem verið var að flytja slasaðan eða sjúkan úr björgunarþyrlu ! Tveir menn voru um borð í bátnum ekkert amaði að þeim. Báturinn losnaði fyrir eigin vélarafli af sandrifinu þar sem hann hafði tekið niðri. http://www.dv.is/frettir/2013/3/13/sigldi-i-strand-i-raudarvik/
Á mbl.is (13.03.2013) er sagt frá berbrjósta páfakjöri í Róm: Tvær konur voru handteknar er þær mótmæltu berbrjósta páfakjöri á Péturstorginu í Róm. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/03/13/handteknar_berbrjosta_a_peturstorginu/ Nú sér maður páfakjörið algjörlega í nýju ljósi.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (13.03.2013): Það er engin framtíðasýn til í gjaldmiðlamálum íslensku þjóðarinnar, segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. Jón Sigurðsson talaði um framtíðarsýn, ekki framtíðasýn. Mjög athyglisvert viðtal við Jón í morgunútvarpi Rásar tvö (13.034.2013).
Glöggur maður benti Molaskrifara á þetta á mbl.is : Hundar og menn fjölmenntu og keppt var í sleðahundadrætti og „skijoring“ í ágætisveðri. Það hefur mikið gengur þegar hundarnir fjölmenntu! Varla felst sleðahundadráttur í því að sleðahundar séu dregnir,- eða hvað? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/09/akafir_sledahundar_kepptu_vid_myvatn_3/
Undarlegt fjölmiðlafár hefur verið búið til í kringum Íslending sem handtekinn var á flugvelli í Tyrklandi og gefið að sök að hafa ætlað með fornminjar (marmarahlunk) í farangri sínum úr landi. Auðvitað var þetta óþægilegt fyrir manninn og hans nánustu, en ekki var ástæða til viðtala við unnustu hans oft á dag. Íslenskir fjölmiðlar missa stundum stjórn sér og sjá hlutina ekki í réttu samhengi. Það varð til þess að utanríkisráðuneytið sendi mann til Tyrklands , rétt eins og Íslendingurinn væri þar í bráðri lífshættu. Allt var þetta dálítið fáránlegt. Þetta var frétt, en ekki sú stórfrétt sem fjölmiðlar sneru þessu atviki upp í.
Molaskrifari þakkar þarfa og réttmætta ábendingu. Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður.

  2. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Ég hef sent þér nokkrum sinnum áður ábendingar um slæleg vinnubrögð á netmiðlum að mínum dómi Hér er frétt á dv.is sem ég rakst á í kvöld:

    http://www.dv.is/frettir/2013/3/15/thetta-er-fidlan-sem-leikid-var-medan-titanic-sokk/

    Ég verð að segja að mér finnst þessi grein ákaflega illa unnin og ýmsar setningar hreinlega mjög vondar. Dæmi:

    „Sérfræðingar hafa staðfest að þetta?! er fiðlan“……..
    „Síðasta lagið sem þeir léku á hinstu andartökum skipsins!!“…….
    „Hljómsveitin fórst með skipinu!!“…….

    Og fleira væri hægt að nefna. Læt þetta duga.

    Kv, Sigurður

  3. Eiður skrifar:

    Þakka þér ábendinguna, Þorvaldur. Athugasemdin mætti á réttum tíma. áttaðir þú þig ekki á því?

  4. Þorvaldur S skrifar:

    Molaskrifari þakkar þarfa og -réttmætta- ábendingu?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>