Þorgils Hlynur Þorbergsson þakkar Molaskrif og sendi eftirfarandi athugasemd (14.03.2013) Hann víkur fyrst að orðinu geðprýðishöfn sem nefnt var hér í Molum fyrir skömmu:
,,Eigi veit ég heldur svo gjörla hvað átt er við með geðprýðishöfn (svo!) en ég hefði frekar mælt með orðinu geðprýðihöfn, þar sem prýði er að sjálfsögðu kvenkynsorð, Í því samhengi langar mig til þess að velta því fyrir mér, eða beinlínis inna eftir því, hvers vegna fólk segir að hitt og þetta sé prýðilegt og prýðilega unnið. en svo er hins vegar talað um prýðismann eða prýðispilt! Þarna er þessu aðskota-s-i skotið inn þar sem mér finnst að það eigi alls ekki heima. Ýmislegt ætti af sömu sökum að vera athyglivert og gagnrýnivert. Þingmaðurinn Unnur Brá Konráðsdóttir fær stóran plús í kladdann fyrir að segja að hitt og þetta sé athyglivert. Athygli og gagnrýni eru kvenkynsorð eins og við eigum flest að vita. Slík orð, sem enda á i og eru kvenkyns, taka ekki s í eignarfalli og eru eins í öllum föllum eintölu án greinis. Þetta svokallaða tengi-ess sem orðið hefur að hugsunarsnauðri eða hreinlega hugsunarlausri málvenju er ekki rétt, að mínu viti. Hver kannast ekki við Samkeppni(s)eftirlitið? En ef til vill er þetta smáatriði að mati íslenskufræðinga. En ég hlýt að hafa mín rök.
Annað langar mig til að nefna sem er einnig kolröng málvenja, að mínu viti og hefur smyglað sér lymskulega í málvitund fjölmiðlafólks og þingmanna. Þetta er að „ganga erinda annarra“ (svo)! Hefur fólk aldrei heyrt minnst á erindreka (erind-reka), sem reka erindi annarra, vinna í þágu annarra eða fyrir aðra? Merkir orðasambandið að ganga erinda sinna ekki það sama og að ganga örna sinna, það er að segja, setjast á klósettsetuna og tefla við páfann?! (Afsakaðu þetta, en ég vildi orða þetta eins kurteislega og mér var unnt, en þó skýrt og greinilega). Ég sá þetta í ásjónufærslu (sem nefnist Facebook á ensku) hjá Brynjari Níelssyni, leiðrétti hjá honum í einkaskilaboðum (við erum reyndar ekki „vinir“ þarna, ég sá þetta bara í færslu á hlekk sjálfstæðismanna) og uppskar þakklæti, þetta væri rétt hjá mér. Hvernig væri að vekja máls á þessu í pistli og árétta þetta. Hins vegar er talað um að ganga á milli manna, (samanber nafnorðið meðalgangara (þf)). Er það ekki rétt? “
Molaskrifari þakkar bréfið.
Ríkissjónvarpið flutti okkur sömu fréttina tvö kvöld í röð á fimmtudags- og föstudagskvöld (14. og 15.03.2013) um gömlu hjónin frá Kósóvó sem nú hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt. Ef fréttin var endursýnd vegna þess að tæknin klúðraði textanum fyrra kvöldið átti að segja okkur áhorfendum frá því. Það hefði verið sjálfsögð kurteisi. Eins og þetta var gert, þá var það heldur klaufalegt. Engu líkara en hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri hefði verið að gera.
Af visir.is (13.03.2013): Mark Mihal, 43 ára kylfingur, er á batavegi eftir að hafa fallið ofan í tæplega sex metra djúpa holu þegar jörðin féll undan fótum hans á golfvelli í Missouri fylki í Bandaríkjunum á föstudaginn. Jörðin féll ekki undan fótum mannsins. Hún opnaðist undir fótum hans.
K sendi eftirfarandi (13.03.2013): ,,Óhugnarleg áhrif laxeldis í sjó?
Ný kanadísk heimildarmynd dregur upp áhugaverða en um leið óhugnarlega mynd af mögulegum áhrifum laxeldis í sjó á villta laxa.“
Óhugnarleg? Heimildarmynd? Bara ein heimild?
http://visir.is/ohugnarleg-ahrif-laxeldis-i-sjo-/article/2013130319675. Ekki vönduð vinnubrögð hér á ferð. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
16/03/2013 at 22:01 (UTC 0)
Hvort myndu menn þá segja -prýðimaður- eða prýðismaður-? Og ef amast er við s; hvað þá um -eld-i-viður-? Eða -sess-u-nautur-?