Píratar kynna úrslit prófkjara, segir í fyrirsögn á mbl.is (16.03.2013). Molaskrifari er á því að fyrirsögnin hefði átt að vera: Píratar kynna úrslit prófkjöra. Það er í í samræmi við beyginguna á hvorugkynsorðinu prófkjör sem er að finna á vef Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.
Molalesandi sendi þetta (16.03.2013): ,,Í tilkynningu lögmannsstofunnar Lex (sjá http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_adsent/fordaemalausar-hotanir-i-samskiptum-logmanna) má sjá algenga en afar leiðigjarna ritvillu sem rétt er að vekja athygli á. Í tilkynningunni segir: ,,Allar ákvarðanir um fjárhagslegar skuldbindingar þeirra félaga sem Sigurður týnir til voru teknar áður en að starfsmenn LEX tóku sæti í stjórn…“
Þarna hefði verið rétt að rita orðið ,,tínir“ með einföldu í frekar en ypsoliní. Sögnin að tína með einföldu í merkir að safna saman, eins og þegar talað er um að tína ber eða tína eitthvað til. Sögnin að týna með ypsiloní merkir að glata einhverju, eða tapa því. Ef til vill hefur lögmannsstofan Lex týnt ritvillupúkanum?! Það skyldi þó aldrei vera.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Molaskrifari staldraði við þegar hann sá undirfyrirsögn í Morgunblaðinu (17.03.2013) þar sem talað var að gera e-ð með einni hendi. Hann er vanari því að talað sé um að gera e-ð með annarri hendinni. Þetta er sjálfsagt og gilt, en hvað segja lesendur?
Í kvikmyndatexta í Ríkissjónvarpi (16.03.2013) var sagt á ensku: Roosevelt had his New Deal. Þetta var þýtt með orðunum: Roosevelt var með nýjan samning. Það sem á ensku er kallað New Deal í bandarískri löggjöf voru lög á ýmsum sviðum sem sett voru í valdatíð Roosevelts, einkum fyrstu árin, til að vinna bug á afleiðingum heimskreppunnar. Sagt var að gefa þyrfti upp á nýtt, eins og sagt er í spilamennsku.
Molaskrifari freistast til að halda að einstaklega lélegt kvikmyndaframboð í íslenska Ríkissjónvarpinu, til dæmis í samanburði við norrænu stöðvarnar, stafi ekki af lélegum fjárhag. Ekki á meðan miklum fjármunum er kastað í Dans, dans, dans og viðlíka framleiðslu. Þetta stafar miklu frekar af vondum smekk þeirra sem velja myndir til sýningar í Ríkissjónvarpinu.
Helsti gallinn á pallborðsumræðunum í Silfri Egils er oft sá að Egill fylgir spurningum ekki eftir. Honum liggur of mikið á. Í Silfrinu (17.03.2013) spurði hann fulltrúa Dögunar um það hvernig flokkurinn ætlaði að framkvæma afnám verðtryggingar og lækkun skulda heimilanna. Svarið var út í hött. Egill gekk ekki eftir efnislegu svari. Hann hefur kannski talið það vonlaust. Vandséð var hvaða erindi fulltrúi Dögunar átti í þetta samtal.
Orðið algjörlega er ofnotað um þessar mundir. Það heyrist víða. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins , Hanna Birna Kristjánsdóttir, sagði í Silfri Egils (17.03.2013) Það er algjörlega hægt að lækka skatta. Hún átti við að auðvelt væri að lækka skatta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar