«

»

Molar um málfar og miðla 1163

Málfróður Molalesandi sendi eftirfarandi (18.03.2013) ,,Á hverjum degi sjást leiðinlegar ambögur með „myndi, … myndi … myndi …“ Þessi hjálparsögn sækir á í málnotkun í samböndum sem ætti tvímælalaust að forðast að nota hana.

Hjálparsögnin „myndi / mundi“ táknar í eðlilegu máli fyrirvara og efasemdir. Oft birtir hún einhvers konar spádóm eða tilgátu eins og hjálparsögnin „mun“.
Hjálparsögnin „myndi / mundi“ fer mjög illa þegar sett er fram gallhörð fullyrðing eða tilgangur

Hér eru dæmi (af netsíðu DV 18. mars 2013):
Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunnar, mun ekki verða við kröfum Gunnars Þorsteinssonar vegna ásakana sem birtust á vef Pressunnar gegn Gunnari. Var þess krafist af Gunnari að Pressan myndi biðjast afsökunar á þessum ummælum …
Hér er eðlilegast og skýrast að skrifa „krefjast“ og „biðjast“ umbúðalaust – af fullum þunga:
Gunnar krefst þess að Pressan biðjist afsökunar …

Framhaldið er í sama stíl:
Björn Ingi birti í kvöld pistil á vef Pressunnar „… Ég gæti aldrei horft framan í annað fólk ef ég myndi gefast upp nú, ,“ segir Björn Ingi í pistlinum.

Illa fer á því að setja „myndi“ á eftir „ef“ (smáorðið birtir fyrirvara nógu vel)
Hér er eðlilegast og skýrast að skrifa:
… ef ég gæfist upp nú …” Molaskrifari þakkar góða sendingu.

Molavin sendi eftirfarandi (18.03.2013): ,,Landbúnaður verði erfiðasti hjallinn“ segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu í dag, 18. mars. Þessi villandi sagnanotkun verður æ algengari í fyrirsögnum. Hér væri annar háttur sagnarinnar eðlilegri þar sem hvorki er um fullyrðingu (verður) né boð (verði) að ræða og ætti því að standa ,,Landbúnaður yrði erfiðasti hjallinn.“ Trúlega eru fyrirsagnaskrif ekki kennd nýjum blaðamönnum og reyndari blaðamenn leggja ekki í það að leiðrétta ungliðana. – Rétt ábending. Molaskrifar hjó eftir þessu líka. Þökk fyrir sendinguna.

Í fréttum Ríkísútvarps (17.03.2013) talaði fréttamaður um að koma stjórnarskrármálinu í heila höfn. Þetta er ekki rétt. Við tölum um að koma einhverju heilu í höfn. Bjarga því. Verja það áföllum. Molaskrifara er það minnisstætt að hann flaskaði á þessu sama í fréttaskrifum í Alþýðublaðinu fyrir svona 50 árum !

Í fréttum Stöðvar tvö (17.03.2013) var ítrekað talað um auðlindarákvæðið í drögum að nýrri stjórnarskrá. Eðli máls samkvæmt ætti að tala um auðlindaákvæði, – ekkert r.

Gísli Helgason þakkar molaskrif (17.03.2013) og segir: ,,Í fréttum rúv í morgun var sagt frá fjölda jeppa sem hefðu lent í vandræðum uppi á jökli.
Ekki hef ég fyrr vitað að dauðir hlutir lendi í vandræðum. Vandræðin eru þeirra sem jeppunum stjórna og farþega í ferðalaginu. Mér datt þetta svona í hug”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>