«

»

Molar um málfar LVII

Reyni Traustasyni,ritstjóra, þakka ég  athugasemdir  við  Mola gærdagsins. Þið á  Vefdv  verðið  að vanda ykkur meira. Skoðum  eftirfarandi  skrif (19.04.):

„Strandhelgisgæslan í Bandaríkjunum leitar nú að 39 ára gömlum karlmanni sem féll útbyrðis af norsku skemmtiferðaskipi undan ströndum Bahamas –eyja. Atvikið átti sér stað snemma morguns á laugardaginn.

Ekki hefur tekist að bera kennsl á manninn en nokkrir farþegar sáu hann falla útbyrðis. Fjölmör skemmtiferðaskip aðstoða strandhelgisgæsluna við leitina.“ Það er margt sem  er  gagnrýnivert  í þessum fáu línum. 

1. „Strandhelgisgæslan“. Hér hefði átt að standa strandgæslan eða landhelgisgæslan (e. coast guard). Það er ekkert til sem heitir strandhelgi.´Samræmi er í vitleysisganginum því orðið er notað tvisvar.

2. „Bahamas-eyjar“. Íslensk málvenja er að tala um Bahamaeyjar (e. The Bahamas)

3. „Ekki hefur tekist að bera kennsl á manninn“. Sá sem skrifar á sennilega við að ekki hafi tekist að finna manninn, leitin að honum hafi ekki borið árangur. Að bera kennsl á , er að þekkja.

Hér er svo meira af Vefdv: „ Ofurfyrirsætan Kate Moss (35) hefur verið bannað að drekka eftir að hún fékk sveppasýkingu í aðra stóru tánna. Kate áskotnaðist sýkingin er hún fór í fótsnyrtingu í Bandaríkjunum og er á svo sterkum sýklalyfjum.“

1. Þarna  ætti að  standa:  Ofurfyrirsætunni …hefur  verið  bannað að  drekka.

2. „..áskotnaðist sýkingin..“ Sögnin að áskotnast er jákvæð og er notuð um að fá eitthvað óvænt, eitthvað gott. Það getur varla átt við um sýkingu.

3. „…og er á svo sterkum sýklalyfjum.“ Að hvað ? Setningin endar í lausu lofti.

 Aftur og enn segi ég: Þetta er ekki boðlegt.Um það hljótum við  Reynir Traustason að vera sammála. – Sleppi því að gera  athugasemdir  við  stafsetningarvillur, – eða augljósar innsláttarvillur.

Myndaflokkurinn sem RÚV sýnir um þessar mundir um „Villta Kína“ er afar vel gerður. Hreint konfekt fyrir áhugamenn um Kína og Miðasíu. Ekki spillir að íslenski textinn er einstaklega vandaður og prýðilega fluttur. Það er til fyrirmyndar.

Og svo aðeins um fréttamat. Einkennilegt var að það skyldi ekki þykja fréttnæmt í sjónvarpsfréttum RÚV klukkan 1900 né klukkan 2200 (20.04.) sem sendiherra ESB gagnvart Íslandi sagði um tillögu Sjálfstæðismanna um Evruna og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Sendiherrann sagði um þá tillögu Sjálfstæðismanna að AGS ætti að hafa milligöngu um það við ESB að við tækjum upp Evru einhliða að hún væri hrein vitleysa, (e. sheer nonsense) Raunar væri réttara að þýða ummæli sendiherrans um tillöguna að hún væri „arfavitlaus“ , „tóm tjara“ eða „algjör della“. Þetta hefði víðast hvar þótt fréttnæmt.

Í auglýsingatíma  RÚV  fyrir  fréttir blandast saman   auglýsingar frá  stjórnmálaflokkum og  steypustöð,sem er að selja  steypu. Í kvöld  fannst mér  endilega  vera sagt: Kaupið  steypuna hjá okkur.,Sjálfstæðisflokkurinn. Líklega misheyrðist mér. En gæti þetta ekki  verið rétt?

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sverrir Einarsson skrifar:

    Mest(a) steypan í kosningarbaráttunni er jú í boði SjálfstæðisFLokksins og hún hefur verið okkur nógu dýr fram að þessu, þannig að ég er ekki að eyða peningum í að kaupa aðra steypu í bili.

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Sæll Hrafn, þakka þér athugasemdina. Ég sá þetta með „tánna“ en af meðfæddri góðvild leit ég á það sem innsláttarvillu !! Þetta er hárrétt með nafnháttarsýkina. Var til dæmis áberandi í þætti þar sem nokkrar konur úr frambjóðendaflokki Sjálfstæðisflokksins voru að ræða saman á ÍNN. Sá ég þó bara brot úr þættinum.

  3. corvus corax skrifar:

    Varðandi málfar í frétt um Kate Moss og sýkinguna, þá fékk leikkonan sýkingu í tána með einu n-i en ekki tveimur. Það er ótrúlegt hve margir virðast ekki geta lært að beygja tá, á, rá, skrá, brú, skór og fleiri orð. Öll þessi orð hafa aðeins eitt n í þolfalli svo við tölum um tána, ána, rána, skrána, brúna, skóna, o.s.frv.
    Þetta er sérstaklega áberandi þessa dagana í umræðu um stjórnarskrána sem oftar en ekki verður stjórnarskránna í meðförum málsóða.
    Þá vil ég einnig benda á notkun á sögninni vilja í 1. persónu, eintölu sem er vil en ekki vill.
    Og svo væri að æra óstöðugan að fara að fjalla hér um málsóðaskapinn að vera að gera, þ.e. að nota nafnhátt sagna á rangan hátt. Dæmi um það er, ég er ekki að skilja þetta, hann er ekki að fara rétta leið, hann er að vinna mjög vel….. í stað þess að tala og skrifa íslensku sem er þannig: ég skil þetta ekki, hann fer ekki rétta leið, hann vinnur mjög vel. Nóg að sinni.

     Hrafn Hrafnsson

  4. Eiður skrifar:

    Góð ráð  eru alltaf vel þegin. Þakka  þér  fyrir, Sveinn Birkir.

  5. Sveinn Birkir Björnsson skrifar:

    Ég hef tekið saman nokkra mola um mola um málfar. Hér þarf ýmislegt að athuga.

  6. Valur Kristinsson skrifar:

     Er einnig sammála með Gunnar Þorsteinsson, frábær þýðandi og þulur í Villta Kína, en það er eitt sem varðar útsendinguna á tónlistinni í þættinum, er að hún er of hávær á köflum og yfirgnæfir tal þularins.

    Þetta skerðir einbeitinguna hjá heyrnarskertum gamlingja eins og mér, þó er ég með góð heyrnartól.

     Með kærri þökk fyrir Molana Eiður, ég les þá reglulega og læri af.

    VK

  7. Brjánn Guðjónsson skrifar:

    mér hefur sýnst næg steypa vera boðin fram af Sjálfstæðisflokknum, svo líklega misheyrðist þér ekki.

  8. Lana Kolbrún Eddudóttir skrifar:

    Sammála þér með Gunnar Þorsteinsson, þýðanda og prýðilegan þul í Villta Kína. Hann er af gamla þurra og vandaða skólanum, sem ég tengi alltaf við Jón O. Edwald.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>