«

»

Molar um málfar og miðla 1169

Í fréttum Stöðvar tvö (25.03.2013) sagði formaður Sjálfstæðisflokksins: … héldu fast við sinn keip. Keipur er búnaður á borðstokki árabáts, áraþollur, til að halda árinni þegar róið er. Venja er að segja að einhver sitji við sinn keip þegar hann fæst ekki til að breyta um stefnu eða skipta um skoðun.

Í fréttum Stöðvar tvö (25.03.2013) var sagt um foreldra pilts sem orðið hafði fyrir barðinu á misþyrmingum íþróttafélaga sinna, að þau hefðu hlotið afsökunarbeiðni. Betra hefði verið að segja að þau hefðu verið beðin afsökunar. En hvað um fórnarlambið? Bað enginn drenginn sem misþyrmt var afsökunar. Það kom ekki fram í fréttinni.

Jói benti Molaskrifara á þessa frétt af visir.is (26.03.2013): http://www.visir.is/med-taernar-thar-sem-adrir-hafa-haelana/article/2013130329367. Sá sem þessa frétt skrifaði skilur greinilega alls ekki hvað það er að vera með tærnar þar sem einhver annar hefur hælana! Það er, að standa einhverjum að baki vera eftirbátur einhvers.

Þegar opinberar stofnanir, eins og embætti ríkislögreglustjóra, senda út fréttatilkynningar eiga þær að vera á góðu máli og villulausar. Í fréttatilkynningu frá ríkislögreglustjóra sem gefin var út á þriðjudag (26.03.2013) stendur:, ,,Uncertainty phace because of seismic activity in mount Hekla. The National Commissioner of the Icelandic Police (NCIP) and the Police commissioner at Hvolfsvöllur declare an uncertainty phace (lowest level of warning), because of seismic activity in mount Hekla.” Hér er átt við phase, stig, stöðu, ekki phace (Molaskrifari veit ekki til þess að það orð sé til í enskri tungu) Ef enska heitið á embættinu er skrifað með upphafsstöfum ætti það sama að gilda um embættisheiti lögreglustjórans á Hvolsvelli. Svo er náttúrulega ekkert til sem heitir Hvolfsvöllur, heldur Hvolsvöllur. Það er ekki traustvekjandi þegar opinberar stofnanir láta svona lagað frá sér fara.
Við drögum síðustu lærin í leiknum okkar á þriðjudaginn, auglýsir Goði á Fésbókinni. Læradráttur virðist vera nýr leikur hjá Goða. Hvað á maður að halda?

SOS barnaþorpin nota óíslenskulega orðaröð í auglýsingu (26.03.2013) þegar sagt er: Þú og þitt styrktarbarn. Þetta verður æ algengara í auglýsingum. Viðlíka orðaröð er stundum notuð í ísaensku, en þá í frekar niðrandi merkingu, til dæmis: Þú og þitt hafurtask! Auglýsingastofur eiga að hafa metnað til að nota vandað mál í auglýsingum.

Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í fréttum Ríkisútvarps (25.03.2013) væri ítrekað talað um að þjappa sig saman. Molaskrifari er vanur því að tala sé um að þjappa sér saman, ekki þjappa sig saman. Hvað segja Molalesendur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Þótt orðið -sauðfénaður- sé ekki algengt er það engu að síður gamalt og gott orð í voru máli, íslensku. Má skoða beygingu þess hjá Árnastofnun.
    http://bin.arnastofnun.is/leit.php?id=83033

  2. Eiður skrifar:

    Miklu betra.

  3. Eiður skrifar:

    Ég skil þetta eins og þú, Eirný.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Ég hlustaði á fréttir í sjónvarpi kl. 22 þann 27. mars.
    Ég heyrði þul segja ,,sauðfénaðar“

    Ég beygði orðið og athugaði svo hvað vefur Árnastofnunar gæfi upp um beygingu orðsins sauðfé.
    Tilbrigðið sauðfénaðar sást hvergi.
    Hvað finnst þér?

    Kveðja,
    Eirný

  5. Eirný Vals skrifar:

    Sæll Eiður,
    ég fann frétt inn á http://www.dv.is – undirfyrirsögn er, sakfelldur fyrir rangar sakargiftir.

    http://www.dv.is/frettir/2013/3/27/daemdur-fyrir-ad-framvisa-rongu-okuskirteini/

    Ég hef ekki lesið dóminn en skilningur minn er að maðurinn/konan hafi eitt sinn verið dæmdur og nú hafi sannast að það var rangt. Eða er það rangur skilningur hjá mér? Er það rétt að þegar ég játa skýlaust brot mitt sem felst meðal annars í því að ég reyni að koma mér undan sök að þá sé ég dæmd fyrir rangar sakargiftir?

    Kveðja,
    Eirný

  6. Kristján skrifar:

    „Þú og þitt styrktarbarn“. Góður þessi, með hafurtaskið. Þetta minnir á Ragnar Reykás: „Alltaf sama sagan með þig og þína fjöskyldu !“

    RLS : Uncertainty phase because of seismic activity in mount Hekla

    Mín útgáfa: State of uncertainty due to seismic activity in mount Hekla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>