«

»

Molar um málfar og miðla 1168

Í fréttayfirliti Stöðvar tvö (24.03.2013) var talað um að laun á skrifstofu hefðu aukist .. Betra hefði verið að segja að laun á skrifstofu hefðu hækkað, – launakostnaður aukist. Í sama fréttatíma var sagt: Útgjöld nam rúmlega 90 milljónum. Rétt hefði verið að segja: Útgjöld námu rúmlega 90 milljónum.

Skemmtilegt innslag í fréttum Stöðvar tvö (24.03.2013) um vegi og jarðgöng í Færeyjum. Rétt er, sem þar kom fram, að allir vegir í Færeyjum eru malbikaðir. Þar eru engir malarvegir. Enda er engin möl í Færeyjum.

Magnús bendir á eftirfarandi (25.03.2013): Þessa skemmtilegu setningu er að finna meðal annarra gullkorna í fróðlegri frétt um kappakstursmann sem ók fram hjá keppinauti sínum á „heimskulegan“ hátt:
„Loftið var þrútið og rafmögnuð spenna strax eftir keppnina og á verðlaunapallinum og eflaust á mikið eftir að ganga á í herbúðum Red Bull út af atvikinu sem auðveldlega hefði getað kostað brottfall beggja bíla.“. Molaskrifari þakkar sendinguna. Loftið var þrútið! Það vantaði bara að segja að það hefði verið þungur sjór!

Það er góðra gjalda vert hjá Agli Helgasyni að bjóða fulltrúum smáframboðanna, Lýðræðisvaktar, Pírata og Alþýðufylkingar í Silfrið. En ósköp var maður litlu nær, nema þá helst að Internetið sé allsherjarlausn á öllum efnahagsvanda íslensku þjóðarinnar! Eftirminnilegast úr umræðunum er kannski það sem fulltrúi Framsóknarflokksins sagði. Hann minnti á að enginn stjórnmálamaður hefði átt að fá að koma nálægt Stjórnlagaráði. Nú ættu hinsvegar helstu framámenn í Stjórnlagaráði enga ósk heitari en að verða stjórnmálamenn. Þetta var góð ábending.

Er það frétt þegar skíðalyfta á Akureyri stöðvast í klukkustund vegna bilunar, sem reyndist svo alls ekki vera bilun? Molaskrifara finnst það ekki vera fréttnæmt. Fréttastofa Ríkisútvarpsins er á öðru máli. Í hádegisfréttum á mánudag (25.03.2013) var birt löng og ítarleg frétt ásamt viðtali um bilunina, sem ekki var bilun.

Af visir.is (25.03.2013): Um klukkan korter yfir þrjú var viðbúnaðurinn afstaðinn. Ekki getur þetta orðalag talist til fyrirmyndar. Viðbúnaðurinn afstaðinn! Fréttin var um kanadíska flugvél. Bilun varð í öðrum hreyfli vélarinnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór til móts við vélina og allt fór vel. Þarna hefði ef til vill mátt tala um hættuástandi hefði verið aflýst.

Molaskrifari er einkar sérvitur eins og Molaleslesendur flestir vita. Hann hefur gert athugasemdir við orðalagið samkvæmt lögreglunni og fleira í þeim dúr.
Nýr ritstjóri Fréttablaðsins skrifar í leiðara /25.03.20123): … samkvæmt Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að orða þetta á annan veg. Til dæmis: Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur sagt …

Molaskrifari horfði á fróðlegt Suðurnesjamagasín á ÍNN (25.03.2013). ÍNN í samvinnu við Víkurfréttir er að gera það sem Ríkissjónvarpið ætti að gera.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Já, vægast sagt undarlegt orðalag, Sigurður og vanhugsað.

  2. Eiður skrifar:

    Kannski hneigjast menn til að segja á Flórída vegna þess að ríkið er skagi?

  3. Sigurður Karlsson skrifar:

    „Álíka stór hópur manna hafði réttarstöðu og þeir sem voru á endanum ákærðir af embætti sérstaks saksóknara í stóru Kaupþings-og Landsbankamálunum.“ Segir í upphafi fréttar á ruv.is á þriðjudagsmorgni.

    Athyglisvert í ljósi þess sem orðabókin segir:
    réttar·staða KVK •
    staða samkvæmt lögum og réttarreglum

    En gott að vita til þess vegna nýlegra frétta úr réttarkerfinu að menn hafi ekki verið alveg réttlausir frammi fyrir sérstökum saksóknara.

  4. Kristján skrifar:

    Kannski skiptir þetta ekki miklu máli, en algengt er orðið að fólk segi og skrifi „á Flórida“ en ekki „í Flórida“. Eðlilegast að segja „í“. Það á við öll ríki Bandaríkjanna. Semsagt, Ingvi Hrafn grettir sig og geiflar í Flórida en ekki á Flórida.

    Síðan mætti jafnvel segja „í Flóridu“ eins og „í Kaliforníu“ eða í Georgíu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>