«

»

Molar um málfar og miðla 1167

Skrifað er á visir.is (22.03.2013): Strákarnir í þættinum hringdu í Árna til að fá hann til að útskýra hugmynd sína um að koma á gangnasamgöngum á milli lands og eyja. Gangnasamgöngur? Það er greinilega eitthvað nýtt. Venja er að skrifa Eyjar með upphafsstaf, þegar átt er við Vestmannaeyjar.

Maður sem rætt er við í fylgiblaði fréttablaðsins (22.03.2013) segist vera tónlistarmaður og ,,sales rep”. Það er auðvitað mjög fínt að vera ,, sales rep”, miklu fínna en að vera sölumaður, sem er bæði gamaldags og hallærislegt. En sölumaður er sölumaður þótt hann slái um sig með ensku og kalli sig ,,sales rep”, sem er stytting á enska orðalaginu sales representative.

Lesandi benti á þetta á mbl.is (22.03.2013): Franskur dómstóll hefur komist að því að bróðir fjöldamorðingjans Abdelkader Merah, sem skaut sjö til bana í borginni Toulouse í fyrra, verði áfram í haldi, og segir: „Ég hef skilið, ef ákvörðun um varðhald hefði verið tekin af dómstólnum, en hvers vegna í ósköpunum er hann að kanna hvort einstaklingur sitji inni?“

Það er ekkert nýtt að popptónleikar séu auglýstir í lok frétta í Ríkissjónvarpinu eins og gert var á föstudagskvöld (22.03.2013). Það er hinsvegar nýlunda að sömu tónleikar séu auglýstir í öðrum þætti, Hraðfréttum örstuttu síðar. Oft veit hægri höndin í Efstaleiti ekkert hvað sú vinstri er að gjöra.

Molalesandi skrifaði (22.03.2013): ,,Í DV í dag var í myndatexta talað um snjóhríð og þá þakkaði ég í huganum fyrir alla vatnsrigninguna !” Það var og.

Ef heimilin virka ekki, sagði formaður Framsóknarflokksins (23.03.2013) í fréttum Stöðvar. Heimilin virka ekki. Það var og.

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.03.2013) var sagt í Kýpur. Skýr málvenja og umdeild er að segja á Kýpur. Í sama fréttatíma var sagt: Ökumaðurinn tók þessu óstinnt upp. Hér hefði að sjálfsögðu átt að segja: Ökumaðurinn tók þetta óstinnt upp. Meira úr sama fréttatíma: Deilur um aksturslag endaði með … Hefði átt að vra : Deilur um aksturslag enduðu með … eða, – deilum um aksturslag lyktaði með …

Þetta er bíll sem öllum langar í … , segir bílasali í viðtalið við Morgunblaðið (24.03.2013). Aðvitað eiga blaðamenn ekki að leggja viðmælendum sínum orð í munn, en þeir eiga að leiðrétta það sem betur mætti fara, augljósar villur sem sting í augu. Hér hefði farið betur á því að segja: Þetta er bíll sem alla langar í …

Í Silfrinu (24.03.2013) var ágætt og mjög áhugavert viðtal Egils við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, tæpri viku eftir að hann var hér á landi. Sú var tíðin að oft var sérstökum viðtalsþáttum Boga Ágústssonar við áhugavert fólk sem hér var á ferð skotið inn í dagskrána. Nú virðast slíkir viðtalsþættir horfnir úr dagskránni og Egill ræði við alla áhugaverða gesti sem hér drepa niður fæti. Þetta viðtal hefði allt eins átt heima í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Nú hríðar stundum öðru en snjó, sbr. grjóthríð, skothríð og jafnvel hlandhríð með skítkasti og því ekkert rangt hugsað að taka fram hverju hríðar. Þá er ekki öruggt að vatni rigni; þannig rigndi eggjum yfir þingheim fyrir skemmstu og blóðregn hefur líka þekkst, þannig að varlegra er að hafa vaðinn fyrir neðan sig eins og þingmaðurinn sagði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>