«

»

Molar um málfar LVIII

Enn halda menn áfram að „sigra keppni“ í íþróttafréttum fjölmiðla. Þannig var til orða tekið í Rúv sjónvarpi (19.04.) að „Everton hefði sigrað vítaspyrnukeppni“. Knattspyrnulið sigrar í vítaspyrnukeppni eða vinnur keppnina. Þannig heyrði ég þetta, allavega. Ekki vil ég þó með öllu útiloka að mér hafi misheyrst. Sá sem þetta las er nefnilega ekki einn af bögubósunum.

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.04.) var sagt að tiltekið íþróttalið hefði verið „í miklum vandræðum sóknarlega“. Sá sem fréttina skrifaði átti við að sókn liðsins hefði gengið illa. Þetta er auðvitað ótækt orðalag.

Stundum má gera langa sögu stutta: Í Vefmogga stendur (20.04.):„Íslenskir námsmenn í Horsens í Danmörku eru æfir yfir því að þeim hafi verið vísað frá þegar þeir hugðust taka þátt í þingkosningunum og greiða utankjörfundaratkvæði hjá ræðismanninum í bænum í dag „. Þarna hefði mátt segja: Íslenskir námsmenn í Horsens í Danmörku eru æfir vegna þess að þeir gátu ekki kosið hjá ræðismanninum í bænum í dag.

Hér hefur áður verið vikið að meðlimum, áhafnarmeðlimum og aðilum. Meðlimir voru á ferðinni Vefvísi, saman ber eftirfarandi: „Meðlimir Björgunarfélags Hornafjarðar eru nú á leið á Öræfajökul „. Þarna hefði til dæmis mátt nota orðið liðsmenn, – ef sagt hefði verið félagar úr Björgunarfélagi, hefði mátt tala um nástöðu. Vefvísir hafði eftir hæstaréttarlögmanni og þingmanni (18.04.) að það væri „virðingavert“ að bankastjóri skyldi hafa beðist afsökunar. Þarna vantaði einn bókstaf – r – Þarna átti auðvitað að standa virðingarvert.

„Gengi bréfa Marel Food Systems falla í byrjun dags“, segir Vefvísir í fyrirsögn (20.04.). Gengi er eintöluorð og þarna ætti því að standa: Gengi bréfa Marel Food Systems fellur… eða: Gengi bréfa Marel Food Systems féll í byrjun dags.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Heimir Tómasson skrifar:

    Væntanlega.

  2. Kári Waage skrifar:

    Fréttamenn tala oft um að lið eða einstakir menn „vinni sigur“. Voru þeir þá að keppa á móti sigrinum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>