«

»

Molar um málfar og miðla 1173

Það var gaman að sjá frétt um framkvæmdir Færeyinga í flugmálum í fréttum Stöðvar tvö (03.04.2013). Þrjár nýjar þotur, lengd flugbraut og ný og glæsileg flugstöð. Gamla flugstöðin var reyndar alls ekki gömul, – hún var svo gott sem ný sé miðað við skúraræksnin úr seinni heimsstyrjöld sem borgaryfirvöld í höfuðborg Íslands leyfa sér að kalla flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Skúraþyrpingin er ráðamönnum Reykjavíkurborgar í margar kynslóðir til ævarandi skammar og háðungar. Athugandi væri hvort þeir Jón Gnarr , borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs geta ekki fengið gömlu færeysku flugstöðina í Vogum keypta og sett hana upp við Skerjafjörðinn. Næsta víst er að við gætum fengið hana fyrir lítið. Færeyingar hafa alltaf verið góðir við okkur. Hún væri óendanlega betri en núverandi aðstaða.

Mikil mildi var að gífurlegt jón varð ekki Skorradal um páskana þegar hálfviti skaut eða kastaði flugeldi í skraufþurra sinu. Molaskrifara finnst að Hörður verktaki sem kom á vettvang með öfluga gröfu, hefti útrás eldsins og réði niðurlögum hans ásamt fleirum hafi alls ekki fengið það hrós sem hann á skilið.

Hvar er nú íþróttarás Ríkissjónvarpsins sem stundum hefur verið notuð? Er hún bara til sparibrúks? Það er svo sem sök sér þótt fréttum sé stöku sinnum skotið á fresta vegna landsleikja, en er ekki hægt að hlífa okkur við fimbulfambi íþróttafréttamanna og svokallaðra ,,sérfræðinga” eftir leikinn? Það væri til bóta.

Það eru vond vinnubrögð Ríkissjónvarpsins að kynna þættina Forystusætið, þar sem kynnt eru framboð til Alþingis jafn illa og raun ber vitni. Niðursoðna hér –hikk- á rúv konuröddin sagði til dæmis í gærkveldi (03.04.2013) áður en rætt var við Þórhildi Þorleifsdóttur frá Lýðræðisvaktinni: Nú verður sýndur einn framboðslistinn fyrir Alþingiskosningarnar. Þetta var endurtekið í gærkveldi þegar rætt var við Árna Pál Árnason Sýndur einn framboðslistinn? Hvað rugl er þetta eiginlega. Les enginn yfir það sem konan fer með ? Er þetta allt tekið upp löngu fyrirfram? Niðursoðnar kynningar? Óboðleg vinnubrögð. Næstum væri betra að sleppa þessum innihaldslausu kynningum en hafa þetta svona.

Gunnar skrifar (04.04.2013):,,Mikið finnst mér það óviðeigandi, þegar blaðamenn DV og ýmsir aðrir, nota ítrekað orðið „lágvöruverslanir“. Ég hef komið í margar af þessum verslunum og mér finnst vörurnar ekkert lægra staðsettar þar en í öðrum verslunum og ég þarf meira að segja stundum að teygja mig til að ná í sumar vörur. Málið er að þótt verðið eigi að vera lágt, sem sumum finnst reyndar vera of hátt, eru vörurnar í hillum á ýmsum hæðum. Þessi leti, að nenna ekki að skrifa „lágvöruverðsverslanir“ er þeim til skammar. Ef þeir nenna ekki að vera blaðamenn ættu þeir bara að snúa sér að öðrum störfum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Gunnar skrifar:

    Ekki get ég skrifað undir það Magnús, það eru 40 ár í september, síðan „z“ var aflögð í íslensku máli, í öðrum orðum en t.d. sérnöfnum af erlendum uppruna.

  2. Magnús Bjarnason skrifar:

    Ef til vill mætti nota lágverðsverzlanir, eða hvað??

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>