«

»

Molar um málfar og miðla 1174

Hversvegna fá áhorfendur Ríkissjónvarpsins aldrei að sjá vandaða erlenda fréttaskýringaþætti eins og til dæmis Newsday (BBC) og Urix (NRK) svo aðeins tveir séu nefndir? Er þetta bannvara að mati æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins?

Lesandi bendir á þessa frétt á mbl.is (04.04.2013) og segir: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/04/03/sprengja_ur_seinna_stridi_i_berlin/
,,Las þessa frétt áðan og varð hálf kjaftstopp yfir málfræðinni sem í henni birtist.
,,Sprengjusérfræðingar hafa verið kallaðir inn…“ mér liði betur ef sprengjusérfræðingar væru kallaðir til.
,,Fram kemur á vef BBC að sprengjan er 100 kg og ósprungin“. Væri ekki réttara að rita að ,,..sprengjan sé 100 kg“ ?
Svo er sagnbeygingarfælni allsráðandi í allri fréttinni sem gerir textann stirðbusalegan og kjánalegan”. Molaskrifari bætir við: Aðalfréttin er náttúrulega að sprengjan sem fannst var ósprungin!
p.s.
Rangt er farið með tímamismuninn í fréttinni því að 31. mars sl. breyttu flestir Evrópubúar klukkunni yfir í sumartíma þannig að tímamismunur Íslands og Berlínar jókst í 2 klukkustundir. Vona innilega að við Frónbúar berum gæfu til að taka upp þann sið á nýjan leik sem allra fyrst.”

Enn einu sinni fóru dagskrárstjórar Ríkissjónvarpsins niður á botn ruslakistunnar á föstudagskvöldi (05.04.2013) og buðu upp á lélegt efni á besta tíma. Hvers eigum við að gjalda? Kvikmyndin The Six Wives of Henry Lefay fær falleinkunnina 5,0 á vef IMDb. Er það ófrávíkjanleg regla að bjóðas okkur upp á rusl á föstudagskvöldum? Rétt er að benda þeim sem semja skjátexta Ríkissjónvarps að fleirtalan af orðinu wife er ekki wifes (eins og margsýnt var á skjánum) heldur wives. Þetta er eitt ef því fyrsta sem nemendum er kennt um fleirtölu í ensku. Þetta var reyndar leiðrétt í lokaskjákynningu, rétt áður en myndin var sýnd.

Dálítið undarlegt orðalag í frétt á mbl.is um mann sem var ofurölvi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (05.04.2013): …en ekki verið hleypt um borð í flugvélina sökum ástands. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/05/of_fullur_til_thess_ad_fa_ad_fara_um_bord/
Önnur undarlega orðuð frétt í sama miðli, sama dag: Einnig verður unnið við breikkun á þverun Borgarfjarðar beggja vegna brúarinnar. Það á ekki að valda töfum en hraði er þó tekinn niður og vegfarendur þurfa að gæta varúðar að sögn Vegagerðarinnar. Breikkun á þverun Borgarfjarðar? Er ekki bara verið að breikka veginn beggja vegna brúarinnar? Hraði tekinn niður? Leyfilegur hámarkshraði lækkaður. Fréttabarn á vaktinni? Ekki ósennilegt. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/05/buast_ma_vid_tofum_i_borgarfirdi/

K skrifar (04.04.2013): ,,Hvað skyldi þetta þýða?:
Undirfyrirsögn:
,,Heiða Kristín brennur fyrir því að gera stjórnmál skemmtilegri“
Tilvitnun:
„Ég brenn fyrir því að gera stjórnmál skemmtilegri, aðgengilegri og áhugaverðari.“
Hugsanlega einhver samsláttur við það að ,,brenna í skinninu“.
http://www.dv.is/frettir/2013/4/4/haettum-ad-thvadra-um-thad-sem-er-longu-buid/

Borgarfulltrúi skrifar á Fésbók: Klámvæðingin og annað kynferðislegt ofbeldi er forgangsmál og á aldrei að líðast …, Ekki er Molaskrifari sáttur við orðalagið að klámvæðing og kynferðisofbeldi séu forgangsmál ! Barátta gegn klámvæðingu og kynferðisofbeldi á hinsvegar að vera forgangsmál.

Meðal nýrra starfsmanna á fréttastofu Ríkisútvarps er Haukur Hólm, reyndur fréttamaður. Molaskrifari man ekki betur en Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Útvarps Sögu hafi rekið hann úr starfi á einkastöð sinni. Það eru ekki slæm meðmæli.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fimmta flokks.

  2. Axel skrifar:

    Kvikmyndavalið á Rúv fer versnandi. Iðulega sýndar annars flokks barna- og unglingamyndir. Sunnudagsmyndirnar þó oft áhugaverðar. Sin Nombre sem sýnd var fyrir örfáum vikum var t.d. afar góð að mínu mati.

  3. Egill skrifar:

    Haukur þessi er Holm, ekki Hólm eins og þú skrifar. Rétt skal vera rétt og ég fagna því að hann sé kominn í Sjónvarpið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>