«

»

Molar um málfar og miðla 1175

Molavin vitnar í visir,is (06.04.2013): „Töluverður viðbúnaður var á Tryggvagötunni í dag þar sem tilkynningin til Neyðarlínunnar hljómaði á þá leið að tvær konur væru meðvitundarlausar í bifreið eftir að hafa klesst á vegginn. “ Það barnamál er tvítekið í fréttinni að bíll „hafi klesst“ á húsvegg – og hvernig „hljómar“ tilkynning til Neyðarlínunnar? Fréttabörnin ættu að vera heima hjá foreldrum sínum um helgar. Sjá: http://www.visir.is/setti-i-vitlausan-gir/article/2013130409447
Lesandi sendi þessa athugasemd (05.04.2013): ,,Rakst á undarlegt málfar í Pressunni 4. apríl, frétt með mynd af bíl sem var lagt upp á gangstétt svo stúlka með barnakerru þurfti að fara út á götu til að komast fram hjá.
En það var orðið „bílastæðalagning“ sem fékk mig til að senda þér þetta. Er þetta orð til í þessu samhengi? Það var ekki verið að leggja bílastæði heldur var bíl lagt upp á gangstétt.” Molaskrifari þakkar athugasemdin. Þetta orð er bara rugl.
Frá Gunnari: ,,Ég hef tekið eftir því að íþróttafréttamenn Stöðvar 2 virðast undantekningarlaust tala við landsliðsþjálfara okkar, Svíann Lars Lagerbäck, á ensku, en að sjálfsögðu er rætt við hann á sænsku í Ríkissjónvarpinu. Þetta finnst mér aulalegt hjá þeim fyrrnefndu. Eins bera þeir (á Stöð 2) iðulega nafnið hans vitlaust fram, segja „Lagerbakk“ en „ä“ á að bera fram eins og „e“.
Í sjónvarpsauglýsingu frá Tryggingastofnun (04.04.2013) segir: Frá 1. apríl lokar þjónustumiðstöðin klukkan … Ekki kemur fram hverju þjónustumiðstöðin lokar. Opinberar stofnanir eiga að vanda málfar í auglýsingum. Meira um auglýsingar: Í Ríkissjónvarpi (04.04.2013) var auglýsing gegn áfengisneyslu. Móðir með rauðvínsglas við hendina að leiðbeina barni sínu. Í næstu auglýsingu var fólk hvatt til bjórdrykkju. Oft, – mjög oft, er eins og auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins sé ekki sjálfrátt. Fyrir nú utan það að bjórauglýsingar eru lögbrot sem Ríkissjónvarpið fremur óátalið af hálfu þeirra sem bera ábyrgð á rekstri þess.

Nú vilja reiðareksmenn að tekin verði upp í íslensku sem gott og gilt mál sögnina að læka (e. like) að geðjast að eða líka við eitthvað. Eigum við ekki að ganga lengra og taka líka up sögnina að meika ( e. make) og kannski líka að teika (e. take)? Slanguryrði að teika var notað í gamla daga þegar strákar iðkuðu þann hættulega sið að hanga aftan í bílum í snjó og hálku. Það er reyndar löngu horfið úr málinu. Svo er bara fyrir málfræðiprófessorana að löggilda næs og bjútifúl sem hluta af hinu ástkæra, ylhýra. Morgunblaðið leggur málinu lið (05.04.2013) með fyrirsögn um poppsöngvara, – ,,Fabjúlöss” frá fæðingu!

Svolítið hallærislegt að háskólaprófessor, leiðtogi Lýðræðisvaktarinnar svo kölluðu, skyldi í umræðuþættinum í Ríkissjónvarpi (04.04.2013) ekki gera greinarmun á húsi (húsnæði) og heimili.

Í fréttum Stöðvar tvö (05.04.2013) um að ef til vill verði byggingar Sementsverksmiðjunnar á Akranesi jafnaðar við jörðu var sagt: ,… ef skilyrðum um framleiðslu hjá verksmiðjunni verður ekki uppfyllt. Hefði átt að vera : … ef skilyrði um framleiðslu hjá verksmiðjunni verða ekki uppfyllt. Eða: … ef skilyrðum verður ekki fullnægt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    „Maður hlýtur að hafa eitthvað við höndina (þf.) ekki hendina (þgf.)“
    Nú er það svo að bæði -höndina- og -hendina- er þolfallsmynd af -hönd-. Þágufall væri -höndinni- -hendinni- Sjá um þetta http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=h%C3%B6nd

  2. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    PS. Í sambandi við þessa hugmynd að sögn, að þókna í þessu tilfelli, má benda á sögninaað iðra/iðrast. Í germynd er hún ópersónuleg (mig iðrar þess) en í miðmynd er hún persónuleg (ég iðrast þess). Hins vegar lýtur sögnin að þóknast sömu lögmálum og að líka, dáma og geðjast. Hún er ópersónuleg, stýrist af þágufalli. „Gerðu sem þér þóknast.“ Af hverju væri ekki hægt að snúa lögmálinu við um þessa sögn í þessu ákveðna samhengi? Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson. (Örstutt viðbót, má fylgja.)

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Þorgils Hlynur. Má ekki nafnið þitt fylgja með?

  4. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll Eiður. Enn og aftur má þakka fyrir pistla þína og skemmtilegt er að lesa viðbrögð annarra vegna þeirra. Ég er ekki sáttur við þessa nýju sögn sem málfræðiprófessorinn telur sig þurfa að lýsa velþóknun yfir um að gefa þumal (þumla) eða lýsa yfir velþóknun á fésbókinni (svo) sem ég kýs reyndar að kalla einfaldlega ásjónuna. Þessi sögn er einfaldlega að „læka“. Ég tek þar með undir þá gagnrýni sem í pistlinum kemur fram. Ég ræddi þetta mál um daginn við góðan vin, sem einnig er mikill íslenskumaður. Hann benti mér á að þetta orð ætti sér ekkert rímorð í íslensku. „Hvaða rammíslenska sagnorð rímar á móti að læka,“ spurði hann mig. Okkur varð báðum svarafátt. Eftir dálitla umhugsun sagði hann: „Skárra hefði verið að taka upp sögnina að lækja. Orð eins og að sækja, rækja og hrækja ríma við það.“ Ég tók svo sem undir það, en benti á, eins og hann veit raunar, að þarna hef ég notað sögnina að þumla (eða gefa þumal) — fyrir utan að „þumal á það“ stuðlar í stað þess að segja „læk á það“ eins og jafnan tíðkast. Önnur góð manneskja spurði mig hvernig hægt væri að lýsa yfir vanþóknun, þannig að þumallinn sneri niður. Ég varð lengi hugsi yfir þessu, en gæti svarað því svo, ef til vill meira í gríni, að gefa fingurinn eða gefa puttann — án þess að þurfa að taka fram um hvaða fingur er að ræða!!! (Þetta er spaug, reyndar.) En í alvöru talað, þá mætti velta fyrir sér sögninni að þókna — sem nýyrði, í dag er hún ekki til nema í miðmynd að þóknast; ég þókna þetta (lýsi yfir velþóknun) og þá sem andstæðu að vanþókna, sem skýrir sig sjálf. Þarna eru komnar tvær, nýjar, rammíslenskar sagnir yfir þetta fyrirbæri, „að læka“, að þumla og þókna. Fólk þarf bara aðeins að hugsa.
    Svo er það um frétt Stöðvar 2 frá 5. apríl. Væri ekki líka hægt að sleppa smáorðinu ef og segja einfaldlega „verði skilyrðum ekki fullnægt“?
    Í þriðja lagi hef ég velt enska orðinu „leggings“ fyrir mér yfir þessa ágætu kvenflík og mæli frekar með því að hún (flíkin) verði kölluð leggingar. Nú er sem sagt búið að ákveða að leggings sé kvenkynsorð. fleirtölu. Af hverju ekki leggingar?
    Með kærri kveðju og þökkum, Þorgils Hlynur Þorbergsson. (PS. Bréfið, eða brot úr því, má birta að vild).

  5. Alexander skrifar:

    Maður hlýtur að hafa eitthvað við höndina (þf.) ekki hendina (þgf.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>