Sífellt er verið að rugla orðatiltækjum saman eða fara rangt með orðasambönd, sem eru föst í málinu. Hér eru tvö dæmi (21.04.) af bloggsíðum afkastabloggara á Moggabloggi. „ Í þetta sinn spyrni ég ákveðnum framboðum saman .“ Það er endaleysa að tala um að spyrna einhverju saman. Sé þetta innsláttarvilla og skrifari hafi ætlað að skrifa spyrða saman , þá er þetta líka rangt því talað er um að spyrða eitthvað saman, (upphaflega að binda fiska saman á sporðunum með spyrðubandi), ekki spyrða einhverju saman. Að þessu hefur verið vikið áður í Molum.
Hitt dæmið er af bloggsíðu þar sem talað er um að „sendiherra ESB sé að ganga hagsmuna Brusselvaldsins alræmda.“ Bloggarinn eignar þessi orð reyndar Birni Bjarnasyni alþingismanni ( fram á laugardag) og fyrrverandi ráðherra. Það er rangt. Björn Bjarnason skrifar vandað mál og léti svona ambögu aldrei frá sér fara. Það er ekki talað um að ganga hagsmuna einhvers. Það er talað um að reka erindi einhvers, að vinna fyrir einhvern eða gæta hagsmuna einhvers, vernda málstað hans eða gæta þess að ekki sé gengið á hlut hans. Einnnig má tala um að ganga erindi fyrir einhvern. Að ganga erinda sinna er hinsvegar svolítið annað. Það á að gera sömu kröfur um vandað málfar á bloggi og í blaðagreinum.
Svo vil ég undir lokin taka undir hvert orð sem Atli Rúnar Halldórsson skrifaði í bloggi sínu (19.04.) um Framsóknarbullið um „leiðréttingu“ lána og fáránlega málnotkun Sjálfstæðisflokksins sem bauð fólki í „ bröns“. Síðasttalda orðið er enskusletta. Á ensku er talað um „brunch“ (breakfast/lunch). Gott væri ef einhver fyndi nothæft orð á íslensku um máltíð sem er bæði morgunverður og hádegisverður. Dagverður ? Dögurður ? Máltíð af þessu tagi er oft á sunnudögum. Sunnudagssnarl ? Væri ég ekki sá tölvuglópur sem ég er mundi ég búa til krækju hér á þessa færslu Atla Rúnars. Kosningabarátta leysir stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn ekki undan þeirri skyldu að tala mannamál.
Gleðilegt sumar !
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
baldvin berndsen skrifar:
23/04/2009 at 12:10 (UTC 1)
Gleðilegt sumar ! Varðandi ávarp í upphafi bréfs, þá eru bæði röng ! Réttara er: Sæll Jón,
kveðjur,
Baldvin
Eygló skrifar:
23/04/2009 at 01:20 (UTC 1)
Í gamla daga var kennt að nota kommu á eftir ávarpi, eins og þarna. Núna er reglan (aðeins einfölduð): Aldrei skrifa kommu nema þegar „fjarvera“ hennar gæti valdið misskilningi á innihaldi. M.a.s. má/á sleppa kommum um aukasetningar.
Gunnar skrifar:
23/04/2009 at 01:10 (UTC 1)
Ég þakka fyrir góða og gagnlega pistla.
Ein spurning til málfróðra manna: Hvort er réttara sem ávarp í upphafi bréfs?
1. Sæll Jón.
2. Sæll, Jón.
Steini Briem skrifar:
23/04/2009 at 00:37 (UTC 1)
Mín tillaga er hábítur, dregið af orðunum hádegismatur og árbítur (morgunmatur).
Dæmi: Guðlaugur Þór fékk nábít þegar hann snæddi hábítinn í boði FL Group.
Gleðilegt sumar!