Alkunna er að orð hafa stundum gjörólíka merkingu í eintölu og fleirtölu. Bjarni Sigtryggsson, áhugamaður um móðurmálið, sendi Molum eftirfarandi:
„Íslendingar eru átakaþjóð og vinna oft þrekvirki í skorpum. En fleirtölumynd þessa orðs hefur aðra merkingu og því brá mér er ég heyrði í upphafi þáttarins Samfélagið í nærmynd á Rás 1 á mánudag komist svo að orði:
„Kvenfélagasamband Íslands og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi hafa
nú hafið átök um söfnun og varðveislu skjalasafna kvenfélaganna…“
Ég sé fyrir mér harða baráttu.“ Takk fyrir þetta,Bjarni. Gaman væri að fá fleiri athugasemdir, og dæmi, frá þeim sem lesa þessa pistla.
Það er farið að harðna á dalnum hjá RÚV þegar umsjónarmenn tónlistarþátta (KK 22.04.) geta ekki farið rétt með nafn hins kunna og fjölhæfa útvarpsmanns Jónasar Jónassonar. Sami umsjónarmaður kynnti kínverskt lag með ensku heiti og kínversku. Hann hefði að skaðlausu mátt sleppa enskunni og segja í staðinn fyrir „Riding a Bicycle in Spring,“ „Hjólaferð að vori.“
Það er ótrúlegt hve oft sömu villurnar heyrast í ljósvakamiðlum. Gestur á Rás tvö sagði (22.04.) í morgun: „… vona að þeim beri gæfu til…“ Hefði að sjálfsögðu átt að segja, að þeir beri gæfu til. Sami maður sagði svo: „… börnin blæða…“ Börnunum blæðir, hefði hann betur sagt. Í gamla daga, veit ekki hvort svo er enn, þýddi sögnin að blæða, að borga eða splæsa, sem var annað slanguryrði. „Hann var blankur, svo ég varð að blæða.“ „Ég splæsti á hann kaffi og tertu.“
Aðeins meira um Rás tvö. Ég gaf mér svolítinn tíma til að hlusta á morgunútvarp Rásar tvö (22.04.). Á stuttri stundu tókst umsjónarmanni að fara rangt með nafn væntanlegs gests (Hjálmtýr, ekki Hjálmar) og rugla saman milljónum og milljörðum. Svo var sitt af hverju athugavert við upptalninguna á atburðum, sem áttu að hafa gerst þennan dag á árum eða öldum áður. Þarna þarf aukna vandvirkni, eins og áður hefur verið bent á. Það voru alltof margar ambögur í máli umsjónarmanns (GG). Ríkisútvarpið hefur lögbundnar skyldur við tunguna. Það á ekki gera minni kröfur til málfars á Rás tvö en gert er á Rás eitt.
Fyrir nokkrum dögum lá leið Molahöfundar um fréttastofu RÚV. Þar voru þá starfsmenn þýskrar sjónvarpsstöðvar að taka viðtal við Ingóllf Bjarna Sigfússon um landsmálin, á þýsku. Samtímis voru starfsmenn ítalskrar sjónvarpsstöðvar að ræða, á ítölsku, við Þóru Arnórsdóttur. Nöfnu hennar Tómasdóttur hef ég heyrt tala gullfallega norsku. Gott er að RÚV skuli hafa á að skipa svo vel menntuðu og reyndu starfsfólki. Þetta fannst mér flott.
9 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
24/04/2009 at 22:25 (UTC 1)
Ég er sammála Birni um fyrir löngu og í Reykjavík. Ekki síðan og ekki staðsett. Hef ekki hugleitt þetta með þing og Alþingi,sem Adolf Örn nefnir. Í mínum huga beygjast þessi orð eins og þú greinir. Mér finnst líka eðlilegra að segja í gærkvöldi (kveldi) en í gærkvöld. Mér finnst það fallegra og held það sé réttara. Það er auðvitað rétt sem Sæmundur segir að sumt af því sem hér er tínt til séu smáatriði. Smáatriðin skipta líka máli þegar rætt er um málfar. En munið, góðir hálsar, að Molahöfundur er enginn Hæstiréttur í málfarsefnum, heldur aðeins leikmaður sem lætur sér annt um tunguna.
Sæmundur Bjarnason skrifar:
24/04/2009 at 22:04 (UTC 1)
Þetta með átökin er fyndið en um leið grátlegt. Er það virkilega svo að skilningur fólks á tungumálinu sé svona átakanlega lítill?
Takk fyrir pistlana, Eiður. Sumt af því sem þú minnist á eða aðrir í athugasemdum hjá þér finnst mér þó svo líitilvægt að varla taki að minnast á það. Mér finnst kröfur eigi að vera mestar á útbreidda fjölmiðla og allramestar á auglýsingar í þeim. Auðvitað er mitt álit þó bara mitt álit.
Adolf Örn Kristjánsson skrifar:
24/04/2009 at 20:27 (UTC 1)
Sæll Eiður
Ég vil þakka þér fyrir ágæta pistla sem þú skrifar um okkar ástkæra tungumál. Mig langar, í aðdraganda kosninga, að fá þína skoðun á orðinu „þing“. Í mínum barnaskólalærdómi beygðist það: þing, þing, þingi, þings. Skoðum sínam samsetta orðið „Alþing“ sem einhverra hluta vegna beygist í daglegri umræðu á annan hátt, eða: Alþingi, alþingi, alþingi, alþingis !! Skrítið … hvað finnst þér? Annað sem sker í mín viðkvæmu eyru og veldur því að ég á bágt með að festa hugan við fréttalestur ljósvakamiðla, þegar fréttaþulir segja frá atburðum sem gerðust í „gærkvöld“ í staðin fyrir gærkvöldi eða „síðastliðnu fimmtudagskvöldi“
Kv. Adolf Örn
Bergur Ísleifsson skrifar:
24/04/2009 at 18:31 (UTC 1)
Já, stikla er orðið sem ég var að leita að. Nota það hér eftir. Takk.
Magnús Axelsson skrifar:
24/04/2009 at 15:50 (UTC 1)
Mér finnst ég hafa heyrt orðið „stikla“ notað yfir „trailer“. Gæti nú verið misminni en hljómar fínt, enda er þar stiklað á stóru í söguþræði myndarinnar.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
24/04/2009 at 15:35 (UTC 1)
apótekaranum=lyfjafræðingnum
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
24/04/2009 at 15:27 (UTC 1)
Takk fyrir mig. Mér finnast sumar slettur skemmtilegar þótt þær eigi kannski ekki rétt á sér að mati okkar hreintungusinna. Við Bjarni vorum andbýlingar forðum daga og höfum hugsanlega lært eitthvað af apótekjaranum sem bjó á milli okkar.
Steini Briem skrifar:
24/04/2009 at 13:13 (UTC 1)
Bergur Ísleifsson, ég legg til innsýn í staðinn fyrir trailer.
Dæmi: Hér er innsýn í kvikmyndina Dansinn í Hruna með stórleikaranum Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni.
Bergur Ísleifsson skrifar:
24/04/2009 at 11:27 (UTC 1)
Sæll, Eiður, og þakka þér fyrir þessa pistla um íslenskt málfar.
Mig langar til að athuga hvort þú eða einhverjir lesenda þinna geti komið með gott orð í stað enska orðsins „trailer“ sem notað er yfir sýnishorn úr kvikmyndum.
Á bloggíðu minni hef ég m.a. gaman af að setja inn nýja „trailera“ úr nýjum kvikmyndum en það fer óneitanlega dálítið fyrir brjóstið á mér að þurfa að nota enskuna. Mér finnst nefnilega orðið „sýnishorn“ ekki heldur nógu gott orð yfir þetta.
Einhverjar tillögur – einhver?