«

»

Molar um málfar og miðla 1190

 

Í Fréttablaðinu  (23.04.2013) var talað um Hellisgerðisgarð í Hafnarfirði. Molaskrifari hefur ekki heyrt það áður. Nægt hefur að tala um Hellisgerði og allir vita við hvað er átt. Hvað segja Hafnfirðingar?

 

Klukkan 2100 að kveldi sumardagsins fyrsta (25.04.2013) sýndi Ríkissjónvarpið þátt sem var bannaður börnum. Klukkan 2145 sama kvöld  sýndi Ríkissjónvarpið svo þátt sem var stranglega bannaður börnum. Undarleg dagskrárgerð.

 

Í fréttum Ríkisútvarpsins er stundum ( t.d.í hádegi 23.04.2013)  talað um endalínu eða endamark í maraþonhlaupinu í Boston. Sumir fréttamenn tala réttilega um marklínu.

 

Guðbjörg María Jósepsdóttir skrifar (23.04.2013): Sæll Eiður, 
mig langar að benda þér á eitt sem ég fann á mbl.is:
http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/04/21/ulirnir_bokstaflega_sprungu_ur_hlatri/
Mig fýsir líka að vita hvað þér finnst um „að koma til með að“. Foreldrar mínir fussa og sveia alltaf þegar einhver segir þetta og enn meira ef þau heyra „ég mun koma til með að“. 
Það er svo gaman og fræðandi að lesa pistlana þína. Allir ættu að lesa þá. 
Bestu kveðjur,
Guðbjörg María

Molaskrifari þakkar Guðbjörgu bréfið.  Hann fussar líka og sveiar þegar hann heyrir þetta orðalag.

 

…sem eru grunaðir um að myrða lögreglumann fyrir helgi, var sagt í fréttum Ríkisútvarps (23.04.2013). Hefur líklega átt að vera: … sem eru grunaðir um að hafa myrt lögreglumann fyrir helgi.

 

  Athyglisverður pistill Sigrúnar Davíðsdóttur í Spegli Ríkisútvarpsins (23.04.2013) þar sem hún ræddi um hlutskipti ,,litlu hluthafanna” sem töpuðu öllu  hlutafé sínu þegar  stóru bankarnir þrír, Kaupþing, Glitnir og Landsbanki  féllu. Það hefur lítið verið rætt um málefni þessa hóps.

 

Margrét Brynjólfsdóttir skrifaði Molum (22.04.2013): ,,Sæll…. ég les oft pistlana þína, hef gaman af. Ég leit yfir mbl.is í morgun og sá þar setningu sem mig langar að vekja athygli á: 
„Kim Kardashian viðurkenndi á dögunum að hún allt annað en nyti meðgöngunnar“
Gaman að vita hvað þér finnst um þetta.” Ég hefði hnotið um þetta líka. Það er ekki mikil reisn yfir þessu orðalagi!

Að kveldi síðasta vetrardags  hlýddi Molaskrifari á hluta samtals  þeirra Kjartans Gunnarssonar fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins  og Björns Bjarnasonar fv. ráðherra í þætti Björns á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Fróðlegt samtal um sumt, enda báðir greindir og gamalreyndir refir  á sviði stjórnmálanna. Þeir fóru vítt og breitt yfir sviðið.

Ekki heyrði Molaskrifari þó minnst að aðför Hönnu Birnu-klíkunnar að  Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Má vera að það hafi gert í þeim hluta  þáttarins sem hann ekki heyrði. Þeir rifjuðu upp sigur Davíðs Oddssonar þegar hann bjó til kosningabombu um  stórhættulegt sprungusvæði við Rauðavatn  þar sem vondur vinstri meirihluti í Reykjavík ætlaði að úthluta lóðum.

Það svínvirkaði og  Davíð vann  borgina með glæsibrag.  Þetta var hinsvegar reykbomba og það vissi Davíð vel.  Ekkert  meiri hætta þarna  en  víða annarsstaðar í borgarlandinu.  Andstæðingar Sjálfstæðuflokksins urðu svo hræddir að þeir gleymdu að spyrja jarðfræðinga hvort þetta væri rétt hjá Davíð!  Davíð vissi alveg hvað hann var að gera og situr   nú klofvega á  sprungunni  hættulegu í Hádegismóahöll Moggans og  skrifar þaðan leiðara, Staksteina og   Reykjavíkurbréf.  Samtalið einkenndist annars af hatri og heift í garð fráfarandi ríkisstjórnar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>