«

»

Molar um málfar og miðla 1189

Það var dálítið á reiki í fréttum Ríkissjónvarps um nýja íbúðabyggð (21.04.2013) við Reykjavíkurflugvöll hvort um var að ræða 800 íbúa byggð eða 800 íbúða byggð. Á því er talsverður munur. Sennilega var átt við það síðarnefnda, en þetta kom ekki skýrt fram.
Síðan verður þróunin sú að fólk byggir og kaupir íbúðir rétt við flugvöllinn og veit alveg að hverju það gengur en byrjar svo fljótt að kvarta yfir ónæði frá flugvellinum. Gömul saga og ný. Til er grínregla um skipulagsmál á ensku, sem kölluð er bananareglan. Hún er svona: Build absolutely nothing near anything, anywhere. Eða: Byggðu ekki neitt nálægt neinu neins staðar!

Nú er okkur hótað Hraðfréttabulli í kosningasjónvarpinu í Ríkissjónvarpinu. Kannski verður maður bara að horfa á Stöð tvö.

Eitthvað hefur hér skolast til í Morgunblaðinu (22.04.2013): … en hún undi sér ávallt best í heimahögum sínum í þorpinu Brora sem stendur við margar af þekktustu veiðiám Skotlands. Áhugavert þorp.

,, … menn verða að geta treyst því að skipulög standist”, sagði bæjarstjóri Garðabæjar í frétt í Morgunblaðinu (22.04.2013). Orðið skipulag er ekki til í fleirtölu og ekki finnanlegt í fleirtölu á vef Árnastofnunar.

Í fréttum Stöðvar tvö (22.04.2013) var talað um að forseti Íslands mundi veita þeim stjórnarmyndun sem líklegastur væri til að mynda starfhæfa stjórn. Þetta er ekki mjög vel orðað. Rétt hefði verið að tala um að fela e-m stjórnarmyndun eða veita einhverjum umboð til stjórnarmyndunar. Ekki veita e-m stjórnarmyndun. Engin hugsun í því orðalagi.

Munu halda áfram að veita vopn, segir í fyrirsögn á mbl.is (22.03.2013). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/04/22/munu_halda_afram_ad_veita_vopn/ Molaskrifari hefur aldrei heyrt talað um að veita vopn. Átt er við þá sem senda uppreisnarmönnum í Sýrlandi vopn.

Á tveimur stöðum í sama tölublaði DV (22.04.2013) sannar blaðamaðurinn Íris Björk Jónsdóttir að hún skilur ekki merkingarmun sagnanna að kaupa og að vesla. Í viðtali hefur hún eftir viðmælanda: ,,Ég versla mér yfirleitt eitthvað frá …”. Á bls. 23 skrifar hún: ,, … og allir yfir sig glaðir að geta verslað hönnun Birtu aftur í verslun hérlendis.” Molaskrifari leggur til að ritstjóri DV kenni blaðamanninum merkingarmun þessara tveggja sagnorða, eða fái henni annað starf sem hún ræður betur við en að skrifa fréttir fyrir lesendur DV.

Næstu Molar á föstudag.
Gleðilegt sumar, ágætu lesendur, og þökk fyrir samstarfið á liðnum vetri.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt athugað, félagi. Önnur útgáfa af sögunni um hvort tveggja er að kassadaman hafi spurt þann sem var á mæsta kassa: Eigum við til hvort tveggja?

  2. Þórarinn Guðnason skrifar:

    Líklega er orðasamsetningin hvort tveggja eða hvorutveggja að hverfa úr máli margra landa okkar. Það kom mér ekki sérlega á óvart þegar ég leit í Fréttablaðið í morgun, að undir liðnum Frá degi til dags sem undirritaður er: kolbeinn@frettabladid, mátti sjá þetta: Þá er hann í Reykjavík titlaður vélsmíðanemi en í Norðvesturkjördæmi kerfisfræðingur. Bæði mun vera rétt. DV sagði frá þessu….
    Og sennilega hafa margir heyrt flökkusögn um manninn sem kom að kassanum í kjörbúð með tvennt af sömu vöru en með misháu verði. Ég ætla að fá hvort tveggja, sagði maðurinn við stúlkuna við kassann sem skildi ekki hvað hann var að fara. Hún leit vandræðalega til félaga sins á næsta kassa sem heyrt hafði orðaskiptin og hann svaraði að bragði: hann meinar bæði, – ég lenti í þessu í gær!

  3. Eiður skrifar:

    Sammála þér, Sigurður.

  4. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Langar að senda þér eftirfarandi hugleiðingu:

    Oft er talað um í ræðu og riti að þessi eða hinn, “ starfi sem“ lögfræðingur, læknir, kennari o.s.frv.
    Afhverju ekki bara: Hann er lögfræðingur hjá ASÍ, kennari í Fellaskóla, eða læknir á Landspítalanum?
    Mér finnst þegar talað er um að þessi eða hinn „starfi sem“ eitthvað – þá hjómi það eins og viðkomandi sé ekki menntaður til starfans, heldur „starfi sem“ kennari, en sé það ekki.

    Gaman væri að vita hvort einhver væri mér sammála?

    Annars takk fyrir áhugaverða pistla.

  5. Kristján skrifar:

    „Nú er okkur hótað Hraðfréttabulli í kosningasjónvarpinu í Ríkissjónvarpinu. Kannski verður maður bara að horfa á Stöð tvö.“

    Tek undir þetta. Ólafur Þ. Harðarson togar mann þó líklega til baka.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>