«

»

Molar um málfar og miðla 1188

Oft dáist Molaskrifari að því hve fjölfróðir og stálminnugir margir þeirra eru sem koma fram fyrir hönd sinna heimabyggða í Útsvari Ríkissjónvarps. En þegar spurt var um forsætisráðherra Breta við upphaf fyrri heimsstyrjaldar og nefndir voru til sögu Neville Chamberlain og Sir Alec Douglas Home, hvarflaði að Molaskrifara hvort það geti verið að sögukennslu í skólakerfi okkar sé ábótavant.

Kínverska sjónvarpið CCTV , China Central Television, féll í gærkveldi (22.04.2013) í sömu gryfju og góðir og gegnir íslenskir blaðamenn hafa einnig hafnað í. Verið var að fjalla um Konunglegu kanadísku riddaralögregluna, Royal Canadian Mounted Police. Í skjátexta var riddaralögreglan kölluð Canadian Mountain Police, kanadíska fjallalögreglan ! Molaskrifari hélt þetta missýn og leitaði fréttina uppi í spjaldtölvunni, – fljótlegt. Jú, fjallalögregla var það hjá Kínverjum ! Einhver fræg dæmi úr sögu íslenskrar blaðamennsku munu finnast um þessa sömu villu. En þarna er sem sagt um alþjóðlega villutilheigingu að ræða!

Af mbl.is (20.04.2013): ,,Á meðan þá tapar slökkviliðið stórfé og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu blæða vegna þess að það er ekki búið að ganga frá þessum samningi,“ segir bæjarstjóri Garðabæjar …”
Bæjarstjórinn á sennilega við að sveitarfélögunum blæði en ekki að sveitarfélögin blæði. Sveitarfélögin bíða tjón.

Sennilega tekst niðursoðnu konuröddinni sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins að komast í gegnum alla fjórtán (?) eða svo þættina Forystusætið án þess að kynna nokkurn tíma með nafni þann sem situr fyrir svörum. Það er afrek út af fyrir sig, en kannski ekkert til að vera hreykinn af. Dæmalaust klúður. – En hvers vegna er nauðsynlegt að kynna sjónvarpsdagskrána með ýktum leikrænum tilþrifum? Svona kynningar tíðkast hvergi, það Molaskrifari þekkir til. Það er nóg af góðum þulum á rás eitt.

Í fréttum Stöðvar tvö (20.04.2013) var sagt frá málum sem borið höfðu hátt. Molaskrifari hefði sagt, – málum sem borið hafði hátt.

Á skjáskilti í fréttum Ríkissjónvarps (20.04.2013) var sagt: Sæbjúgusúpa best. Sama orðalag var notað í fyrirsögn á mbl.is. Hefði átt að vera : Sæbjúgnasúpa best. Samskonar orðalag hefur sést víðar. Sennilega smitandi.

Að minnsta kosti tíu þúsund heimili hrundu var sagt í fréttum af jarðskjálfta austur í Kína í fréttum Ríkissjónvarps (20.04.2013) Líklega var átt við hús frekar en heimili.

Þakkarvert að fréttastofa Ríkisútvarps skyldi í sjónvarpsfréttum (20.04.2013). sýna okkur endalaust rugl stjórnenda Reykjavíkurborgar í kringum samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli. Dæmalaus kjánagangur kjörinna fulltrúa í höfuðborginni.

Áhrifamikið viðtal Jóhannesar Kr, Kristjánssonar við móður ungs fíkniefnaneytanda í Kastljósi á mánudagskvöld (22.04.2013). Þessi mál eru í ólestri hjá okkur.

Ef frægur kvikmyndaleikari lætur svo lítið að tylla niður tánni á Íslandi, eða hann flækist hingað í nokkra daga vegna vinnu sinnar er hann umsvifalaust orðinn Íslandsvinur í öllum fjölmiðlum. Hvað veldur þessu? Gömul minnimáttarkennd? Sennilega.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Axel skrifar:

    Æ, Sesselja. Þessar stúlkur úr Versló virtust nú bara mjög heilsteyptar,hugmyndaríkar og ágætlega menntaðar. Það getur verið stressandi að koma fram í sjónvarpi og bara eðlilegt að hökta þegar koma þarf orðunum út úr sér. Hættum þessu væli.

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    „Canadian Mounted Police“.

    Í hinni frábæru bók „True Grit“, eftir Charles Porter, segir Roster við LaBoeuf:

    „How long have you boys been mounted on sheep down there“?

  3. Sesselja Guðmundsdóttir skrifar:

    Daginn. Hlustaði á Frumkvöðla á ÍNN í gærkvöldi, viðtal við Verslunarskólastúlkur. Ein sagði: ‘Hann búði svo um sárið’ og önnur sagði: ‘Þegar við vorum að tjalda niður [taka niður tjald] fann ég upptakarann’. Góð menntun?!
    Kv.

  4. Guðrún Þórðardóttir skrifar:

    Oft sammála því sem Molaskrifari agnúast út í. Ekki þó alltaf. Sé til dæmis ekki ástæðu til að ‘sæbjúgusúpa’ eigi að heita ‘sæbjúgnasúpa’. Segjum við ekki t.d. ‘rækjusalat’, ekki ‘ræknasalat’, ‘fiskisúpa’, ekki ‘fiskasúpa’, ‘brauðsúpa’, ekki ‘brauðasúpa’ og þannig mætti lengi telja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>