«

»

Molar um málfar og miðla 1187

Af visir.is (18.04.2013): … sagði Björn þegar hann var inntur um stöðu málsins. Björn gerði ráð fyrir því að kæran yrði dregin til baka og frekari eftirmálar yrðu ekki af hans hálfu. – Tvær villur í tveimur línum. Ekki inntur um, heldur inntur eftir. Ekki eftirmálar ( sem eru lokaorð í bókarlok) heldur eftirmál sem eru afleiðingar af einhverju.

Undarlegt orðalag í hádegisfréttum Ríkisútvarps (18.04.2013). Auk þess hefur utan kjörfundi borist ríflega 800 atkvæði frá sendiráðum ….. Hver er þessi utan kjörfundi? Einfalt og skýrt hefði verið að segja: Auk þess hafa borist 800 utankjörstaðaratkvæði frá sendiráðum …

Í neðanmálstexta í kynningu á þáttaröðinni Spilaborg (House of Cards) í Ríkissjónvarpsins (18.04.2013) er starfsheiti utanríkisráðherra Bandaríkjanna Secretary of State ranglega þýtt sem innanríkisráðherra.

Úr DV (19.04.2013): Stefna Gunnlaugs Sigmundssonar og eiginkonu hans gegn Teiti Atlasyni var vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur … Æ algengara að sjá villur af þessu tagi. Stefnu … var vísað frá dómi …

Molaskrifari hrökk frá hlustun á Rás tvö á föstudagsmorgni (19.04.2013) þegar hann heyrði ekki betur en svokallaður slúðurfréttaritari Ríkisútvarpsins vestanhafs segði: Það er eiginlega hvert áfallið á fætur annarri hérna…. Ja, hérna. Vonandi var þetta misheyrn, en þarna fljúga ambögurnar reyndar um ljósvakann á hverjum föstudagsmorgni.

Lesandi bendir á þessa á þessa frétt á mbl.is (19.04.2013) Átti yfir þúsund stolin kortanúmer http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/19/atti_yfir_thusund_stolin_kortanumer/ og segir: „Ég sé ekki hvernig „þjófurinn“ getur átt þýfið, þótt það kunni að vera í hans vörslu!“ – Það er laukrétt!

Á hvað leggur þinn flokkur áherslu á? Svona spurði fréttamaður Stöðvar tvö í kosningaþætti á föstudagskvöld (19.04.2013). Á hvað leggur flokkur þinn áherslu,eða hvað leggur flokkur þinn áherslu á hefði dugað. Sami fréttamaður sagðu við einn þátttakenda: Þú kemur frá Grindavík. Þetta er orðin lenska í fjölmiðlum. Þú kemur frá Akureyri. Þú kemur frá Borgarnesi. Fréttamaður átti við: Þú ert frá Girndavík. Heldur er þetta hvimleið nýbreytni og ekki til bóta.

Í fréttayfirlit við upphaf og lok frétta Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (19.04.2013) var talað um flugfélög sem þjónuðu innanlandsflugi. Eðlilegra hefði verið að tala um flugfélög sem sinntu innanlandsflugi. Þetta var ágætlega orðað í sjálfri fréttinni.
Góður pistill um lífræna ræktun og athyglisvert starf í Skaftholti í Landanum á sunnudagskvöld (231.04.2013)
Magnaður lokaþáttur Ferðaloka, Heiður Gísla Súrssonar, í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (21.04.2013). Takk fyrir það.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>