«

»

Molar um málfar og miðla 1186

Í Kiljunni (17.04.2013) var aftur og aftur talað um konsept. Þetta var í viðtali vegna bókar sem vart getur talist tímamótaverk og átti kannski varla erindi í þáttinn. Hversvegna þurftu bæði Egill Helgason og höfundur að tönnlast á þessari slettu?

Í þættinum Forystusætinu (17.04.2013) var rætt við formann Hægri Grænna sem hvorki má kjósa né keyra bíl á Íslandi. Hann virti ekki íslensk lög en vildi komast á þing til að setja þjóðinni lög og segist vera ráðherraefni! Hann sagði m.a.: Helsta vandamálið er skuldamál heimilanna og við erum með lausn fyrir honum! – Ráðherraefnið var með lausn á hverjum fingri. Það er dálítið merkilegt að enginn fjölmiðill skuli hafa kannað feril hans m.a. þegar hann sinnti fjárfestingum og verðbréfasölu.

Gunnar skrifar (18.04.2013) Einhvern veginn grunar mig, að í sprengjur séu frekar notaðar legukúlur en heilar kúlulegur: http://www.dv.is/frettir/2013/4/17/naglar-naelon-og-kululegur-i-sprengjunum/ – Sennilega rétt tilgáta.
.
123 tonn af makríl. Þessi fyrirsögn var á fréttavefnum visir.is á fimmtudag (18.04.2013) http://visir.is/123-tonn-af-makril/article/2013130419129 . Í fréttinni kom hinsvegar fram að átt var við 123 þúsund tonn af makríl, sem er dálítið annað. Hvernig gerast svona slys? Les enginn? Hugsar enginn?

HJ skrifar (18.04.2013): ,,Sæll Eiður,
nú kl. 9.45 eða um einni og hálfri klukkustund síðan frétt Vísis var birt stendur textinn enn svona:

,,Engan sakaði þegar sumarbústaður, ofarlega í Noðrurárdal í Brogarfirði, eyðilagðist í eldi í nótt.

Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað á vettvang og var bústaðurinn alelda þegar það kom á staðinn. Slökkvistarfið tók nokkurn tíma en bústaðurinn er talinn ónýtur. Eigandinn var úti við þegar eldurinn kviknaði og er enn vitað um eldsupptök. Snjór á jörðu kom í veg fyrir að eldurin læsti sig í gróður.—“

Þarna má með góðu móti telja fimm villur og ef til vill eru þær fleiri. Hvernig stendur á því að svona texti fær að standa í eina og hálfa klukkustund, ef hann verður þá yfirleitt lagaður?

Er þetta metnaðarleysi eða virðingarleysi fyrir lesendum?

http://www.visir.is/sumarbustadur-brennur/article/2013130419132”
Nema hvort tveggja sé.
Ágúst sendi þessa frétt af textavarpinu (17.04.2013): ,,Kaffistofa Samhjálpar hlaut Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins sem afhent voru í dag. Kaffistofan, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1982, býður utangarðsfólki og aðstöðulausum mat og kaffi. Hún fær um 40 þúsund heimsóknir á ári.
Við sama tilefni voru aðrir verðlaunaðir. Margrét Pálmadóttir, kórstjóri, hlaut verðlaun í flokkinum „Frá kynslóð til kynslóðar“. Hvunndagshetja ársins er Sigurlaug Hermannsdóttir, sem hefur stundað félagslíf á Blönduósi af kappi. Projekt Polska hlaut verðlaun í flokkinum „Til atlögu gegn fordómum“ en hópurinn inniheldur Pólverja sem vinna að aðlögun og eflingu félagsstarfs og bættum aðstæðum innflytjenda hér á landi. Heiðursverðlaun Fréttablaðsins komu í hlut Óla H. Þórðarsonar sem hefur verið ötull talsmaður bættrar umferðarmenningar.”. Hér er svo sannarlega eitt og annað sem ástæða er til að gera athugasemdir við.
Í Molum var nýlega gerð athugasemd við orðalagið að vísa á bug, í fréttum Ríkisútvarps í merkingunni að reka út , vísa á dyr. Það var misheyrn hjá Molaskrifara. Í frétt Ríkisútvarpsins var réttilega talað um að vísa á dyr. Beðist er velvirðingar á þessu.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Trausti Harðarson skrifar:

    http://www.dv.is/frettir/2013/4/19/spyrlar-kvoldsins-voru-vantruadir-og-tortryggnir-svip-i-vidtalinu-vid-ylfu/

    Hvað er eiginlega þetta „sammæli“, sem tönnlast er á í fréttinni? Nýyrði yfir hvað?
    Eða veit greinarhöfundur ekki hvað hann er að skrifa og um hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>