«

»

Molar um málfar og miðla 1185

Svava Sigurðardóttir sendi Molaskrifara þetta athyglisverða bréf (17.04.2013):
Sæll, Eiður
Ég er að gera verkefni í íslenskri málnotkun um þýðingar í barnabókum. Ég þrengdi efnið og ákvað að skoða Disney bækur. Ég hef kynnt mér það að hjá Eddu útgáfu hafa verið endurútgefnar Disney bækur og þar er skipt út gömlum orðum sem þykja of þung. Viðskiptavinir benda á torskilin orð. Þess má geta að Edda útgáfa er ekki eina fyrirtækið sem endurútgefur bækur með breyttu orðalagi í barnabókum. Gaman væri að heyra þína skoðun á orðum sem nú þegar hefur verið breytt í Disney barnabókum. Er þetta að auka orðaforða og lesskilning barna á Íslandi?
áfjáður breytt í ákafur
hremmi breytt í klófesti
þröngt dalverpi breytt í lítinn dal
stökkt á flótta breytt í hrakið á flótta
boðaföll breytt í gusugangur
óhræsis breytt í fjárans
Kv Svava Sigurðardóttir
Molaskrifari þakkar Svövu bréfið. Honum var brugðið að lesa þetta. Útgefendur eru að breyta gömlum þýðingum af því að þeir vantreysta börnum sem lesendum og vantreysta líklega líka fullorðnu fólki til að skýra sjaldgæf orð fyrir börnum! Freysteinn Gunnarsson skólastjóri þýddi margar barnabækur. Hann skrifaði snilldarstíl. Ætla útgefendur nútímans upp á sitt eindæmi til dæmis að endurskoða þýðingar Freysteins ef þar er að finna orð eins og boðaföll, þröngt dalverpi eða óhræsis? Þetta er ósvinna.. Hvað um höfundarrétt hins upprunalega þýðanda? Hvað segja samtök þýðenda? Hvað segir menntamálaráðherra?
Það er reynsla Molaskrifara að börn séu yfirleitt sólgin í orð. Þau vilja læra og skilja ný orð. Þessi háttsemi bókaútgefenda ber vott um hrikalegt vanmat á börnum um leið og hún er atlaga að tungunni. Það á ekki að vera hlutverk þeirra sem gefa út barnabækur að vinna marvisst að því að minnka orðaforða barna. Það má eiginlega segja að þetta sé skemmdarverk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón H. Brynjólfsson skrifar:

    Fyrst Svövu þessari er svona umhugað um íslenska málnotkun vil ég beina þeirri spurningu til hennar hvort hún telji að Freysteinn Gunnarsson hafi gert verkefni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>