«

»

Molar um málfar og miðla 1184

Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, kynnti ekki þáttinn í gærkveldi (17.04.2013) þar sem rætt var við formann Hægri grænna. Bættur skaðinn, segja sumir. Konuröddin byrjaði að kynna allt annan þátt. Svo var slökkt á henni. Engin skýring. Engin afsökun. Hvenær ætlar Ríkissjónvarpið að hætta þeim subbuskap að flytja okkur gamlar kynningar þar sem engu er hægt að breyta ef eitthvað kemur upp á ??

Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (15.004.2013): Erlent | AFP | 15.4 | 12:43
Hikstalaus æfing útfarar Thatcher
Æfing fyrir útför Margaretar Thatcher í London gekk hikstalaust fyrir sig í dag. Æfingin fór fram snemma morguns í kirkju heilags Páls í London. – Hann segir: „Í mínum huga er eðlilegra að tala um hnökraleysi en hikstaleysi í þessu sambandi“. Molaskrifari bætir við: Um það þarf ekki að fjölyrða.

Önnur viðlíka fyrirsögn var á mbl. is um sama mál (16.04.2013): Big Ben þagnar fyrir Thatcher. – Klukkan fræga í turni þinghússins verður stöðvuð meðan útförin fer fram.

Í fréttum Ríkisútvarps af voðaverkunum í Boston var ýmist talað um að sprenging hefði orðið við lokalínuna (e. finishing line) ,endalínuna eða marklínuna. Eðlilegast að tala um marklínu.

Undarleg fréttamennska hjá dv.is (16.004.2013) að gera það að aðalatriði (einnig í fyrirsögn) hver sé móðir drengs sem átti bíl sem var stolið. Kjánagangur í besta falli.
http://www.dv.is/frettir/2013/4/16/bilnum-stolid-af-syni-elinar-hirst/

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (17.04.2013) var sagt frá innbroti í Reykjavík þar sem stolið hefði verið eitthvað af bjór. Hefði hér ekki verið eðlilegra að segja til dæmis að stolið hefði verið bjór eða einhverju af bjór?

Beinar útsendingar frá merkum samtímaviðburðum eru oftast nær áhugavert sjónvarpsefni. Þessvegna sýndu danska, norska og sænska sjónvarpið beint frá útför Margretar Thatchers, fyrrum forsætisráðherra Breta, í gærmorgun (17.04.2013). Það hafði ekkert með pólitík að gera. Ríkissjónvarpið okkar skilaði auðu. Þar var auður skjár. Þeir sem ráða dagskránni í Ríkissjónvarpinu hafa mestan áhuga á boltaleikjum í útlöndum.

Svo er það þetta með -r- inni í orðum. Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um góðgerðardag, – Molaskrifari hallast að því að tala hefði átt um góðgerðadag.

Í fréttum Stöðvar tvö var talað um biskupinn af London. Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um biskup Lundúna. Betra. Best: Lundúnabiskup. Svona er Molaskrifari sérvitur !

Góður pistill hjá Helga Seljan í Kastljósi í gærkveldi (17.04.2013) um Landeyjahöfn og Herjólf. Í stuttu máli er staðan svona í huga Molaskrifara: Hafnarstjóri og skipstjóri segja: Það verður að ljúka við höfnina, laga hana. Það er ekkert að Herjólfi. Bæjarstjóri Vestmannaeyinga, krefst þess að fá nýjan Herjólf sem kostar fimm milljarða. Þjóðin borgar. Siglingamálastofnun segir: Það er ekkert að höfninni. Allt kemur þetta heim og saman við það sem Molaskrifari heyrði í ferð með Herjólfi á liðnu hausti. Þá sagði skipstjórinn: Það er ekkert að þessu skipi, – það getur enst mörg ár í viðbót. Það þarf bara að laga höfnina, en það hlustar enginn á okkur. Dæmigert íslenskt mál. Enginn hlustar á þá sem vinna störfin og þekkja aðstæður manna best. Kröfugerðarmenn og ,,sérfræðingar” hafa sitt fram. Reynslan skiptir engu. Heldur dapurlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Held, Eirný, að hér sé engin föst og algild regla frekar en um svo margt annað í málinu.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Ég hef bæði séð og heyrt Frakklandsforseti og Kínaforseti.
    Samt sem áður segjum við hvorki Íslandsforseti eða Íslandsbiskup.

    Ef við segjum það ekki hvers vegna finnst okkur þá fallegt og rétt að segja og skrifa Lundúnabiskup?
    Værir þú sáttur við félagsvísindasviðsforseti? Finnst þér betra að sjá forseti félagsvísindasviðs?

    Það sem sést og heyrist getur verið rangt þó það fari vel á stundum.

    Kveðja,
    Eirný

  3. Eiður skrifar:

    Tölum við ekki um Frakklandsforseta? Hef heyrt það.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Mér finnst betra að segja biskup Lundúna, biskup Íslands og svo framvegis.
    Lundúnabiskup er sérkennilegt orð.
    Ég sé og heyri Kínaforseti en aldrei segjum við eða skrifum Íslandsforseti.

    Mér þykir rökréttara að segja og skrifa biskup Lundúna í tveimur orðum biskup annars þyrftum við að venja okkur á Frakklandsforsætisráðherra og Verkfræðistofunnar Verkísforstjóri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>