Þegar kjörstaðir verða lokaðir klukkan tíu, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps við okkur á laugardagskvöld (27.04.2013).Sami fréttamaður sagði nokkrum sekúndum seinna: …en það er ennþá eitthvað í að kjörstöðum loki ! Kjörstöðum loki! Gott væri að fá fólk sem er betur talandi en þessi dæmi sanna til að segja okkur fréttir í sjónvarpi. Það er með ólíkindum að ekki skuli hægt að segja hnökralaust frá opnun og lokun kjörstaða.
Ótrúlega smitandi virðist það vera að í stað þess að svara játandi svara menn: Algjörlega !
Trausti skrifaði og benti á þessa frétt á dv.is (26.04.2013): http://www.dv.is/frettir/2013/4/19/spyrlar-kvoldsins-voru-vantruadir-og-tortryggnir-svip-i-vidtalinu-vid-ylfu/
,,Ættum við að sammælast um að láta höfund þessarrar fréttar njóta þess sannmælis að hann hafi enga hugmynd haft um hvað hann var að skrifa?” Það er ekki fjarri lagi, segir Molaskrifari.
Í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu (25.04.2013) segir á skjánum: Kræsingar á kostakjör .. Þetta er líka lesið yfir okkur. Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins hvorki heyrir né sér augljósar villur.
Ríkissjónvarpið gerir dagskrárgerðarfólki mishátt undir höfði. Með mánaðarfyrirvara er nú byrjað að auglýsa nánast á hverjum degi þætti sem kallaðir eru Andraland og byrjað verður að sýna seint í maí. Ef þeir þættir verða að gæðum svipaðir og þættirnir um Vestur Íslendinga í fyrra, er ekki til mikils að hlakka fyrir áhorfendur að skyldurásinni.
…ætlum að fá ræða við ykkur hvernig þetta hefur verið að ganga síðustu daga, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps í umræðuþætti á fimmtudagskvöld (25.04.2013). Alltof algengt að heyra svona tekið til orða.
Magnús skrifaði (26.04.2013) ,,Karlakórinn Þrestir gaflari ársins var fyrirsögn í mbl.is 24.04 13 kl. 20:12. Síðan les maður áfram: Meðlimir karlakórsins Þrestir hafa verið útnefndir gaflari ársins 2013… Flestir sjá að hér er eitthvað að. Jú, það á auðvitað að standa: Meðlimir Karlakórsins Þrasta. Enda segja menn til Þrastanna og um Þrestina. Svona notkun eignarfalls hefur stöðugt ágerst og rétt að fólk vandi sig, a.m.k. þeir sem eru að skrifa texta fyrir almenning.” Molaskrifari þakkar Magnúsi þarfa ábendingu.
Í fréttum Stöðvar tvö (26.04.2013) var talað um að taka kjörstaði aftur niður! Verið var að tala um frágang að loknum kosningum. Ekki mjög vandað orðalag.
Flokkur heimilanna (kannski frekar Flokkur heimilisins, eða Flokkur fjölskyldunnar) er eini stjórnmálaflokkurinn sem hafði heila útvarpsstöð til umráða og beitti henni purkunarlaust í kosningabaráttunni. Það reyndist hinsvegar ekki hafa mikil áhrif. Þar var ekki gerð nein tilraun til óhlutdrægni. Þetta er samkvæmt uppskrift sem kennd hefur verið útrásarvíkinga: Ég á þetta, ég má þetta. Stundarkorn að morgni föstudag (26.04.2013) hlustaði Molaskrifari á Útvarp Sögu. Þar var rætt við efsta mann á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar spruttu málblóm um víðan völl. Manni kvíðir fyrir hverjum einasta vinnudegi, þaðan er gerður út mikill sjávarútvegur, að vera í lófa lagt og svo mætti áfram telja. Svo var rætt um hvað það væri sérstaklega hættulegt ef fjölmiðlar ættu að ráða því hverjir stjórnuðu landinu! Spurt var: Og hverjir eiga fjölmiðlana? Fjármagnseigendur var svarið.- Allt gildir þetta væntanlega um Útvarp Sögu!
DV greinir frá því(29.04.2013) að stjórnmálaflokkur Útvarps Sögu muni fá níu milljónir króna af skattfé almennings til að greiða fyrir vonlausa kosningabaráttu. Þær verða væntanlega notaðar m.a. til að greiða fyrir auglýsingar í Útvarpi Sögu. Grunnur slíkra greiðsla af skattfé almennings hlýtur að vera bókhald stjórnmálaflokka. Það verur fróðlegt að sjá það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
29/04/2013 at 15:10 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir þetta, Magnús, – sammála þér með meðlim. Hitt er ótrúlegur fjáraustur.
Magnús skrifar:
29/04/2013 at 11:37 (UTC 0)
Sæll Eiður
Meðlimur er ljótt orð. Nóg væri að segja „Karlakórinn Þrestir útnefndur gaflari ársins“ því það er varla neinum vafa undirorpið að þá er átt við félaga (ekki meðlimi) í kórnum og að öllum líkindum stjórnandann líka.
Flokkur heimilanna og fleiri flokkar sem náðu ákveðnu lágmarksfylgi fær ekki bara níu milljónir heldur sjö til átta milljónir á ári næstu fjögur ár, eftir atkvæðafjölda. Auk þess geta geta flokkarnir sótt um styrk vegna kostnaðar við framboðið, þrjár milljónir ef ég man rétt.
Bestu kveðjur,
Magnús