«

»

Molar um málfar og miðla 1196

Enn einu sinni var aðalfréttatími Ríkissjónvarpsins skorinn niður við trog á föstudagskvöld (03.05.2013) vegna íþrótta. Það er eins og forráðamenn Ríkissjónvarpsins haldi að öll þjóðin standi á öndinni vegna eins handboltaleiks. Enn sannast að íþróttadeildin ræður dagskránni þegar henni svo sýnist. Nöturleg staðreynd. Hversvegna er íþróttarásin ekki notuð?

Óformleg samskipti áttu sér stað milli formanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í dag (03.05.2013) sagði Ríkissjónvarpið. Ja, hérna. Er þetta ekki heimsfrétt? Svo kom nú reyndar í ljós að engin samskipti höfðu átt sér stað. Það fullyrti formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann ætti að vita það. Það er eins og fréttastofa Ríkisútvarpsins sé að fara á taugum, eins og sagt er.

Undarlegt var í fréttum sjónvarpsstöðvanna (03.05.2013) af ólöglegu skógarhöggi íbúa við Rituhóla í Reykjavík að ekki skyldi rætt við neinn íbúanna,sem báru ábyrgð á skemmdarverkinu. Það hefði til dæmis mátt ræða við fyrrverandi alþingismanninn Árna Johnsen, sem býr í Rituhólum og hefur aldrei verið fjölmiðlafælinn. Aðeins var rætt við fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Í Spegli Ríkisútvarpsins (30.04.2013) var sagt frá ámælisverðri framkomu eigenda nýs hótels á Nesjavöllum við erlent starfsfólk. Í Íslandi í dag næstum á sama tíma á Stöð tvö var mikill halelúja þáttur um þetta sama hótel, sem umsjónarmaður hvað eftir annað kallaði rosalega ,,hipp og kúl”. Skálaði svo í kampavíni við hótelstjórann. Þar var ekkert minnst á erlenda starfsmenn. Hástemmdur lofsöngur. Svo var slett ensku í annarri hvorri setningu eða því sem næst. Það var ekki til bóta. Kvöldið eftir var svo fjallað um málið í fréttum Stöðvar tvö. Hótelstjórinn lýsti þar sakleysi sínu.

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt um Hollandsdrottningu að hún hefði ánafnað syni sínum embættinu, en hún afsalaði sér völdum á þriðjudag (30.04.2013) til sonar síns. Þetta var að mati Molaskrifara ekki rétt notkun sagnarinnar að ánafna sem þýðir að arfleiða að einhverju.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.05.2013) var talað um að mæta á kröfugöngur. Ekki er Molaskrifari sáttur við það orðalag. Venjulega er talað um að mæta í kröfugöngu, – ekki á. Í fjögur fréttum var sagt um Sigmund Davíð, – ekki er að vænta yfirlýsingu frá honum í kvöld. Rétt hefði verið: Ekki er að vænta yfirlýsingar frá honum í kvöld.

Góðvinur Molanna sendi eftirfarandi (01.05.2013): ,,Ágæti molaskrifari. Í fyrirsögn á dv.is segir „Flugvél í nærárekstri við óþekktan fljúgandi hlut.“ Já, einmitt, flugvélin lenti sem sagt í „nærárekstri“ eða þannig skil ég fyrirsögnina og er væntanlega einn um það. Þetta er litið alvarlegum augum ytra því, eins og segir í fréttinni „Nærárekstranefnd Bretlands tók málið til umfjöllunar“ og Nærárekstranefndin fjallar væntanlega ekki um lítilfjörleg atvik. Ég leyfi öðrum fjólum þessarar merkilegu fréttar að hvíla í friði.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Óskar Þór Halldórsson skrifaði (02.05.2013): ,,Sæll Eiður,
Á vef Viðskiptablaðsins í dag, 2. maí, má lesa þessa fyrirsögn:
Afkoma Danske Bank dregst saman
Þetta særir mína málvitund. Í mínum huga annað hvort batnar afkoma Danske Bank og annarra fyrirtækja eða hún versnar. En tæplega dregst hún saman!”
Rétt athugað, Óskar Þór. Þakka bréfið.

Í bíó auglýsingu á Stöð tvö (01.05.2013) var talað um staðinn þar sem örlög þeirra mætast. Óskiljanlegt. Ef til vill er átt við staðinn þar sem þeir mæta örlögum sínum. Var kannski Gúggli að þýða?

Fyrirsögn, Pressan, eyjan.is (01.05.2013): Össur myndar ríkisstjórn fyrir opnum tjöldum: Fjögur rök hans fyrir miðjustjórn. Ætti að vera: Fern rök hans fyrir miðjustjórn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þetta, Þorgils Hlynur.

  2. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sammála Eirnýju.

  3. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Það er tvennt sig mig langar til að vekja athygli á:
    Annars vegar býr Árni Johnsen við Rituhóla — varla býr hann á götunni. Heimili hans stendur á lóðinni en við götuna. Ef húsnúmer fyrir vandist é því að sagt væri: Á. J. býr að Rituhólum x.
    Hins vegar sá ég í netmiðlinum ruv.is fyrirsögnina: Dagur naktra garðyrkjumanna, sem var víst haldinn nýverið. Er ekki réttara að segja: Dagur nakinna garðyrkjumanna. Maðurinn er nakinn — konan er nakin. Hann er ekki naktur og hún er ekki nökt. Þó svo að þeir séu naktir og þær naktar eru börnin ekki nökt, heldur nakin. Af þeim sökum hlýtur nakinna að teljast réttara mál en naktra. Hvað segir Molaskrifari um þetta? Að sjálfsögðu má birta þetta með nafni mínu. Kær kveðja, Þorgils Hlynur Þorbergsson.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Það eru til orð á íslensku sem ná yfir jafn flókið hugtak og near miss á ensku.
    Það lá við árekstri væri líklega ágætleg orðað.
    Flugu hættulega nærri – gæti einnig gengið.

  5. Haukur Kristinsson skrifar:

    „Nærárekstur“ er klaufaleg þýðing á „near miss“ úr flugmáli. Eiður þekkir kannski betra orð.

    Í svona tilfellum er betra að nota enskuna. Það er nú einu sinni svo, að á Íslandi eru ekki til orð um allt sem er hugsað á jörðu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>