«

»

Molar um málfar og miðla 1197

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.05.2013) var frétt um strandveiðar. Sagt var frá versnandi veðri vestanlands og að margir hefðu þegar róið í land aftur. Molaskrifari er á því að sögnin að róa hafi ekki verið á réttum stað þarna. Það réru margir í morgun, fóru á sjó, héldu til veiða. Þegar menn hverfa frá vegna veðurs róa þeir ekki í land ( nema á árabátum, sem ekki eru mikið notaðir til strandveiða. ) menn snúa við, halda aftur í land.

Gunnar skrifaði (02.05.2013): „… að skjóta táragösum um allt …“ sagði Andri Freyr á Rás 2 áðan. Er hægt að bjóða hlustendum svona lágkúru fimm daga vikunnar? – Nei Gunnar . þetta er óboðlegt, en samt bjóða stjórnendur Ríkisútvarpsins okkur upp á þetta! Og nú dynja á okkur látlausar sjónvarpsauglýsingar um sjónvarpsþætti þessa sama starfsmanns. Það er tilhlökkunarefni !

Frétt ársins var á visir.is í dag. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. borðuðu vöfflur! http://www.visir.is/fengu-ser-vofflur-med-kaffinu/article/2013130509559
,, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, borðuðu vöfflur með kaffinu í dag, samkvæmt upplýsingum frá Jóhannesi Þ. Skúlasyni, aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs.” Eru fréttaskrifarar á visir. is alveg búnir að missa stjórn á sér? Fáránlegt.

Þetta er upphafið á illa skrifaðri frétt á visir.is (02.05.2013): ,,Hagnaður hvers Porsche bíls er 16 sinnum hærri en af Volkswagen bíl.
Þýski lúxusbílaframleiðandanum Porsche gengur flest í haginn og eykur sölu bíla sinna stöðugt á hverjum ársfjórðungi.” Porsche bílar græða ekki. Það er framleiðandi þeirra sem hagnast. Honum gengur flest í haginn, hann gengur ekki flest í haginn. Hroðvirkni.
http://www.visir.is/porsche-selur-fleiri-cayenne-en-allar-adrar-gerdir/article/2013130509869

Vínið er hægt að versla á lækkuðu verði … auglýsir hinn ágæti Bændamarkaður frú Laugu á fésbókinni (03.05.2013) . Átt er við að vínið sé hægt að kaupa á lækkuðu verði … Þetta er ekki eina dæmið um ranga orðanotkun sem Molaskrifari hef séð á fésbók. Þar er líka auglýsing um garðáburð , frá Húsasmiðjunni: Verslaðu þér Blákraft fyrir garðræktina í sumar á betra verði. Hörmulegt. Verslaðu þér … Betra verði en hvað?

Ríkissjónvarpið heldur uppteknum hætti og leynir áhorfendur því þegar verið er að endursýna kvikmyndir. Á föstudagskvöld sagði niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrána ekki frá því að verið væri að endursýna kvikmyndina Hefndina. Dónaskapur. Hún hefði átt að segja við okkur: Myndin var áður sýnd (dagsetning). Kannski væri ráð að skipa sérstaka nefnd til að kenna yfir mönnum Ríkisútvarpsins að sýna okkur kurteisi, – og hroka.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>