Til hvers er Ríkissjónvarpið með sérstaka íþróttarás, ef íþróttadeildinni líðst aftur og aftur að ryðjast inn í aðaldagskrá og riðla henni eins og gerðist í gærkveldi (06.05.2013)? Dagskrá seinkaði um tæplega 15 mínútur. Ekki kom nein afsökun frá niðursoðnu konuröddinni sem kynnir dagskrána. Ekki frekar en venjulega. Ríkissjónvarpið heldur áfram að sýna okkur ókurteisi.
Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar (05.05.2013): Sæll Eiður. Það er tvennt sem mig langar til að vekja athygli á:
Annars vegar býr Árni Johnsen við Rituhóla — varla býr hann á götunni. Heimili hans stendur á lóðinni en við götuna. Ef húsnúmer fylgir vandist ég því að sagt væri: Á. J. býr að Rituhólum x.
Hins vegar sá ég í netmiðlinum ruv.is fyrirsögnina: Dagur naktra garðyrkjumanna, sem var víst haldinn nýverið. Er ekki réttara að segja: Dagur nakinna garðyrkjumanna. Maðurinn er nakinn — konan er nakin. Hann er ekki naktur og hún er ekki nökt. Þó svo að þeir séu naktir og þær naktar eru börnin ekki nökt, heldur nakin. Af þeim sökum hlýtur nakinna að teljast réttara mál en naktra. Hvað segir Molaskrifari um þetta?
Molaskrifari sér svo sem ekkert athugavert við að segja að einhver búi í Rituhólum x , ekki frekar en einhver búi í Barmahlíð. Ég átti lengi heima á Skeggjagötu. Réttara að tala um dag nakinna garðyrkjumanna að mati Molaskrifara . Sjá annars beygingu orðsins nakinn hér: http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=nakinn
Trausti Harðarson bendir á eftirfarandi frétt (04.05.2013): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/04/redst_a_leigubilstjora/
Hann segir:,, Það er vont, þegar hugur og hönd eru ekki samstíga. Enn verra þó ef höndin stýrir huganum. Hvað hér hefur verið hugsað, er ekki vel gott að segja, en mér sýnist að höndin hafi orðið huganum yfirsterkari.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Úr fréttum Ríkisútvarpsins (06.05.2013): „Stólar, sem aldrei höfðu verið keyptir, var skilað…“ Sigurður G. Tómasson nefndi þetta á fésbók og spurði hvort fallbeygingar væru gleymdar í Efstaleiti. Ekki nema von að spurt sé.
Enn ruglast menn á húsum og heimilum. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (04.05.2013) var talað um að rýma heimili. Eðlilegra hefði verið að tala um að rýma hús eða íbúðarhúsnæði. Enn var talað um að rýma heimili í sjónvarpsfréttum að kveldi sama dags. Málfarsráðunautur ætti að skýra þetta fyrir sumum fréttamönnum.
Af dv.is (03.05.2015) …en þar lýsir Greta Mjöll ástandinu í borginni eftir sprengjurnar. Ekki mjög vel að orði komist. Eftir að sprengjur sprungu við marklínuna í Boston maraþonhlaupinu.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.05.2013) var talað um bíla sem rákust á á Akureyri. Betra hefði verið að tala um bíla sem rákust saman.
Í skjáauglýsingu í Ríkissjónvarpi (04.05.2013) var auglýstur Vinsældarlisti Rásar tvö. Vinsældarlisti? Ef málfarsráðunautur starfar enn við Ríkisútvarpið ætti hann að lesa svona texta yfir áður en þeir fara á skjáinn.
Í fréttum Stöðvar tvö (04.05.2013) um skemmdir af völdum ágangs á Þingvöllum var talað um tjón sem hefði myndast. Ekki vel orðað. Tjón verður, það myndast ekki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar