«

»

Molar um málfar og miðla 1199

Stundum rugla menn saman orðtökum. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (05.05.2013) var sagt: .. að öðrum kosti gætu öfgamenn í hópi uppreisnarmanna náð undirhöndinni. Hér er orðtakabrengl á ferð á ferðinni. Ruglað er saman að ná yfirhöndinni og að hafa undirtökin, – ráða ferðinni, vera í betri stöðu en andstæðingurinn eða keppinauturinn.

Í fréttum Stöðvar tvö (05.05.2013) var talað um þungar loftárásir. Sennilega þýtt hrátt úr ensku eins og svo margt. Þetta voru harðar loftárásir,hefði Molaskrifari sagt.

Á skjáskilti við upphaf frétta í Ríkisjónvarpi á mánudagskvöld (06.05.2013) var okkur sagt frá 600 milljóna tjóni vegna þjófnaða í IKEA. Í fréttinni kom fram að tjónið væri áætlað 4-5 milljónir. Engin afsökun, engin leiðrétting, engin skýring. Ekki gott.

Eru að renna upp breyttir tímar á Moggans? Sjálfstæðisflokkurinn er á leið í ríkisstjórn. Á forsíðu blaðsins (06.05.2013) er fjögurra dálka fyrirsögn: Borga ekkert og búa frítt. Þar segir að dæmi séu um að þeir sem skuldi íbúðalán misnoti kerfið, borgi ekkert, þótt þeir gætu. Dæmigert kerfissvindl þar sem gert er út á skuldavanda heimilanna. Sennilega hefði Mogginn ekki birt þessa frétt rétt fyrir kosningar. Eða hvað halda menn?

Tískuorð skjóta upp kollinum, lifa um hríð og falla svo í skuggann. Um þessar mundir ofnota margir orðið algjörlega. Það er tískuorð þessa dagana. Algengt er að þegar varpað er fram spurningu sé svarað : Algjörlega, – og svo komi skýring. Takið eftir þessu, lesendur góðir.

Fínt Kastljós í gærkveldi (07.05.2013). Fróðlegt viðtal við Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóra um afrek CCP. Man þegar Hilmar og þeir félagar komu til Kína að kynna leikinn. Kínverjar voru alveg með á nótunum. Ekki var síðri kaflinn um Víking Heiðar og flygilinn í Hannesarholti. Magnað að koma í þetta gamla hús og upplifa þá alúð sem lögð hefur verið í endurbætur þar. Molaskrifari mælir með kaffiferð í Hannesarhús.

Umsjónarmenn Landans í Ríkissjónvarpinu eru oft ótrúlega naskir að finna áhugavert efni víðsvegar um land. Með því bitastæðara þar á bæ, þar sem ekki er lengur um auðugan garð að gresja. Í lok þáttanna er okkur alltaf sagt að fréttastjórinn sé framkvæmdastjóri Landans. Hvað þýðir það? Hefur hann ekki nóg með fréttirnar?

Í Molum nýlega (1197) var vikið að rangri notkun sagnarinnar að versla. Þetta verður æ algengara. Til dæmis í DV 6.-7. 05.2013. Jón er í gögnum málsins sagður versla mikið af mat ….Jón kaupir mikið af mat, og Bjarni verslar ýmsar smávörur … Bjarni kaupir ýmsar smávörur. Sumum blaðamönnum virðist það ofraun að skila muninn á sögnunum að kaupa og versla. Ritstjóri á að benda starfsmönnum á villur á þessu tagi. Hvimleitt að sjá þetta æ ofan í æ.

Í fréttum Stöðvar tvö (06.05.2013) var talað um aðfarabeiðni. Hefði átt að vera aðfararbeiðni. Í blaði nýlega ( man ekki hvar) var talað um aðfararnótt. Hefði átt að vera aðfaranótt. Þetta eiga þokkalega góðir blaðamenn að kunna.

Í frétt á Stöð tvö um frístundafjárbúskap í Grindavík (06.05.2013) sagði fréttamaður að viðmælendur hennar hefðu verið með 54 rollur á húsi í vetur ! Voru þetta ekki ær?

Hvað kostar Evróvisjón-ævintýri Ríkissjónvarpsins?

Næstu Molar birtast á föstudag.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Því miður of algengt að sjá svona lagað, Sigurgeir.

  2. Sigurgeir skrifar:

    Í Viðskiptablaðinu frá 2. maí sl. rakst ég á heilsíðuauglýsingu frá Lean Island 2013. Þar stóð m.a.: Daniel T. Jones er einn helsti sérfræðingur heims í Lean stjórnun en hann er m.a. höfundur metsölubókarinnar sem kynnti heiminn fyrir Lean stjórnun, Lean Thinking: Banish Waste.
    Ekki ónýt kynning þar á ferð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>