«

»

Molar um málfar og miðla 1200

Gunnar skrifar: ,,Það hefur tíðkast um alllangt skeið að tilkynna um færð og ástand vega í útvarpinu, m.a. á Rás 2. Nú hafa þeir kjánarnir í Virkum morgnum, Andri Freyr og Sólmundur (Gunna Dís er í leyfi) tekið upp á því að syngja (eða gaula) við undirleik þennan viðvörunar- og upplýsingatexta. Fyrir vikið verður þetta að óskiljanlegu þrugli sem er umhugsunarvert, því þetta flokkast jú undir öryggisatriði fyrir þá sem eru á ferðinni, t.d. um misfæra fjallvegi og gæti hugsanlega haft alvarlegar afleiðingar í för. Þetta má t.d. heyra hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/virkir-morgnar/06052013-0 á stillingunni: 148:45. Er virkilega enginn yfirmaður Ríkisútvarpsins sem hlustar á þessa vitleysu? Nei, þeir hafa greinilega gefist upp á ruglinu og stillt á Rás 1 … nú eða á Bylgjuna(!)”
Kærar þakkir fyrir þetta , Gunnar. Það er ekki ofsögum sagt af fíflaganginum sem dagskrárstjórar láta viðgangast í þessum þætti Rásar tvö. Ríkisútvarpið finnur sífellt nýjar leiðir til að sinna öryggishlutverki sínu!

Glöggur lesandi og vinur Mola sendi þetta: „Konunum hafði verið saknað í áratug.“ varð að senda þér þetta, var á forsíðu ruv.is hér snemma morguns…- Molaskrifari þakkar sendinguna. Enn ein sönnun þess að ekki er lesið yfir það sem fákunnandi skrifa og setja á skjáinn. Skylt er að geta þess að þetta var lagfært nokkru síðar.

Lesandi bendir á eftirfarandi frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/kosning/2013/05/06/flestir_strikudu_yfir_nafn_bjarna/
Hann spyr: „Hverjir kusu D-listann? Af kjósendum hans í SV kjördæmi strikuðu 4,73% yfir nafn formannsins, en fréttamaðurinn veit, að í þeim hópi voru flestir stuðningsmenn flokksins. “

Hvað eru neikvæðir hvatar sem formaður Framsóknarflokksins talaði um í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (07.05.2013) ? Rugl.

Það getur verið gaman að íþróttafréttamönnum. Í fréttum Ríkissjónvarps (07.05.2013) sagði íþróttafréttamaður: Í Amsterdam var gríðarlegur fjöldi fólks mættur til að fagna 32. deildarsigri Kolbeins Sigþórssonar og félagið ( svo!) Ajax. Það er svolítið barnalegt hvernig sumir íþróttafréttamenn láta með íslenska atvinnumenn sem keppa með erlendum liðum.

Einn af fréttaþulum Stöðvar tvö hefur það fyrir sið að skipa áhorfendum fyrir verkum. Þegar komið er að íþróttafréttum segir þessi þulur: Farið ekki langt. Molaskrifara finnst þetta óþörf og heldur hvimleið afskiptasemi. Aðrir þulir gera þetta ekki. Þetta er ærið tilefni til að slökkva á Stöð tvö.

Í Morgunblaðinu (09.05.2013) stendur: … blekkt stjórnina og fyrirtækjaskrá til að fá sínu fram. Molaskrifari er á því að eðlilegra hefði verið að segja annað hvort, – til að fá sitt fram eða til að ná sínu fram.

Í annars ágætum morgunþætti á Rás tvö að morgni uppstigningardags (09.05.2013) sem Molaskrifari heyrði slitrur úr talaði umsjónarmaður um sixties, seventies og nineties. Ríkisútvarpið á ekki að hjálpa til við að festa þessar enskuslettur í sessi. Þessi þáttur var annars fín tilbreyting frá ruglinu sem viðgengst í Virkum morgnum flesta daga vikunnar á Rás tvö. Og svo var ekki amalegt að hlusta á Víking Heiðar velja píanótónlist og fræða okkur á Rás eitt á þessum fallega morgni (Aristókrata liggur aldrei á). Og ekki sveik Litla flugan hennar Lönu Kolbrúnar. Ekki frekar en venjulega. Takk. Þá nefnir Molaskrifari þáttinn Himnaför heilagra mæðgina fyrr um morguninn á Rás eitt, vandaður og vel unninn þáttur , en eiginlega frekar handrit að sjónvarpsþætti en útvarpsefni. Engu að síður mjög áheyrilegt. Endurtekinn frá árinu 2007. Kvölddagskráin á uppstigningardag byggðist til að mestu á endurteknu efni. Margt af því besta á Rás eitt er endurtekið efni. Hvernig skyldi standa á því?

Molaskrifari heyrði ekki betur en talað væri um hrossahjörð í seinni fréttum Ríkissjónvarps (07.05.2013). Ef til vill hefði verið eðlilega að tala um hrossahóp eða stóð. Hrossahjörð hljómar dálítið útlenskulega.

Í fréttum Ríkissjónvarps (08.05.2013) var talað um stuttmynd sem hefði sigrað yngri flokk. Þetta með að sigra , vinna sigur virðist erfitt. Hvar er málfarsráðunautur?

Hún er ekki upp á marga fiska kvikmyndin sem Ríkissjónvarpið býður okkur að sjá í kvöld, Bounce. Samkvæmt einkunnagjöf IMDb (International Movie Database) fær hún 5,5. Dagskrárstjórar í Efstaleiti hafa sérstakt lag á að velja rusl handa sjónvarpshorfendum á föstudagskvöldum. Halda sennilega að þeir séu ráðnir til þess.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

11 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ég hef ekki séð sjónvarpsmenn reyna að tala með munninn fullan af mat eins og þessi ísleenski sjónvarpsmaður hefur svo oft boðið okkur upp á. Þetta er eitt ef því sem flestir foreldrar kenna börnum sínum, — snemma á ævinni.

  2. Axel skrifar:

    Í nánast hverjum einasta þætti af Kitchen Nightmare smjattar Gordon Ramsay á mat, oftar en ekki með tilheyrandi blótsyrðum og reiðiræðum. Sjá t.d. á mínútu 18.06 í myndbroti sem má finna á eftirfarandi slóð:

    http://www.youtube.com/watch?v=G6LY7TJ16pg

    Það sem gerir Ramsay skemmtilegan er að hann er einlægur. Lætur allt flakka. Það sama á við um Andra að mínu mati og margra annarra. Ég minnist þess að hafa séð Fry borða mat í þáttunum um Bandaríkin. Minnir t.d. að hann hafi smakkað ís í Ben og Jerry’s verksmiðju í Vermont. Hann er auðvitað dannaðri týpa, en er samt einlægur og skemmtilegur. Þar liggur samlíkingin. Hún þarf ekkert að ná lengra frekar en menn vilja.

  3. Egill skrifar:

    Axel, nefndu mér dæmi um í hvaða þætti Gordon Ramsay (sem þú kallar Ramsey) eða Stephen Fry hafa troðið svo miklum mat í munninn á sér og hafið svo upp raust sína, án þess að það skiljist sómasamlega! Þeir tveir eru góðir þáttagerðarmenn og forðast að tala með troðfullan munninn eins og Andri hefur oft gert, bæði í Vesturheimsþáttunum og matreiðsluþáttum Hrefnu Sætran. Himinn og haf á milli Englendingsins og Skotans annars vegar og svo Andra Freys, bæði í þáttagerð og framkomu.

  4. Eiður skrifar:

    Það væri góð tilbreyting ef maðurinn reyndi að gera sjónvarpsþætti sem ekki snúast næstum alfarið um hans eigin persónu.

  5. Axel skrifar:

    Góður rýnir á ekki að horfa á hlutina frá þröngu sjónarhorni – heldur frá mörgum hliðum. Það gerir síðuhaldari sjaldnast. Það er allt í góðu að hafa smekk og bera hann á borð. En smekkur er vondur mælikvarði á mat á fagmennsku og flinkheit. Það eitt og sér að Andri borði mat með fulllan munn og drekki vín í sjónvarpsþáttum getur með engu móti verið einhver niðurstaða um kosti og galla hans sem fjölmiðlamanns. Gordon Ramsey og Stephen Fry hafa t.d. báðir smjattað á mat og sippað á víni í sínum þáttum. Og þykja þeir báðir flinkir. Hvað svosem okkur finnst um þá.

  6. Eiður skrifar:

    Ég get ekki annað en metið hlutina út frá mínum smekk. Þú getur kallað hann ,,þröngt box“ ef þú vilt. Þættir Andra Freys fjalla mest um Andra Frey. Þannig gerir enginn ,,flinkur fjölmiðlamaður“. sem þú kallar Oftar en einu sinni höfum við fengið manninn á skjáinn að tala við okkur með munninn fullan af mat bæði í vesturheimsþáttunum skelfilegu og þegar hann var notaður til að snæða afraksturinn og drekka vín með í matreiðsluþáttum. Annars ætti frekar að nota orðið að ,,éta“ yfir þá sem fylla munninn af mat og tala svo við áhorfendur. Svo verða ,,flinkir fjölmiðlamenn“ að kunna móðurmálið, – vera þokkalega talandi. Á það skortir nokkuð, sbr. ,,táragösin“.

  7. Axel skrifar:

    Þarna liggur vandinn. Þú metur Andra (og margt annað) eftir þínu þrönga boxi, þar sem málfar og formfesta blífur ofar öllu. Andri hefur marga kosti sem fjölmiðlamaður (og eflaust galla einnig). Hans kostir eru meðal annars hve einlægur hann er. Hann er tilbúinn að brjóta upp norm og slaka á viðmiðum – er óhræddur við að gera óvænta hluti. Það skilar sér í skemmtilegri dagskrágerð og styttir mörgum stundirnar. Þá er Andri sérlega fróður um ýmiskonar tónlist sem skilar sér til hlustenda.

    Ég get reyndar tekið undir að Andri er ekki fullkominn sjónvarpsmaður. Hans miðill er frekar útvarpið þar sem hann hefur frjálsari hendur. En ég veit reyndar um marga sem eru ósammála þeirri skoðun minni.

    Andri er þannig bara víst flinkur fjölmiðlamaður. En auðvitað mega allir hafa sinn smekk.

  8. Eiður skrifar:

    Sæl, takk – má ég ekki nota nafnið þitt með þessu í Molum?

  9. Eiður skrifar:

    Andri freyr er reyndar ekki flinkur fjölmiðlamaður. Langur vegur frá. Þeir kunna sér hóf. Allir sjðonvarpsþættir hans fjalla fyrst og fremst um Andra Frey. hann er heldur ekki vel máli farinn. Þættir hans frá Nýja Íslandi voru hrein hörmung.

  10. Axel skrifar:

    Enn og aftur: Virkir morgnar er alþýðlegur þáttur á léttu nótunum sem mælist vel fyrir hjá afar mörgum. Ef menn hafa ekki smekk fyrir því sem borið er á borð og vilja hafa formlegri dagsrkárgerð, má benda á hinu ríkisreknu útvarpstöðina. Rás 2 var upprunalega stofnuð til að mæta þörfum yngri hlustendahóps. Að syngja um einstaka sinnum um færð á vegum þýðir ekki skort á upplýsingum. Bara spurning um að hlusta á textann. Ótrúlegt væl hjá Gunnari og síðuhaldara sem virðist með þann flinka fjölmiðlamann Andra Frey á heilanum.

  11. Eirný Vals skrifar:

    Mér þykir skrítið að segja að trommuleikara hefji upp raust sína þegar þeir leika á trommur. Það er ekkert í fréttinni um að trommuleikarar hafi sungið heldur að leikurinn gerðist sífellt háværari.

    http://www.mbl.is/folk/frettir/2013/05/10/sagdi_trommuleikurum_til_syndanna/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>