«

»

Molar um málfar og miðla 1202

Sjö slökkviliðsmenn á Akureyri eru í áminningarferli, segir í frétt á dv.is (08.05.20113). Þetta hefði mátt orða öðruvísi og skýrar. Er ekki verið að segja okkur að sjö slökkviliðsmenn á Akureyri hafi verið áminntir, fengið
áminningu?

Þegar skúta hans skyndilega hvolfdi, sagði íþóttafréttamaður Stöðvar tvö (10.05.2013). Í inngangi fréttarinnar sagði annar íþróttafréttamaður: Skúta hans hvolfdi. Samræmi í vitleysunni! Skútunni hvolfdi. Skútan hvolfdi ekki. Ekki vönduð vinnubrögð.

Um fyrirhugaðar hvalveiðar Hvals h.f. í sumar sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins (08.05.2013): Þessi ákvörðun hefur mælst illa fyrir eins og nærri má geta. Ófaglegt orðalag. Hversvegna – eins og nærri má geta ? Fréttamenn eiga ekki að leggja dóm á efni frétta. Okkur kemur ekkert við hvað þeim finnst. Grunnregla í fréttamennsku. Þetta var endurtekið á miðnætti. Enda hlustar víst enginn í Efstaleiti. Hér er svo tengill á fremur illa skrifaða frétt á vef Ríkisútvarpsins um þetta sama efni: http://www.ruv.is/frett/vilja-ad-obama-gripi-til-adgerda

Eignarfalls -r- í samsettum orðum á í vök að verjast. Matvöruverslanir eru hættar að selja jarðarber. Nær undantekningarlaust eru þar á boðstólum jarðaber. Þegar ekið um um Selfoss blasir við stórt skilti þar sem auglýst er myndlistasýning. Ekki myndlistarsýning.

… sér mjög á eftir Moyes. Þannig var tekið til orða í fréttum Stöðvar tvö (09.05.2013). Hér hefði nægt að segja: .. sér mjög eftir Moyes.

Í dagblaðakynningu á dagskrá Ríkissjónvarps á uppstigningardag segir: 21 45 Sjónvarpsleikhúsið – Úti að viðra hundana. Breskur einþáttungur ,(4:6). Einþáttungur! Fjórði þáttur af sex ! Er verið að gera grín að okkur ?

Í morgunþætti Bylgjunnar (10.05.2013) nefndi fréttamaður þýska tónskáldið Richard Wagner. Skírnarnafn tónskáldsins er ekki borið fram á á ensku / ritsjard/ það er borið fram / rih-kard/. Svona læðir enskan sér allstaðar inn. Og umsjónarmaður talaði um að versla inn. Við förum út að versla og kaupum inn. Þetta á ekki að vera neitt flókið.

Í fréttum Stöðvar tvö (09.05.2013) var sagt að formenn flokkanna mundu leita álita og (afla) gagna. Ekki veit Molaskrifari betur en orðið álit sé eintöluorð.

Lesandi bendir á þessa frétt á mbl.is (09.05.2013): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/09/heidmork_ofaer/. Hann spyr:
„Hvenær var Heiðmerkurvegur framlengdur frá Vífilsstöðum í Garðabæ að Víðistöðum, væntanlega í Hafnarfirði.“ Ekki kann Molaskrifari svör við því.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>