Í fréttum Stöðvar tvö var sagt frá börnum í Svíþjóð, sem hefðu verið ættleidd frá Golgata á Indlandi. Ætli allir hlustendur hafi gert sér grein fyrir því að verið var að tala um borgina sem jafnan hefur verið nefnd Kalkútta?
Gæðin eru mjög góð, sagði talsmaður fyrirtækisins já.is í sama fréttatíma (26.05.2013) . Sá hinn sami sagði líka, – fólk er ekki að þekkjast. Hann átti við að ekki væri unnt að bera kennsl á fólk.
Fréttaþulur Stöðvar tvö talaði í sama fréttatíma um fatlaðan nýstúdent frá Verslunarskóla Íslands, sem greinilega hefur unnið mikið námsafrek. Fréttaþulur sagði að stúdentinn væri bundinn í hjólastól. Ekki fellir Molaskrifari sig við það orðalag – hreint ekki. Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var fjallað um sölu hvalkjöts til Japans. Fréttaþulur sagði: Sá langreyður sem veiddur verður við Íslandsstrendur næstu mánuði …. Þarna skolaðist eitthvað til því langreyður kvenkynsorð.
Í íþróttafréttum í þessum sama fréttatíma talaði íþróttafréttamaður um ökumann sem sigraði Monte Carlo kappaksturinn. Enn og aftur flaska menn á þessu einfalda atriði. Menn sigra í einhverri íþrótt. Menn sigra ekki íþróttina. Í fréttum Ríkissjónvarpsins var þetta rétt og vel orðað. En þar á bæ spurði hinsvegar íþróttafréttamaður unga konu sem dæmir knattspyrnuleiki um óánægju leikmanna með dóma hennar og sagði: Hvernig tæklarðu það? Hvernig bregstu við því, átti hann við.
Undarlegur er fréttaflutningur og táratal (28.05.2013) Ríkisútvarps og sjónvarps um Króata sem hingað komu að því er virðist í skipulögðum ferðum í atvinnuleit undir því yfirskini að vera flóttamenn. Sérstök áhugamál einstakra fréttamanna mega aldrei ráða fréttamati hjá Ríkisútvarpinu. Fréttaflutningur Stöðvar tvö af þessu máli hefur verið með allt öðrum hætti.
Á sunnudagskvöld (26.05.2013) sýndi danska sjónvarpið (DR2) mjög athyglisverða og fróðlega franska heimildamynd um J. Edgar Hoover, hinn alræmda yfirmann bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Hann réði þar ríkjum frá 1924 til 1972. Njósnaði um alla stjórnmálamenn, hafði örlög þeirra í hendi sér og fór sínu fram. Robert Kennedy var sá dómsmálaráðherra sem stóð í ístaðinu gagnvart honum. Hvernig stendur á því að myndir af þessu tagi rata aldrei á skjá hins íslenska Ríkissjónvarps? Ræður því þröngur sjóndeildarhringur ráðamanna í Efstaleiti?
Enn var í fréttum Ríkisútvarps glefsa úr samtali við norskan lögregluþjón á ensku (27.05.2013). Í sjónvarpsfréttum sama dag fékk norskur lögreglumaður hinsvegar að tala móðurmál sitt. Hversvegna biðja fréttamenn Norðmenn að tala ensku við Íslendinga? Hefur fréttastofan enga vinnureglu í þessum efnum?
Þessi auglýsing birtist óforvarandis á póstsíðu Molaskrifara (27.05.2013):
Daði Tannlæknir
Mjög sanngjörn verð 10 ára ábyrgð á tannplöntum
dh1080.wix.com/daditannlaeknir
Ekki er Molaskrifari svo fróður að vita hvað tannplöntur eru og enn síður tannplantameðferðir sem auglýstar eru á heimasíðunni ! Þetta hlýtur að vera einhver ræktun.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar