«

»

Molar um málfar og miðla 1214

Í Morgunblaðinu (25.05.2013) var sagt frá fermingu íslenskra ungmenna í Luxemburg. Þau fóru í ferðalag og í fermingarbúðir. Fóru alla leið til Þýskalands, skrifaði blaðamaðurinn. Eitthvað hefur landafræðikunnáttu verið ábótavant hjá þeim sem þetta skrifaði. Það er ekki löng leið frá Luxemburg til Þýsklands. Landamæri ríkjanna liggja saman á 138 km kafla. Luxemburg á einnig landamæri að Belgíu og Frakklandi.

Áskell sendi eftirfarandi (24.05.2013): ,,Eftirfarandi mátti sjá á visir.is:“Brúin er í um tveggja tíma akstursvegalengd norður af Seattle.“ Það jaðrar við að maður verði hryggur við að sjá svona rugl. Er „akstursvegalengd“ ný mælieining? Er hún 5 km eða 150 km? Er enginn prófarkalesari á visir.is? “ Örugglega ekki., segir Molaskrifari.

Í Fréttablaðinu (25.05.2013) segir frá fólki sem ferðaðist til Svalbarða og sá þar ísbjarnamömmu með tvo húna. Var þetta ekki birna með tvo húna?

Í Kastljósi í gærkveldi (27.05.2013) kom fram hvernig einkavæðing hefur leikið íslenskar fornleifarannsóknir. Skýrslur um notkun opinbers fjár eru ófullkomnar eða ónýtar og næstum 150 þúsund gripum sem komið hafa i leitirnar við uppgröft hefur ekki verið skilað. Þarna virðist aldeilis þurfa að taka til hendinni. Öll þessi mál, tengd fornleifarannsóknum, eru greinilega í megnasta ólestri og kannski er þarna fundin skýring á því hversvegna Árna Johnsen alþingismanni var látið líðast að byggja kofa ofan á friðlýstum fornminjum við vegg dómkirkjunnar í Skálholti. Var ekki forsætisráðherra að taka þessi mál inn í sitt ráðuneyti í nýrri ríkisstjórn? Hér þarf greinilega að taka til hendi. Takk fyrir að vekja athygli á þessu , Jóhannes Kr. Kristjánsson í Kastljósi.

Kjartan Magnússon skrifaði (25.05.2013): ,,Í Fréttablaði gærdagsins(ef ég man rétt) var fjallað um nýjan forritling Fréttablaðsins. Þar var forritlingurinn kallaður „Fréttablaðs-app“ en „app“ er að sjálfsögðu ekki íslenskt orð. Réttara væri að kalla þetta forritling eða einfaldlega bara forrit (jafnvel símaforrit).” Já, þetta app er vandræðasletta. Molaskrifari hefur notast við orðið smáforrit. Einnig mætti nota símaforrit, en orðið forritlingur er ekki líklega til að að verða útbreitt. Best er líklega að tala um forrit. Molaskrifari þakkar Kjartani bréfið.

Molaskrifari keypti girnilegan lax tilbúinn á grillið. Hann var frá Fiskbúðinni okkar á Smiðjuvegi. Á merkimiðanum stóð: Lax í lemon og kóríander. Líklegast vita fisksalarnir í Fiskbúðinni okkar ekki að til er ágætt orð yfir ávöxtinn sem á ensku heitir lemon. Hann heitir sítróna á íslensku.

Það er snjöll hugmynd hjá Skapta Hallgrímssyni blaðamanni Morgunblaðsins í Pistli (25.05.2013) að afla fjár með því að sekta þá (óteljandi) ökumenn sem brjóta lög með því að tala í síma undir stýri og nota ekki stefnuljós. Þessar sektir duga kannski ekki til að lækka skuldir heimilanna um 20% eins og ríkisstjórnin hefur lofað að gera, en er það ekki svo að safnast þegar saman kemur?
Þessi lögbrot fara í taugarnar á Molaskrifara. Maður sér þetta á hverjum degi , oft á dag. Á Hafnarfjarðarveginum gefur um það bil helmingur ökumanna stefnuljós við akreinaskipti. Sumir aka á 50 km/klst þegar umferðarhraðinn er í kring um 80 km/klst . Þeir eru oftast að tala í símann og telja sig ekki þurfa að nota stefnuljós. Þessi lögbrot má rekja til agaleysis í uppeldi og ökukennslu og hins landlæga virðingarleysis fyrir lögum og reglum sem er svo ríkt í mörgum Íslendingum. Erlendir gestir undrast þetta og skilja ekki.

Í texta í fréttum Ríkissjónvarps (26.05.2013) um færeyskan sjómann sem bjargast hafði úr bráðum lífsháska fyrir mörgum áratugum og ekki var bráðfeigur var sagt að hann hefði fæðst í órofnum líknarbelg. Molaskrifari er á því að þetta heiti að fæðast í sigurkufli. Kannski skilur enginn það orð lengur nema gamlir karlar og kerlingar. En alltaf hefur mér fundist orðið undurfallegt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Valur.

  2. Valur skrifar:

    Ég myndi nú halda að ef laxinn væri límónuleginn að þá myndi standa annað hvort lime eða límóna en ekki lemon.

  3. Eiður skrifar:

    Gæti verið.

  4. Þorvaldur S skrifar:

    Að sönnu er sítróna gamalt orð yfir ávöxtinn sem upphaflega var kallaður gulaldin þegar menn vildu íslenska nafnið. Hins vegar er til annar ávöxtur, náskyldur, sem hefur af íslenskum verið kallaður límóna og heitir á ensku lime. Sennilega er laxinn límónuleginn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>