«

»

Molar um málfar og miðla 1213

Helgi Haraldsson, prófessor emeritus í Osló sendi Molum eftirfarandi (24.05.2013) af dv.is: ,,Lögreglan skaut mennina tvo þegar hún mætti á vettvang en þeir eru sagðir hafa reynt að ráðast að lögregluþjónum. Báðir eru særðir og þar af einn lífshættulega”. Báðir særðir,.. þar af einn. Það var og! Sjá http://www.dv.is/frettir/2013/5/23/madurinn-sem-var-myrtur-i-woolwich-odaedinu/

Egill benti á eftirfarandi af visir.is (23.05.2013): „Á besta aldri og ætla að synda yfir Ermasundið,“ stendur á visir.is í dag. Sundið heitir Ermarsund, ekki Ermasund.- Rétt er það Egill.

Molalesandi skrifar (24.05.2013): ,,Hér er tvennt af dv.is.
Frétt um húsbrot og líkamsárás á Akranesi hefst á þessum orðum: Tveir menn réðust inn á heimili þess þriðja á Akranesi í nótt og veittu honum töluverða áverka.
Frétt um voðaverkið í Lundúnum hefst svona: Maðurinn sem var myrtur í Lundúnum í Englandi í gær hét Lee Rigby sem var 25 ára gamall og frá Manchester-borg. Rigby var hermaður sem gegndi stöðu trommara í breska varðliðinu sem var myrtur af ódæðismönnum nærri hermannaskálum við Woolwich í suðaustur Lundúnaborg.

Ég velti því fyrir mér hvort viðkomandi blaðamaður/blaðamenn skilji þetta?” Það eru vissulega áhöld um það, segir Molaskrifari !

Meira af visir.is (23.05.2013): Þurft hefur að flytja fleiri hundruð manns af heimilum sínum vegna flóðanna. Fleiri en hvað? Hér hefði verið eðlilegra að tala um mörg hundruð.

Margt var hnýsilegt og bitastætt í Landanum í gærkveldi (26.05.2013). Pistill um útsýnisflug frá Bakkaflugvelli var þó ansi nálægt því að vera hrein og ómenguð auglýsing.

Hversvegna var fréttamaður Ríkisútvarps með langloku norsks rannsóknarlögreglumanns um manndráp í Noregi á ensku í átta fréttum í morgun (27.05.2013) ? Réði enginn á vaktinni við norðurlandamál? Eru engar vinnureglur í þessum efnum á fréttastofunni? Hversvegna var maðurinn ekki beðinn um að tala norsku. Er fréttastofan búin að ákveða að hlustendur Ríkisútvarpsins skilji ekki norsku? Annars bætti þessi enskupistill nákvæmlega engu við fréttina. Dálítið undarleg vinnubrögð.

Í annað skipti á örfáum dögum hnýtur Molaskrifari um orðalagið að gera góða eða fína veiði. Nú á mbl.is (24.05.2013); ,,Kalt vorið virðist gera það að verkum að urriðin (svo!) í Þingvallavatni er lengur á grunnu vatni en menn eiga að venjast og það eru margir veiðimenn að gera fína veiði þessa dagana.” Þetta hefur alltaf heitið að veiða vel, sbr. nú ber vel í veiði. Sjá http://www.mbl.is/veidi/frettir/2013/05/24/92_sm_urridi_i_vatnskoti/

Fisktegundur hafa færst milli lögsaga, var sagt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarps (24.005.2013). Beygingavefur Árnastofnunar er ekki með fleirtölumyndina lögsögur. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja: … milli lögsagna.

Eruð þið eitthvað að fara að hætta þessu? Svona spurði fréttamaður íþróttaiðkendur í fréttum Stöðvar tvö (23.05.2013). Spurninguna hefði mátt orða betur.
Í frettum Stöðvar tvö (24.05.2013) var talað um Norðurá vestan Öxnadalsheiði. Hefði átt að vera vestan Öxnadalsheiðar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. gunnar skrifar:

    Ermarsundið tekur nafn af lögun sinni, sem er eins og ein ermi en ekki margar > Ermarsund, sbr. einnig franska heitið á sundinu.

    Hvernig skyldi standa á, að ákveðið hjólbarðaverkstæði sættir sig við að vera daglega auglýst sem lakasta verkstæðið, sem selur tiltekna tegund hjólbarða?
    Samkvæmt auglýsingum fást barðarnir hjá innflytjanda þeirra, X-verkstæðinu og öllum betri verkstæðum!!

    Viðmiðun fyrir betri hlýtur að vera viðkomandi verkstæði.

  2. Eiður skrifar:

    Ermarsund lærði ég fyrir löngu að væri rétt. Það segir og ísl. orðabók.

  3. Jón skrifar:

    Af Google

    Ermasund 308.000
    Ermarsund 17.900
    Hvort er þá rétt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>