«

»

Molar um málfar og miðla 1217

Afbragðsþáttur frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og Samtökum lungnasjúklinga í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (30.05.2013) Manni sjálfum að kenna, – um reykingar og lungnasjúkdóma. Vonandi hefur þetta orðið til þess að hvetja einhvera til að drepa í í síðasta skipti. Vönduð dagskrárgerð og hnökralaus. Þennan þátt mætti endursýna fljótlega. Eitthvað annað en Andralandsruglið sem Ríkissjónvarpið bauð upp á þar á undan.

Lesandi skrifaði (28.05.2013): ,,Það gengur alveg fram af manni að hlýða á ríkisútvarpsfréttirnar núna.
Þulur les, án þess að hika:
,,Þrjár fjölskyldur var ekki vísað úr landi…“
Svona heyrir maður í hverjum fréttatíma.” Kannski þarf að ráða fleiri málfarsráðunauta í Efstaleiti.

Gott yfirlit hjá Þorbirni Þórðarsyni í fréttum Stöðvar tvö (28.05.2013) um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Valur sendi eftirfarandi (28.05.2013): ,,Nú var íslensk afrekskona komin heim eftir að hafa klifið hæstu tinda í heimi. Fyrirsögn á þessari frétt hjá Ríkissútvarpinu á vef sínum er eftirfarandi,,Umkringd snjó á alla kanta,, og mér finnst þetta ekki vera góð íslenska, ekki frekar en þegar uppreisnarmenn í Sýrlandi voru umkringdir á þrjá kanta? í það fyrsta þá þýðir orðið umkringja að láta eitthvað verða að hring og hvaða kanta sá afrekskonan af hæstu tindum heimsins ?” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Garðyrkjuþættir og golfþættir geta verið ágætt sjónvarpsefni. Það er hinsvegar álitamál hvort þættir um þetta tvennt eigi að vera hlið við hlið á besta stað í kvölddagskrá eins og er nú á þriðjudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu.

Alltaf er gaman að heyra í Steinunni Sigurðardóttur rithöfundi. Molaskrifara fannst hinsvegar ekki sérstaklega gaman að heyra hana segja um nöfnu sína Ólínu Þorsteinsdóttur í Speglinum (28.05.2013) að hún væri einn af okkar flottustu listamönnum, EVER.
Þetta var óþörf tískusletta.

Stundum getur verið gaman að Mogga. Oft er það óviljandi. Það var ekki mikið að gerast í pólitíkinni eða annarsstaðar þegar burðarfréttin á forsíðu blaðsins (30.05.2013) var fjórdálkur efst : Rotþrær sumarhúsa í ólagi. Nokkuð sem yfirvöld hafa sennilega lengi vitað, en ekki skal lítið úr því gert að þetta er vandamál í mörgum sveitarfélögum þar sem mikið er af sumarhúsum. Svo er sólin farin að rísa á ný við Rauðavatn eftir myrka vetur og sumur undir vinstri stjórn. Viku eftir að ný ríkisstjórn settist á sína mjúku valdastóla eru birt ummæli framkvæmdamanns um að horfur séu á að ,,atvinnuleysið verði úr sögunni” í sumar. Og ráðherrarnir varla búnir að halda fund eða munda penna! Þetta er líklega nútíma kraftaverk.

Molaskrifara hefur alltaf þótt þægilegt að hlusta á Eddu Andrésdóttur á Stöð tvö lesa fréttir. Hún gerir það óaðfinnanlega. Leiðir Eddu og Molaskrifara lágu fyrst saman í stjórn Blaðamannafélags Íslands 1971 eða 1972 þegar hún hafði nýlega hafið störf sem blaðamaður á Vísi. Síðan eru rúmlega 40 ár og svei mér þá, hún Edda hefur bara ekkert breyst !

Sagt var frá því í Fréttablaðinu (29.05.2013) að Jónas Kristjánsson hefði opnað blaðamannaskóla á netinu. Gott framtak hjá Jónasi. Ekki veitir af. Fyrsti nemandinn gæti orðið sá sem skrifaði fréttina í Fréttablaðið. Þar segir nefnilega: ,,Blaðamannaskóli Jónasar Kristjánssonar fyrrverandi ritstjóra DV og Fréttablaðsins opnar í dag á vefsíðu hans jonas.is”. Það er að sjálfsögðu Jónas sem opnar Blaðamannaskólann ( eins og réttilega er sagt í fyrirsögn). Blaðamannaskólinn opnar hvorki eitt né neitt.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hver sinn smekk. Sjónvarpsmaður sem sér ekkert nema sjálfan sig , er ekki góður sjónvarpsmaður. Þarf líka að læra móðurmálið betur.

  2. Axel skrifar:

    Besti Andraþátturinn frá upphafi var í gær. Horfði á hann tvisvar. Ekki var Hraðfréttasyrpan verri. Algjör snilld að mínu mati.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>