Gunnar skrifaði (05.06.2013): ,,Mér til undrunar, var sagt í golfþætti í Ríkissjónvarpinu, að 14 ára piltur væri farinn að „narta í tærnar“ á bestu kylfingum landsins. Ég hélt að þeir lakari væru yfirleitt á eftir þeim bestu og því væri alltaf sagt að menn nörtuðu í hælana á þeim. En alltaf heyrir maður eitthvað nýtt.
Eins er aldrei of oft brýnt fyrir fólki að það sem heitir „líter“ á ensku og dönsku heitir „lítri“ á íslensku.” Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið með þessu ágætu ábendingum.
Í fréttum Stöðvar tvö (04.06.2013) var talað um að fá sér til liðs. Molaskrifari hefði kunnað betur við , ef sagt hefði verið , – fá til liðs við sig. Kannski er þetta sérviska.
Norðurá opnar, Blanda opnar, svo opna árnar hver af annarri, sagði stangveiðimaður sem rætt var við í fréttum Ríkisútvarps að morgni miðvikudags (05.06.2013). Mörgum þykir sjálfsagt nöldur og smámunasemi að gera athugasemdir við þetta orðalag. En hvað opnuðu árnar? Þær opnuðu ekki neitt. Laxveiðar hófust í ánum. Það var opnað fyrir laxveiði í ánum. Í morgunþætti Rásar sama dag var sagt frá hönnunarsýningu sem opnaði. Var opnuð, öllu heldur. Í lok Víðsjár (06.06.2013) var okkur sagt frá sýningu sem opnaði í Þjóðminjasafninu. Hvar er málfarsráðunautuur Ríkisútvarpsins? Hvað segir hann um þetta? Embættismenn í Efstaleiti telja sig kannski yfir það hafna að svara spurningum eða athugasemdum almennings. Það er sjálfsagt til lítils að andæfa gegn þessu. En samt er ástæðulaust að gefast upp!
Í DV (05.06.2013) er sagt frá ítölskum ferðamanni sem lenti í hrakningum á Fimmvörðuháli. Þar segir: Hann sagðist sitja fastur í skála,sem hann rakst fyrir tilviljun á eftir miklar hrakningar. Orðabókin segir að hrakningar sé flt. af kk. orðinu hrakingur. Að lenda í hrakningum er að hrekjast í vondu veðri á sjó eða landi. Þessvegna hefði átt að standa þarna: ,,… fyrir tilviljun eftir mikla hrakninga.”
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (05.06.2013) var sagt að Hillary Clinton hefði stigið til hliðar, þegar hún lét af starfi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hillary Clionton steig reyndar líka til hliðar í kvöldfréttum þannig að málfarsráðunautur hefur greinilega verið fjarri góðu þegar Hillary Clinton tók þessi hliðarspor í Efstaleitinu. Þessi hráa enskuþýðing ( e. step aside) heyrist æ oftar í fjölmiðlum. Venjulegt fólk notar ekki þetta orðalag í daglegu máli. Hversvegna má ekki segja að fólk láti af störfum eða hætti?
Matreiðsluþáttur Hrefnu Sætran í Ríkissjónvarpi á miðvikudagskvöld var prýðilegur. Einföld eldamennska við grillið. Hráefnið kannski dýrara en svo að það sé á færi alþýðu manna. En allt var þetta ágætt þangað til sjónvarpsmaðurinn Andri Freyr fór að tala við okkur með munninn fullan af mat. Það eru ekki góðir mannasiðirog engum til skemmtunar. Bjórauglýsingin á borðinu var óþörf og ekki við hæfi. Hvað skyldu fyrirtæki þurfa að borga fyrir að fá að stilla framleiðslu sinni upp fyrir framan myndavélina í svona þáttum? Áhorfendur eiga rétt á því að skýr mörk séu milli auglýsinga og efnis. Stjórnendur Ríkissjónvarpsins virðast ekki skilja það. Nú er meira að segja farið að lauma auglýsingum inn í dagskrárkynningar. Auglýsingadeildin fer sínu fram, greinilega. Hvað sem öllum reglum líður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
16/06/2013 at 10:41 (UTC 0)
Þakka þér, Jón Júlíus. Gangi þér vel.
Jón Júlíus skrifar:
15/06/2013 at 23:41 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Ég stýri golfþættinum Golfið á Rúv. Mér hefur greinilega orðið illilega á er ég viðhafði þau orð að ungir kylfingar væru að narta i tærnar á bestu kylfingum landsins. Ég held að það sé hér með gulltryggt að það endurtaki sig ekki aftur.
Takk fyrir þarfa ábendingu.
Kær kveðja,
Jón Júlíus
Eiður skrifar:
08/06/2013 at 12:51 (UTC 0)
Þetta er bara spurning að menn sýni að þeir kunni mannasiði fyrir framan myndavélina.
Axel skrifar:
08/06/2013 at 12:12 (UTC 0)
Já einmitt, bresk kurteisi er það sem einkennir þætti Gordon Ramsay. Þvílíkt og annað eins bull! Orðljótari mann er erfitt að finna í sjónvarpi og hann hikar ekki við að brjóta fólk niður. Það er einmitt það sem gerir þættina hans skemmtilega. Gildir einu hvort klippiteymið sleppi að sýna þau augablik sem hann tyggur matinn. Og það er einfaldlega rangt að hann brytji alltaf niður matinn sinn. Með einfaldri leit á youtube má t.d. sjá Gordon gleypa í sig hamborgara . Sem einmitt fín leið til að snæða hamborgara.
Grillþætttir Hrefnu sem nú eru sýndir, eru sömu þættir og voru sýndir síðsumars í fyrra. Mér finnst það frekar gagnrýnivert heldur en hvort Andri tali með fullan munninn. Held að afslappað fólk láti það sig engu skipta.
Eiður skrifar:
07/06/2013 at 14:28 (UTC 0)
Satt segirðu, Egill. Bretar eru betur að sér í mannasiðum en þeir í Efstaleitinu. Þetta er hörmung.
Egill skrifar:
07/06/2013 at 14:25 (UTC 0)
Sammála þessu með Andra. Fyrsti bitinn sem hann tróð upp í sig var í fyrsta lagi óhóflega stór. Hann gat varla lokað munninum og byrjað svo strax að tala, enn með troðfullan munninn. Það sem hann reyndi að segja var nánast óskiljanlegt og lítt geðslegt að horfa á hálftugginn matinn uppi í honum. Hann skemmdi ljómandi góðan þátt. Honum var heldur ekki boðið að fyrra bragði í næsta þátt, hann þurfti að spyrja um það sjálfur …
Ég var að horfa á heila þáttarröð með Gordon Ramsay í þessari viku og þeirri síðustu og fylgdist vel með þessu í ljósi fyrri umræðu. Gordon sker matinn í litla bita þegar hann smakkar, tyggur með lokaðan munninn, kyngir og talar aldrei með mat í munninum!