«

»

Molar um málfar og miðla 1225

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (07.06.2013) ,,Ofan við eftirfarandi frétt var tröllaukin fyrirsögn með sömu villu. Hún er býsna algeng.
Tiger Woods aftur hæst launaðasti íþróttamaður heims.
(DV á netinu 7. júní 2013)” Rétt er það. Þetta er ótrúlega algengt. Tiger Woods er hæst launaður, launahæstur. Ekki sá hæst launaðsti.

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (09.06.2013): Í mannréttindanefndinni sitja þingmenn frá 84 löndum Evrópuráðsins. http://www.ruv.is/frett/saksoknari-of-kappsamur-i-mali-geirs Undarlegt. Aðild að Evrópuráðinu áttu 47 ríki síðast þegar til fréttist. Hvaða rugl er þetta? Er ekkert gæðaeftirlit með því sem skrifað er á fréttastofu Ríkisútvarpsins? Les enginn yfir?

Af mbl.is (09.06.2013): Fólksbifreið hafnaði utan vegar í grýttri gjótu í Ásahverfi í Reykjavík um kl. tvö í nótt. Ásahverfi í Reykjavík? Hér hefur blaðamaður sennilega verið að villast. Líkast til átt við Ásahverfi í Garðabæ. Og hvað er grýtt gjóta? Hraungjóta?

Magnús benti á eftirfarandi (07.06.2013): „Sendu hundaskítinn til síns heima“
Hvernig í ósköpunum er það mögulegt? Varla hafa greyin verið ánægð með þá aðgerð.
(http://www.visir.is/sendu-hundaskitinn-til-sins-heima/article/2013130609348)” Nei, hvað skyldu samtök dýraverndarsinna segja um þessa meðferð á hundunum?

Í morgunútvarpi Ráasar tvö á föstudagsmorgni (07.06.2013) var minnst á efni dagblaðanna eins og venja er. Meðal annars nefnd frétt Fréttablaðsins þar sem vitnað var í grein í efnahagsritinu Vísbendingu eftir Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðing, þar sem kemur fram að ávinningur Íslendinga við að hætta við krónuna og taka upp evru gæti numið 80 til 100 milljörðum króna á ári. Viðbrögð umsjónarmanna við þessari frétt voru svolítið einkennileg. Þeir sögðu: Krónan er nú krónan, já ,króna er króna. Þetta hafa sjálfsagt einhverjir skilið sem svo að þeim þætti ekki mikið til þessara útreikninga Benedikts Jóhannessonar koma. Annars er í morgunþætti Rásar tvö oft ýmislegt fróðlegt að finna.

Sverrir skrifaði (07.06.2013): ,,Oft þegar verið er að tala um að eitthvað hafi minnkað t.d. fjárframlag er orðalagið „þrisvar sinnum minna“, 12 millj. ætti þá að vera 36 millj. minna = -24 millj. en mig grunar menn meini 2/3 minna eða 4 millj.
Um leið og ég þakka fyrir góða þætti langar mig að vita þinn skilning á þessu”. Molaskrifari deilir þessu skilningi með þér, Sverrir.

Af mbl.is (07.06.2013): Beth Fox var í gær afhent Cobb verðlaunin sem bandaríska sendiráðið veitir einstaklingi sem hefur lagt sig í líma við að styrkja tengsl Bandaríkjanna og Íslands. Hér hefði átt að standa: Beth Fox voru í gær afhent Cobb verðlaunin sem ….

Af mbl.is (07.06.2013): Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Bretadrottningar, er að jafna sig eftir skurðaðgerð á sjúkrahúsi, en hann var skorinn upp á kvið. Þetta finnst Molaskrifara dálítið undarlegt orðalag: .. skorinn upp á kvið! Var hann ekki bara skorinn upp, eins og sagt er ?

Í þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (07.06.2013) hefur ýmislegt skolast til hjá fréttaskrifara fréttastofunnar http://frettir.ruv.is/doms-og-logreglumal/tollurinn-rymri. Þar segir meðal annars: Þann fyrsta mars síðastliðinn hækkaði heimildar ferðamanna til að koma með tollfrjálsan varning með sér til landsins. Og eins og hér kemur fram er þetta rúmlega þriggja mánaða gömul frétt. Eins og venjulega les enginn yfir og leiðréttir. Menn skrifa óleiðréttan texta beint inn á vefinn. Ekki vönduð vinnubrögð.

Í fréttum er aftur og aftur (07.06.2013) talað um kynferðismök. Hvað er að orðinu kynmök?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>