«

»

Molar um málfar og miðla 1226

Svolítill vandræðagangur hefur verið í kringum nafn á smáforritum sem á erlendum málum eru kölluð app – hvað eigi að kalla þessi fyrirbæri á íslensku. Molaskrifari sér ekkert því til fyrirstöðu að nota orðið app eins og ýmsir hafa bent á. Það er ekkert verra lánsorð en til dæmis jeppi (e. jeep – General Purpose Vehicle, GP). Jeppi fellur prýðilega að málinu. Það getur orðið app líka gert. Við beygjum það eins og happ.

Það er líklega til marks um að maður sé nokkuð farinn að eldast þegar maður hnýtur um það í blöðum ( Morgunblaðið 08.06.2013) að talað er um svonefnda nýsköpunartogara! – Og þegar íþróttafréttamaðurinn Sigurður Sigurðsson, frá því hér forðum tíð, er sagður Sigurðarson í sama blaði!

Ágætar umræður í Vikulokaþætti Hallgríms Thorsteinssonar á Rás eitt (08.06.2013). Hallgrímur sagði að forseti Íslands hefði flutt hefðbundna þingsetningarræðu. Það var ekki alveg rétt. Hann flutti óhefðbundna ræðu þar sem hann tók að sér hlutverk utanríkisráðherra lýðveldisins. Fróðlegt verður að sjá hvort núverandi utanríkisráðherra unir þessari sjálftöku valds, sem raunar er ekki nýtt fyrirbæri í valdatíð núverandi forseta.

Fínt að vera búin að fá nýja myndarunu sem inngang að fréttum Ríkissjónvarps. Þó fyrr hefði verið. Margir sjálfsagt búnir að fá nóg af þeirri gömlu með svínssnoppunni og forsetahjónum að búa sig undir að skera tertu.

Svona auglýsir Blómaval á netinu (08.06.2013): Brjáluð verð á sumarblómum á Garðadögum. Varla verður sagt að þetta sé til fyrirmyndar. Ekki einu sinni fyndið.

Svolítið sérkennilegt orðalag í frétt á vef Ríkisútvarpsins: Kína og Bandaríkin semja um loftslagsmál, segir í fyrirsögn. http://www.ruv.is/frett/kina-og-bandarikin-semja-um-loftslagsmal Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að ekki hefur verið gerður neinn samningur. Forsetar landanna lýsa aðeins vilja til að vinna saman. Í fréttinn segir einnig að þetta sé í fyrsta skipti sem Kína og Bandaríkin bindast tryggðarböndum á þessum vettvangi. Bindast tryggðarböndum?

Ef sæmileg máltilfinning væri til staðar hjá ráðamönnum og þeim sem sýsla með málfar í Ríkisútvarpinu okkar þá héti þáttaröðin sem enn er verið að sýna og á ensku heitir Outnumbered ekki Enginn má við mörgum. Heldur Enginn má við margnum eins og málvenja er að taka til orða, þegar við ofurefli er að etja. Það er heldur pirrandi að heyra niðursoðnu konuröddina sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins klifa sífellt á: Enginn má við mörgum. Enginn má við margnum er rismeira og fallegra mál. Málfarsráðunautur lætur lítt til sín heyra og fær kannski engu ráðið, – sé hann enn að störfum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæl, Margrét. Það er fáránlegt að tala um ölvunardrykkju! Drykkja hefði dugað. Enn einu sinni kemur í ljós að enginn les yfir og leiðréttirvillur eða færir til betri vegar. K kv Eiður

  2. Margrét Brynjólfsdóttir skrifar:

    Sæll Eiður. Mig langar að segja frá orði sem ég heyrði í fréttum Stöðvar2 í kvöld. Þar var talað um „ölvunardrykkju“ unglinga. Þetta orð stakk mig illilega – en það var notað aftur og aftur í fréttinni.
    Kveðja
    Margrét Brynjólfsdóttir
    Lyngholti 8
    603 Akureyri

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>