«

»

Molar um málfar og miðla 1227

Stundvísi í dagskrá Ríkisútvarpsins er til fyrirmyndar. Ekki þarf annað en að hafa kveikt t.d. á BBC, sjónvarpi eða útvarpi til að komast að raun um að ekki skeikar þar sekúndu á upphafi frétta. Í Ríkissjónvarpinu var stundum eins og enginn kynni á klukku, en það hefur færst til betri vegar í seinni tíð. Of sjaldan er þó beðist velvirðingar á því er dagskrárliðum seinkar. Veldur því forneskjufyrirkomulagið að vera með niðursoðna konurödd sem kynnir dagskrána. Konan er hvergi nærri þegar kynningarnar eru fluttar. Óskiljanlegt fyrirkomulag.

Í fréttum Bylgjunnar (09.06.2013) var sagt frá bíl sem ekið hefði verið í grýtta gjótu í Ásahverfinu í Garðabæ. Grýttar gjótur eru ekki í Ásahverfinu. Sennilega hefur bílnum verið ekið út af Vífilsstaðavegi og í hraungjótu. Orðaleppurinn grýtt gjóta var einnig á stjái á mbl.is eins og vikið var að í Molum nýlega.

Ágætt yfirlit í fréttum Stöðvar tvö (10.06.2013) um fáránlega mismunun í álagningu virðisaukaskatts í ferðaþjónustu.

Í fréttayfirlit í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.06.2013) var sagt: Læknakandidatar segja aðbúnað og launakjör á Landspítalanum stórlega ábótavant. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja: Læknakandídatar segja aðbúnaði og launakjörum á Landspítalanum stórlega ábótavant. Í sama fréttayfirliti var talað um að kenna andstæðingum lexíu, – beint úr ensku, – teach a lesson.

Ekki náðist í Háskóla Íslands við vinnslu fréttarinnar, var sagt í síðdegisfréttum Ríkisútvarpsins (10.06.2013). Engin leið er að segja að hér sé vel að orði komist.

Í sjónvarpsauglýsingu er talað um þurrgufur með mismunandi ilmum (10.06.2013). Orðið ilmur, angan, er ekki til í fleirtölu.

Sigurjón M. Egilsson var með góðan inngangspistil í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni (09.06.2013). Hann beindi þar spurningum til forseta Íslands og forsætisráðherra um ummæli þeirra í tengslum við þingsetninguna. Forsetinn talaði um ummæli ótilgreindra ráðamanna um aðildarumsókn Íslands að ESB sem stangast á við allt sem aðrir hafa sagt svo og hin fáránlegu ummæli forsætisráðherra um að fullveldismálin heyrðu undir forsetann. Engu var líkara en forsætisráðherrann væri kominn í vinnumennsku á Bessastöðum! En hvað skyldi prófessor í stjórnlagafræði við Háskóla Íslands og seinna formaður Framsóknarflokks og forsætisráðherra , Ólafur Jóhannesson, hafa sagt um þessi ummæli núverandi forsætisráðherra um að fullveldismál lýðveldisins heyrðu undir Ólaf Ragnar Grímsson?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>