Morgunblaðið greindi frá því á forsíðu (11.06.2013) að sinfóníuhljómsveitin í Kænugarði í Úkraínu hefði fallist á þá beiðni Árna Johnsens fyrrverandi alþingismanns að hljóðrita verk eftir hann. Blaðið segir hljómsveitina eina þá fremstu í heimi . Ekki kemur fram hvort verkið verði flutt opinberlega eða hvort tónskáldið muni syngja með sinfóníuhljómsveitinni. Það kemur væntanlega í ljós síðar. Morgunblaðið bregst ekki, frekar en fyrri daginn, þegar að merkum menningarviðburðum kemur.
Molalesandi sendi eftirfarandi til umhugsunar(10.08.2013): ,,xxxxx bendir á að slíkar kvartanir séu sendar þjónustuveri Facebook sem staðsett sé á Indlandi. Þar sé staða kvenna með því versta sem þekkist. Hún sjálf gekk lengra og sendi bréf til höfuðstöðva Facebook.„Það er óásættanlegt að í praxís sé það smekksatriði starfsmanna í „versta landi fyrir konur í heiminum“ hvaða digital mannréttinda konur njóta í stærsta netsamfélagi heims. Það er ekki mikið mál að laga þetta ef viljinn er fyrir hendi, og núna tel ég lag að hjálpa Facebook að fá þann vilja með smá digital þrýstingi. Lausnin liggur bókstaflega í fingurgómunum,“ segir xxxxx í samtali við Smuguna.” Fæ það stundum á tilfinninguna að sumt sé bara til á netinu, því í hinum raunverulega heimi kannast oft enginn hvað átt sé við.F yrir nú utan það,að ef fólk vill koma málstað á framfæri á netinu að reyna gera það á mannamáli svo fólk skilji hvað sé við átt við.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Á hverjum degi birtir Morgunblaðið teiknaða skopmynd á bls. 8.Þær eru misjafnar eins og gengur og gerist. Hitta stundum hnyttilega í mark. Á miðvikudag (12.06.2013) brá blaðið út af venju og birti tvær skopmyndir á Staksteinasíðunni. Undir teiknuðu myndinni er ljósmynd af Guðna Ágústssyni fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins og kunningja hans, alvarlegum á svipinn, með skilti sem á er letrað: Sigmundur Davíð blessi heimilin. Svona rétt eins og á mörgum íslenskum heimilum var, og er kannski enn, útsaumuð mynd þar sem segir: Drottinn blessi heimilið. Húmorinn bregst ekki hjá Guðna. En hvcort hann eykur veg og virðingu átrúnaðargoðs síns með uppátækinu er svo önnur saga.
Í þessari frétt á mbl.is (11.06.2013) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/11/franskir_flugumferdarstjorar_i_verkfall/ er sagt að franskir flugumferðarstjórar séu að mótmæla breytingum á lofthelgi með verkfalli. Molaskrifari er á því að verið sé að mótmæla breytingum á flugstjórnarsvæðum, sameina flugstjórnarsvæði til að greiða fyrir og einfalda flugumferð. Ekki sé verið að breyta lofthelgi einstakra ríkja. Íslensk lofthelgi er til dæmis miklu minni en íslenska flugstjórnarsvæðið.
Gunnar sendi eftirfarandi (11.06.2013) : ,,Bravó fyrir Óttarri Proppé
Ég veit ekki hvort fyrirsögn eins og hér fyrir ofan er til marks um beygingafælni ellegar eitthvað annað.
Þó virðist sem margir geri sér ekki grein fyrir að seinna R-ið í karlmannsnöfnum sem enda á ar (Gunnar, Ragnar, Steinar, o.s.frv.) er nefnifallsending (leifar af herja (nf. herji), sem enn fyrr var harjaR í gotnesku). Endingin er löngu brott fallin í almennu máli, en ekkert við því að segja að einstakir nafnberar viðhaldi gömlum rithætti, enda beygi þeir nöfnin rétt.
Það að nota þágufallið Óttarri og eignarfallið Óttarrs virðist hins vegar svipuð villa og ef við segjum frá Guðmunduri eða tölum til Guðmundurs (eða Guðmundurar) .
Orðsifjafræðin má til dæmis finna í Nudansk ordbog, sbr. þar nafnið Ragnar.
Fyrirsögnin var á Eyjunni merkt pressunni.is, en er smellt var á fyrirsögnina birtist fréttin með fyrirsögninni Bravó! “ Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar