Málglöggur vinur Molanna vísar til fréttar á dv.is (12.06.2013) og segir: ,,Hér er ágætt dæmi um ,,myndi” i staðinn fyrir að nota ,,vafalausan”viðtengingarhátt.
Sögnin ,,myndi“ er góð og gild sem slík en hún táknar yfirleitt fyrirvara eða vissa tilhneigingu til að draga úr fullyrðingu. Það sýnir vankunnáttu í merkingum orðanna að nota hana á þann hátt sem sjá má í eftirfarandi dæmi þar sem sett er fram afdráttarlaus fullyrðing:
,,Athygli vakti að Árni Páll talaði um að þingið þurfi að tryggja að stjórnarandstaðan hafi trúnaðarupplýsingar um efnahagsmál og það mætti ekki endurtaka sig að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins myndi aftur halda slíkum upplýsingum frá þinginu líkt og síðast þegar þessi flokkar voru við völd.”
Þetta er klaufalega orðað. Í staðinn fyrir ,,myndi halda upplýsingum” ætti að standa ,,að ríkisstjórn F og S héldi aftur slíkum upplýsingum frá þinginu”.
Hér má benda á í upphafi tilvitnunar: „Árni Páll talaði um að þingið þurfi að tryggja … Hér ætti frekar að standa þingið þyrfti … (á eftir þátíðarsögninni nokkrum orðum framar).! Allt eru þetta réttmætar ábendingar. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (12.06.02013) var sagt: Frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um breytingar á lögum um Rúv var dreift á Alþingi í gærkvöld. Fallafælni enn á ferð. Frumvarp var ekki dreift á Alþingi. Frumvarpi var dreift á Alþingi. Frumvarpið er heldur ekki um breytingar á lögum um Rúv. Það er um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Rúv skammstöfun útvarpsstjórans, sem tönnlast er á allan sólarhringinn á sér enga stoð í lögum.
Molaskrifari er vanur því að þegar rennsli minnkar í á, sem flóð hefur hlaupið í, sé talað um að sjatnað hafi í ánni. Í fréttum Ríkisútvarpsins (12.06.2013) af flóði í Hjaltadalsá var ítrekað sagt að áin hefði sjatnað. Vel má það að sjálfsögðu rétt vera, þótt Molaskrifara sé það orðalag nokkuð framandi. Hann hefði sagt að sjatnað hefði í ánni.
Sigurgeir sendi eftirfarandi (12.06.2013): ,,Í morgunþætti Ríkisútvarpsins sl. laugardag var m.a rætt um upptökur á Spaugstofuþáttunum forðum tíð og kom Bogi Ágústsson, yfirmaður fréttadeildar inn í það spjall. Um það hafði hann þessi orð:
-Aktíft voru nær allir involveraðir í þann prósess.
Mér er til efs að Bogi, sem er alla jafna prýðilega máli farinn, hefði tekið svona til máls í fréttatíma sjónvarpsins. Hann hlýtur að eiga betri (og íslenskari) útskýringu á þessum texta.”
Rétt er það, Sigurgeir, að Bogi er prýðilega máli farinn. Hann hefur aðeins gleymt sér þarna. Það verður okkur öllum á.
Í fréttum Ríkissjónvarps (12.06.2013) var sagt: ,,Misskilningur í samskiptum lögreglumanns og dómara urðu til þess að dyrum var lokað og þeirra gætt …” Það er slæmt þegar fréttamenn heyra sig ekki lesa villu af þessu tagi og leiðrétta því ekki. Hér hélt fréttamaður lestrinum áfram óhikað eins og ekkert hefði í skorist. Hér hefði auðvitað átt að segja: Misskilningur milli …. varð til þess …
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar