«

»

Molar um málfar og miðla 1230

Molalesandi skrifaði (13.06.2013): ,, Það kom á óvart að heyra í útsendingu Ríkissjónvarpsins frá úthlutun Grímuverðlaunanna í gærkvöldi að nokkrir þeirra sem tóku til máls kunnu ekki að beygja orðin bróðir og systir, voru með þau óbreytt í aukafalli. Þetta var svolítill ljóður á jafn ágætri hátíð og vel heppnaðri.
Ef þú sæir ástæðu til að víkja að þessu, stjakar það kannske við e-m.”
Það fór ekki hjá því að Molaskrifari veitti þessu einnig eftirtekt og nefnir þetta því hér. Vonandi stjakar það við einhverjum eins og bréfritari sagði.

Á miðvikudagskvöld. (12.06.2013) seinkaði seinni fréttum Ríkissjónvarps um 15 mínútur vegna beinnar útsendingar frá afhendingu leiklistarverðlaunanna Grímunnar. Engin afsökun eða tilkynning á skjánum. Klukkan 2215 sagði niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá sjónvarpsins: Að loknum tíu fréttum … Það voru engar fréttir klukkan tíu. Það var ekki fyrr en fréttir loksins hófust að Jóhanna Vigdís þulur bað áhorfendur afsökunar á seinkuninni og sagði hversvegna fréttum hefði seinkað. Hvað ætlar Ríkissjónvarpið lengi að halda áfram að sýna áhorfendum ókurteisi? Svona gerir engin alvöru sjónvarpsstöð. Það er óboðlegt að vera með niðursoðnar kynningar og engan til taks til að gera grein fyrir ófyrirséðum breytingum á dagskrá. Yfirstjórninni í Efstaleiti þykir óþarfi að koma kurteislega fram við þjóðina.

Frá Molalesanda (13.06.2013): „Taumlaus gleði, stuð og stemma …“ er upphaf auglýsingar um þáttinn Virka morgna á Rás 2. Orðið stemma er skv. Wikipedia: „… lagstúfur notaður til að flytja hefðbundinn íslenskan kveðskap, oftast rímur eða lausavísur. Þegar stemma er flutt er það kallað að kveða, það er tegund af söng, sem leyfir vissan breytileika og dregur oft seiminn.“ Ég hef heyrt Andra Frey tala um „góða stemmu“, þegar átt er við stemningu. Þarna er verið að rugla saman ólíkum meiningum.” Þetta er hárrétt. Molaskrifari þakkar bréfið.

Þóroddur skrifaði (13.06.2013): ,,Mér blöskraði í morgun. Útvarpsfígúran Andri, á Rás 2, talaði um Neyðarlínuna og sagði í upphafi: „Einn, einn, tólf“, sem væri 1112, sem er ekki til. Og svo síðar í samtalinu talaði hann margoft um „hundraðogtólfuna“ eða „hundraðogtólf“. En öryggis vegna á alltaf að tala um „Einn, einn, tvo“, vegna þess að ef t.d. börn hringja inn, eða fólk í áfalli, er mikilvægt að hugsa um staka tölustafi, ekki samsetta. Það hefur verið marghamrað á þessu, en greinilega ekki síast inn hjá útvarpsmanninum unggæðingslega. Sem betur fer hringdi hlustandi inn til að leiðrétta þetta.” Molaskrifari þakkar bréfið. Yfirmenn í Efstaleiti leggja metnað sinn í að hampa þessum dagskrárgerðamanni. Svo undarlegt sem það nú er.

Stefán sendi eftirfarandi (13.06.2013): ,,Á vef Viðskiptablaðsins, vb.is er skrifað um að ný flugvélartegund, Airbus 350, fari fljótlega í loftið.
Þar segir frá því að vélin verði framleidd í nokkrum útgáfum. Ein þeirra muni sitja 314 farþega, önnur muni sitja 350 farþega o.s.frv.
Þetta er í annað eða þriðja sinn sem ég hef tekið eftir þessu orðalagi í VB.
Vélarnar munu taka 314 farþega í sæti. Eða einfaldlega taka 314 farþega,því við vitum flest að enn er gert ráð fyrir því að hver farþegi fái sæti.
Enskan er greinilega að rugla þennan ágæta blaðamann.”. Kærar þakkir, Stefán. Já, hér skín enskan í gegn, einu sinni sem oftar! Því miður

Í gær, föstudag (14.06.2013), sýndi norska sjónvarpið (NRK1) athyglisverða heimildamynd um hernám Danmerkur 9. apríl 1940, Sólarhringurinn sem við gleymum aldrei, hét hún. Íslenska Ríkissjónvarpinu ber skylda til að sýna okkur svona myndir. Þessir atburðir eru hluti Íslandssögunnar. Efni af þessum toga finnur nær aldrei náð fyrir augum stjórnendanna í Efstaleiti þar sem asklokið er stundum himinn. – Norski þýðandi textanna við þessa mynd hefur ekki trúað því að danskur stjórnmálamaður héti Christmas Möller og kallaði hann Christian Möller. John Christmas Möller var lengi formaður danska íhaldsflokksins og var það er Þjóðverjar réðust inn í Danmörku. Þeir höfðu alla tíð horn í síðu hans. Hann var virkur í andspyrnuhreyfingunni og flúði til Bretlands 1942 og tók sæti í dönsku útlagastjórninni þar. Einn af merkustu stjórnmálamönnum Dana á tuttugustu öldinni.

Molar strjálast ef til vill eitthvað á næstunni vegna gestagangs hjá skrifara.

Gleðilega þjóðhátíð!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>